Skip to main content
All Posts By

maggegg

Vorhátíð/Uppskeruhátíð 2023

Með Fréttir

Vorhátíð/Uppskeruhátið 2023

Það styttist í vorhátíðina og við hlökkum til að sjá ykkur með vor í augum og glöð yfir að vera í bata. Við kíkjum í fataskápinn okkar og finnum eitthvað sumarlegt og í glöðum litum til að fara í sem hæfir tilefninu.

Auðvitað væntum við þess að þið komið til að gleðjast með okkur og hvert með öðru miðvikudagskvöldið 17. maí kl. 20.00 í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Það er yndislegt að hittast á vorkvöldi á svo fallegum stað eiga saman góða stund. Þið megið líka gjarnan biðja fyrir góðu veðri.

Við ætlum að syngja saman létta söngva og þakka Guði á þann hátt fyrir batann í lífi okkar og svo heyrum við vitnisburði þeirra sem þekkja sporin og batann af eigin raun. Það er fátt meira uppörvandi en að heyra góða batasögu. Þórður leikur undir sönginn og svo heyrum við eitthvað gott bæði í tónum og tali frá Gísla og Herdísi. Sr. Arndís Linn sendir okkur svo út í vorið með blessun.  Við gefum okkur tíma fyrir kaffisopa og létta hressingu eftir stundina.

Takið kvöldið frá – og látið vita í hópunum ykkar og hnippið líka í eldri vini í bata. Það væri mjög gaman að finna samstöðu og stuðning frá eldri vinum í bata. Um að gera að taka með sér gesti. Endilega dreifið fréttabréfinu til þeirra vina í bata sem þið vitið um.

Starfshópurinn.

Aðalfundur Vina í bata verður 5. mars 2023 kl. 16.00

Með Fréttir

Boðað er til aðalfundar Vina í bata 2023 sunnudaginn 5. mars n.k. kl. 16.00 í Kirkju Óháða safnaðarins, Reykjavík

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf:
Skýrsla starfshóps – Reikningar 2022 – Kosning – Önnur mál.Við hvetjum alla áhugasama vini og vinkonur í batanm til að koma á aðalfund og kynnast störfum samtakanna og leggja sitt til málanna. Sérstaklega væri skemmtilegt að heyra hvernig starfið gengur á hinum ýmsu stöðum.

Batamessa verður svo í beinu framhaldi.

Starfshópurinn

 

Ný byrjun – 16 vikna ferðalag í Árbæjarkirkju

Með Fréttir

Tólf spora starfið í Árbæjarkirkju hefst að nýju 11. janúar 2023.

Um er að ræða 16 vikna prógramm sem hefst í janúar og lýkur í maí 2023. Fyrst eru tveir kynningarfundir þar sem fólk hefur tækifæri til að kynna sér prógrammið. Það eru allir velkomnir á þessa opnu fundi og ekki þörf á að skrá sig fyrirfram.

Fyrsti opni fundurinn verður miðvikudaginn 11. janúar kl. 19:00. Næsti opni fundurinn verður 18. janúar  en á þriðja fundi 25. janúar verður hópunum lokað og reiknað með að þau sem mæta þá ætli að vera með fram á vorið. (Best er að mæta á báða opnu fundina)

Fundirnir verða síðan vikulega á miðvikudögum kl. 19:00-21:00.

Batamessa í Lágafellskirkju sunnudaginn 8. janúar 2023 kl. 17.00

Með Fréttir

Batamessa sunnudaginn 8. janúar 2023

Það verður batamessa í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ, sunnudaginn 8. janúar 2023 kl. 17.00. Við skulum byrja nýja árið á því að koma í batamessu og hitta aðra vini í bata, byggja okkur upp fyrir starfið á nýja árinu.

Við heyrum vitnisburð þeirra sem hafa reynslu af sporunum og presturinn verður með eitthvað uppbyggilegt til að taka með út í daginn. Njótum þess að iðka 11. sporið saman.

Að messu lokinni bjóða vinir í bata í Lágafellskirkju upp á hressingu í Safnaðarheimilinu að Þverholti 3, Mosfellsbæ.

Sjáumst í batamessu!

Það verður batamessa í Grensáskirkju sunnudaginn 6. nóvember kl. 17.00

Með Fréttir

Það verður batamessa í Grensáskirkju í Reykjavík, sunnudaginn 6. nóvember n.k. kl. 17:00. Allir eru velkomnir í batamessu

Sr. María Ágústsdóttir og vinir í bata þjóna í messunni. Við heyrum vitnisburð frá Vini í bata og njótum þess að iðka 11. sporið og eiga samfélag við aðra vini í bata. Upplagt að bjóða einhverjum með í messuna til að kynnast starfinu.

Vitnisburður Vinar í bata – febrúar 2022

Með Reynslusögur

47 ára kvenkyns

Hvernig var lífið áður en þú fórst í sporin?
Ég hef alla tíð reynt að gera mitt allra besta og standa mig extra vel í öllu, auðvitað með misjöfnun árangri þó. Ég var alla tíð góður nemandi, þæg og hlýðin dóttir, frændrækin mjög, umhyggjusöm og tilbúin að aðstoða alla. Sjálfstæð um of og dugleg, ósérhlífin og vinnusöm. Svo mjög að ég setti ekki skýr mörk um hvað ég vildi eða gat þolað í samskiptum við fólk. Flækti mér í málefni annarra og tók á mig ábyrgð á alls konar hlutum sem voru alls ekki mín ábyrgð sem endaði oft með mikilli vanlíðan og tilfinningu um að vera ekki nóg – ég var aldrei nóg. Ég var aldrei nógu dugleg, nógu snjöll, nógu sniðug, nógu sterk, nógu fljót, nógu falleg, nógu skemmtileg….. aldrei nóg.

Var fólk að koma upp að mér og segja mér að ég væri ekki að standa mig nógu vel gætuð þið spurt? … nei nei það var ekki svo…. Yfirleitt þvert á móti var mér hrósað fyrir einmitt allt þetta sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru mínar eigin ranghugmyndir byggðar á upplifun minni á því hvernig fólk sæi mig og ég leitaðist eftir viðurkenningu umhverfisins með skaðlegum hætti fyrir sjálfið mitt. Því einhverra hluta vegna fylgdi skömmin mér eins og skugginn ef mér fannst ég ekki standa mig nógu vel eða mér fannst ég hafa átt að vita betur í einhverjum aðstæðum og samskiptum. Ég grínaðist oft með það hér áður að ég væri með 5 háskólagráður í samviskubiti!… mér finnst það ekkert fyndið í dag, þegar ég skil afleiðingar þess.

Þau skipti sem ég var stolt af sjálfri mér og árangri í einhverju sem vel hafði tekist til – gat ég samt ekki leyft mér að njóta þess og dvalið í stoltinu – mér fannst ég ekki eiga það skilið að gleðjast eða láta á því bera að ég væri stolt. Því þá væri ég montin og hvað myndi nú fólk segja yfir því?

Hvað gerðist til að þess að þú tókst skrefið?
Það var svo fyrir ca. 4 árum síðan að mér fannst ég klessa á vegg. Ég veit að margir á mínum aldri upplifa einhvers konar tímamót, kulnun eða vakningu á þessum árum. Ég var einhvern veginn búin að mála mig út í horn í samskiptum, lofa upp í ermina á mér, vera ekki hreinskilin við sjálfa mig né samferðafólk um verkefnastöðuna mína og hve lítinn frítíma ég ætlaði sjálfri mér. Ég átti mér hvort eð er engin áhugamál og vissi ekki hvað annað ég ætti að gera en að vinna meira, sinna fleiri sjálfboðaliðastörfum eða annað slíkt. Ég hef bæði verið alltof þolgóð og dugleg mjög lengi sem er ekki góð blanda, því með því bað ég sjaldan eða aldrei um aðstoð þó ég væri að drukkna trekk í trekk. Mér fannst oft pínu óeðlilegt og sorglegt að eiga mér engin áhugamál og spurði oft vini og fjölskyldu, hvaða áhugamál gæti verið hentugt fyrir mig. Þau spurðu þá oft á móti, hvað langar þig, hverju hefurðu áhuga á?… það sorlega er að ég hafði ekki hugmynd um það. Svo aftengd var ég orðin eigin löngunum og þrám.

Ég var búin að lesa ýmislegt um meðvirkni og afleiðingar hennar ásamt því að fara á námskeið hjá Lausninni. Ég var búin að átta mig á að meðvirknin var orðinn ríkjandi þáttur í mínu fari sem að hamlaði mér og stuðlaði að mikilli vanlíðan og þar með litaði ástandið líka líðan þeirra sem standa mér næst. Þrátt fyrir að vera búin að kynna mér efnið töluvert og sækja námskeið, þá vissi ég ekki hvernig ég kæmist út úr þessu né skildi ég fyllilega hve djúpar ræturnar voru né hvar – hvenær og hvernig þær mynduðust í mínu tilfelli. Og þegar maður skilur það ekki þá getur maður ekki tekist á við brestina sína og ekki breytt og bætt hegðunarmynstrið sitt.

Hvernig er lífið núna í sporunum/eftir sporin?
Sporavinnan hefur svo sannarlega breytt mínu lífi og er orðin eitt mesta og besta verkfærið sem ég á í verkfærakistunni minni til sjálfseflingar. Ég öðlaðist í fyrsta sinn sanna sjálfsmildi og sjálfsfyrirgefningu eftir fyrsta hringinn. Ég náði loks að sætta mig við að vera fullkomlega ófullkomin manneskja með bæði fullt af göllum en líka fullt af kostum. Ég skil núna miklu betur hvernig, hvar og hvenær ákveðnir þættir í uppvextinum hafa valdið því að ég hef staðnað, tilfinningalega í viðbrögðum mínum við fólki og atburðum, eins og ég sé aftur komin til baka til þess tíma þegar ég var lítil og kunni ekki aðrar leiðir til að takast á við erfiðleika og mótlæti. Með því að ná þessum skilningi í því örugga og kærleiksríka umhverfi sem vinnan í fjölskylduhópnum er þá náði ég loks dýrmætum bata sem ég þakka Guði fyrir og góðu englunum hans sem ég er svo lánsöm að hafa í lífi mínu.

Þvílík blessun!

Fræðsluþættir um Tólf sporin

Með Fréttir

Við viljum vekja athygli á útvarpsþáttunum um Tólf sporin. Góð kynning á starfinu.

Það verður aftur farið að útvarpa Tólf spora þáttunum á Lindinni – sá fyrsti verður fimmtudaginn 1. september 2022 og svo vikulega í framhaldi.

Á Útvarpsstöðvarinni Lindin er hægt að nálgast app Lindarinnar og þá er hægt að hlusta á allt mögulegt í símanum.

Við getum líka fundið og hlustað á Tólf spora þættina með því að smella á slóðina hér fyrir neðan:

Útvarpsþættir á Lindinni

Sumarkveðja

Með Fréttir

Nú er venjulegu sporastarfi væntanlega lokið á flestum stöðum. Allir komnir í sumarskap og farnir að vinna í garðinum sínum eða huga að ferðalögum.

Batinn er samt eitthvað sem við þurfum stöðugt að vinna að og finna okkar eigin leið til að halda okkar striki þó að hópastarfið sé ekki í gangi.

Það er auðvitað hægt að lesa tólf spora efni. Svo eru það viðhaldssporin: 10. sporið þar sem við tökum reglulega úttekt.  11. sporið þar sem við leitum eftir nálægð Guðs og hlustum eftir vilja hans. Loks 12. sporið þar sem við segjum öðrum frá því hvað sporin hafa gert í lífi okkar. Það staðfestir bata okkar og minnir okkur á hvernig lífið var, hvað gerðist og hvernig lífið breyttist við það að tileinka okkur sporin.

Hafið það gott í sumrinu og við minnum á að á heimasíðunni verður auglýst þegar nýjar byrjanir fara í gang í haust.

 

Aðalfundur vina í bata og batamessa 6. mars í Lindakirkju

Með Fréttir

Aðalfundur Vina í bata verður haldinn í Lindakirkju sunnudaginn 6. mars kl. 16.00
Við sem kunnum vel að meta sporastarfið mætum vel á aðalfundinn og tökum þátt í starfinu.

Dagskrá:

  1. Fundur settur – kosinn fundarstjóri og fundarritari
  2. Skýrsla starfshóps
  3. Ársreikningar
  4. Kosning í starfshópinn og skoðunarmenn
  5. Önnur mál

Kl. 17.00 eða í beinu framhaldi verður Batamessa í Lindakirkju

Allir eru velkomnir í batamessu