Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2019

Batamessa febrúarmánaðar verður í Bessastaðakirkju

Með Fréttir

 

Það verður batamessa sunnudaginn 3. febrúar kl. 17.00 í Bessastaðakirkju.

Allir eru velkomnir í batamessu og takið endilega með ykkur gesti.

Við heyrum vitnisburði og fáum ýmislegt gott til að taka með okkur út í daginn.

Ellen Kristjánsdóttir gleður okkur með tónlist.

Vinir í bata í Garðasókn bjóða upp á létta hressingu í safnaðarheimilinu að
Brekkuskógum 1, Álftanesi á eftir.

Tólf sporin var andlegt ferðalag

Með Reynslusögur

Tólf sporin – Andlegt ferðalag

Í október s.l. sat ég við eldhúsborðið og var að fletta blöðunum. Þá rakst ég á litla auglýsingu frá Vinum í bata þar sem þeir voru að auglýsa byrjun á 12 spora námskeiði, byggt á bókinni Tólf sporin – Andlegt ferðalag, sem átti að byrja í Grensáskirkju skömmu síðar.

Venjulega tek ég ekki eftir svona auglýsingum en þarna var eins og einhver tæki af mér stjórnina og ákvæði fyrir mig að þetta væri nákvæmlega það sem ég þyrfti að fara í gegnum og síðan mætti ég á kynningarfund án þess að hafa hugmynd um hvað þetta væri eða um hvað þetta snerist.

Ég var þarna á þessum tímapunkti alveg að gefast upp á sjálfri mér og lífinu, mikið var búið að ganga á og ég var gjörsamlega búin á sál og líkama og vissi ekki hvað ég gæti gert til að grafa mig upp úr þeirri holu sem ég var búin að grafa mig niður í – ég var mjög ósátt og leið mjög illa, var lokuð inni í sjálfri mér og tilfinningalega dauð. Ég var búin að einangra mig frá öðru fólki, öll gleði var horfin út úr lífi mínu, ég var full af kvíða og ótta við eitthvað sem kannski gæti eða gæti ekki gerst, yfirfull af skömm og sektarkennd og fullviss um að ég ætti ekkert gott skilið. Ég var búin að lesa heilt bókasafn af sjálfshjálparbókum og það hjálpaði aðeins en dugði samt engan veginn. Ég var lifandi dauð.

Á kynningarfundinum fann ég strax þessa samkennd, að ég var ekki eina manneskjan í veröldinni sem var búin að týna sjálfri mér. Þarna er fólk sem er búið að ganga í gegnum ólíka hluti í lífi sínu en á það sameiginlegt að vera búið að missa tökin á lífi sínu og er reiðubúið að finna leiðina á ný með aðstoð æðri máttar og stuðningi hvers annars. Þarna er enginn komin til að dæma eða hneykslast.

Ég hélt af stað í 12 spora gönguna full bjartsýni og ákveðin í að fá eins mikið út úr þessu og ég mögulega gæti. Mér reyndar óaði við því að þetta tæki allan þennan tíma en í dag hugsa ég til þess með trega að þessu eigi eftir að ljúka og stefni að því að fara aftur næsta haust. Ég er mjög heppin með “fjölskylduhóp” því þó að við séum ólíkar þá erum við sannir “vinir í bata” og algjör trúnaður og traust ríkir innan hópsins.

Þó að ég sé ekki búin að ljúka sporavinnunni, aðeins komin í 8. sporið þegar þetta er skrifað, þá hefur ansi margt breyst í lífi mínu. Ég hlakka til að vakna á morgnana og takast á við nýjan dag. Ég er farin að upplifa gleðina á ný og leyfa mér að hlakka til og upplifa tilfinningar sem voru alveg horfnar. Ég er sáttari við sjálfa mig, umburðarlyndari gagnvart öðrum og hef ekki lengur áhyggjur af því hvað aðrir eru að gera eða hvort þeir eru að gera rétt. Ég er að læra það að eina manneskjan sem ég ber ábyrgð á er ég sjálf, ég stjórna því sjálf hvernig mér líður og hvort ég læt orð eða gerðir annara eyðileggja og eitra mitt líf. Ég er að læra að tileinka mér nýja lífssýn, hugsa öðruvísi og bregðast öðruvísi við óæskilegum aðstæðum.

Allt kostar þetta blóð, svita og tár en það er fyllilega þess virði. Það eitt að opna mig og deila tilfinningum mínum og játa yfirsjónir mínar og ófullkomleika fyrir einhverjum hefði mér fundist algjörlega óhugsandi fyrir nokkrum mánuðum síðan. Í dag þykir mér þetta mjög gott því innibyrgðar tilfinningar og sársauki er mjög þung byrði að bera og því þyngri sem meira hleðst upp. Ég gafst upp undan byrðinni og sem betur fer stóðu mér þá á því augnabliki opnar dyr Grensáskirkju og “Vina í bata” með sitt frábæra 12 spora námskeið og ég tel hiklaust að þetta hafi bjargað lífi mínu og ég verð mínum æðri máttarvöldum og forsjóninni eilíflega þakklát fyrir að hafa leitt mig í kirkjuna mína. Þarna hef ég eignast vini fyrir lífstíð, að ég tel, vini sem ég veit að mér er óhætt að treysta, þeir vita allt um mig og ég þarf ekkert að fela og þeir eru alltaf til staðar fyrir mig. Ég get óhikað verið ég sjálf í návist þeirra með öllum mínum kostum og göllum og það hjálpar mér að læra að standa með sjálfri mér innan um annað fólk.

Ég mæli eindregið með því fyrir alla að fara í þetta ferðalag því það gerir öllum gott, hvort sem þeir eru sáttir eða ósáttir í lífi sínu og það sem merkilegast er að þetta kostar ekki neitt. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig, ég er betri manneskja eftir.

Vinur í bata.

Tólf spora gangan mín

Með Reynslusögur

Tólf spora gangan mín

Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni 12-spora göngu.

Ég fór fyrst í 12-sporin fyrir 4 árum, það sem ég var að glíma við þá var aðallega: Reiði, Stjórnsemi, Minnimáttarkennd, Skort á sjálfsöryggi, Eigið niðurrif, Neikvæðni, Hefnd, Tilgangsleysi, Fullkomnunarþörf, Hvatvísi, Skoðanaleysi, Tilfinningaheft, Hræðsla (sérstaklega við höfnun), Sektarkennd, Óöryggi.

Ég fann engan tilgang með lífinu og sá enga leið út, ég hafði verið að sækja Al-anon fundi sem gerðu mér gott en ég þurfti eitthvað meira, mér fannst ég stöðnuð, hafði heyrt af 12-sporunum en vissi í rauninni ekki hvað þau voru þegar við tókum okkur þrjár saman og fórum í gegnum þau. Það tók okkur tvö ár enda fórum við bara á okkar hraða og svöruðum öllum spurningum sem var gott því þá komst ég ekki hjá því að svara líka þeim erfiðu. Í þessu ferðalagi mínu gerði ég mér grein fyrir því að ég var einungis að skafa kúfinn af því sem ég vildi greiða úr í mínu lífi þannig að ég fór aftur í gegnum sporin.

Ég veit í rauninni ekki hvar ég á að byrja með að segja hversu mikið sporin hafa breytt lífi mínu, þetta er eins og ég sagði við einn mann bara ókeypis sálfræðiaðstoð sem virkar. Mér finnst ég hafa fengið bata af mínum skapgerðarbrestum og er mikið lífsglaðari í dag en fyrir 4 árum. Ég er að sjálfsögðu ekki útskrifuð sem heilbrigð manneskja en ég er búin að komast að því að ég hef tilfinningar og skoðanir og hef rétt á að hafa þær en þarf ekki að sveiflast með annarra manna skoðunum.

Ég hafði sérstaka aðferð til að leyna mínu skoðanaleysi og tilfinningafrosti. Þegar einhver spurði mig að einhverju eða vildi mína skoðun svaraði ég út í hött og helst með einhverju niðrandi um persónuna þannig að hún varð kjaftstopp og þar með var málið dautt.

Ég hef líka fengið mikinn bata af minni stjórnsemi og get í dag leyft fólki að reyna aðrar aðferðir en mínar og get samþykkt að þær virka sem ég gat engann veginn gert áður, allt var best og flottast sem ég sagði. Ég taldi mér líka trú um að ef einhver gerði ekki eins og ég sagði þá þyrfti ég að hefna fyrir það, ég notaði þetta óspart á maka minn sem lét ekki og mun sem betur fer aldrei láta að minni stjórn, samskipti okkar voru á tímabili bara í einstefnu þar sem ég hafði orðið og braut hann niður ef hann lét ekki af stjórn, með von um betri hegðun frá honum.

Fullkomnunarþörf mín hefur lagast, í dag get ég leyft börnunum mínum að klæða sig sjálf og ekki skiptir máli hvort þau eru í krummafót eða í svörtu sokkabuxunum í stað þeirra rauðu, aðalatriðið er að þau klæddu sig sjálf og eru ánægð með það.

Erfiðast við að fara í sporin var að vita hvernig ég var en ekki hvernig ég yrði og þurfa að fara að vinna með manneskju sem ég í rauninni þekkti ekki og var ekki viss um að ég vildi kynnast, það er svo miklu auðveldara að vera bara í sínu fari. Ég var ekki hrædd við fordóma því mér fannst ég verða að gera þetta fyrir mig en ekki fyrir aðra. Ég var viss um að mín vellíðan væri mikilvægari en umtal annarra, enda segi ég í dag að ég sé að gera það sem alla langar að gera en fáir hafa kjark til. Frægur maður sagði: Viltu vera hamingjusöm eða viltu hafa rétt fyrir þér. Ég vil vera hamingjusöm og kaus þess vegna 12-sporin og sé ekki eftir því. Þetta er spurning um forgangsröðun og ég veit í dag að til þess að geta gefið af mér til minna barna og maka þá verð ég að vera í lagi og þess vegna stunda ég 12-sporin.

12-Sporin hafa:
Kennt mér að hafa samskipti við fólk.
Kennt mér að ég þarf ekki alltaf að hafa rétt fyrir mér.
Kennt mér að ég megi gera mistök.
Kennt mér að ég geti tekið eitthvað að mér án þess að vera viss um að klára verkefnið.
Kennt mér þolinmæði.
Kennt mér að vera hamingjusamari.
Kennt mér að líta á fólk eins og það er en ekki eins og ég við hafa það.
Kennt mér að virða skoðanir annarra.
Kennt mér að ég megi hafa skoðanir og að þær þurfi ekki að vera eins og hjá öðrum.

Ég vona að þessi saga mín verði til þess að styrkja þá sem eru að hugsa um 12-sporin en hafa ekki fundið sig í því að byrja. Þau virka.

Kona í bata.

Saga A

Með Reynslusögur

Saga A.

Mig langar til þess að skrifa mína reynslusögu því hún mun kannski hjálpa einhverjum.
Ef ég hugsa til baka og rifja upp hvernig barn ég var þá rifjast upp minningar sem sýna mér að ég fæddist alkóhólisti og hef verið með þennan sjúkdóm alla mína tíð.

Ef ég rifja upp þau ár sem ég var í barnaskóla þá kemur fyrst upp í huga minn að ég varð að vera inn í hópnum, stjórna og ráðskast með aðra. Ég var alltaf mikill foringi og passaði mig á því að vera það allstaðar svo ég myndi ekki lenda undir. Það var bara ein stelpa sem mér líkaði aldrei við og sú stelpa var líka foringi, hún gerði mér aldrei neitt en hún var svona eins og ég vildi vera mest áberandi hún ögraði mér og ég þoldi það ekki því ég vildi vera vinsælust, öllum átti að líka við mig og finnast ég æðisleg.

Ég var alltaf mjög mikið á móti áfengi og reykingum, stelpurnar í skólanum reyktu en ég kom ekki nálægt því, mér fannst það bara glatað og setti þvílíkt útá þá sem reyktu samt stóð ég alltaf með þeim þegar þau fóru út í sígó í frímínútunum. Þegar ég var í 8 bekk breyttist hins vegar allt. Ég kynntist stelpu sem var villingur ég byrjaði að hanga mikið með henni og ég gleymi ekki þeim degi þegar ég byrjaði að reykja sígarettur, vinkona mín reykti og einn daginn sagði ég: „Gefðu mér sígó ég ætla að byrja að reykja” og svo bara byrjaði ég að reykja og ekki í hófi heldur mökk reykja.

Ég man líka þegar ég byrjaði að drekka þessi sama vinkona mín pantaði sér vín og ég datt í það vínið sem ég smakkaði var Landi, ég fann á mér, horfði í spegil og hugsaði shitt….hvað er ég að gera? Ég vissi svo innilega að ég ætti ekki að vera að þessu en mér fannst þetta samt sem áður æðislegt.

Frá og með fyrsta skiptinu sem ég drakk breyttist allt. Ég breyttist í aðra manneskju varð villingur strauk að heiman, byrjaði að stela úr búðum, ljúga og særa aðra. Fyrsta alvöru fylleríið mitt endaði illa ég drakk mjög mikið, nokkrir strákar sturtuðu alveg í mig vodka og það endaði með því að ég drapst. Daginn eftir vaknaði ég og fékk að vita það að ég hefði misst meydóminn brennívínsdauð og vá.. mér leið ömurlega. Ég ældi og ældi – á einu kvöldi var ég búin að drekka mig dauða, strjúka að heiman, húkka mér far, missa meydóminn þannig að ég mundi ekki neitt eftir því og vaknaði á gólfinu á dýnu með engu laki og oj, þetta var ekki það sem ég hafði ætlað mér.

En það stöðvaði mig ekki, ég hélt bara áfram ég byrjaði að hanga mikið niður í bæ með fólki sem var eins og ég nennti að djamma, vildi stela og vera óheiðalegt. Ég byrjaði í neyslu, á sama deginum prufaði ég hass, og spítt eftir það leiddi eitt af öðru. Ég varð hrokafull, dómhörð og stöðugt í vörn. Ef einhver rakst óvart í mig þá trylltist ég. Ég varð stjórnlaus, leigði mér íbúð 15 ára með vinkonum mínum og þá fékk mamma nóg. Hún lét sækja mig og loka mig inni á unglingarheimili. Ég var brjáluð út í mömmu fyrir það og mér fanst hún bara geðveik, að hún hafði dirfst til að loka mig inni á einhverju unglingarheimili, en þetta var ekki í fyrsta og eina skiptið því þangað fór ég oft og á endanum í 2 mánuði, ég reif kjaft, strauk og var brjáluð út í mömmu mína.

Ég skreið yfir samræmdu prófin og náði tveim þeirra. Það var alltaf verið að reka mig úr skólanum og í 10. bekkjar ferðinni var ég svo full að ég fór í blackout og man ekki neitt nema brot og brot, ég gerði mig að geðveiku fífli. Ég grenjaði í skólastjóranum útaf einhverri kápu sem ég hélt ég hefði týnt og vá eftir þetta þá var ég eins og fífl í skólanum.

Í 10 bekk byrjaði ég með strák ég kom illa fram við hann, niðurlægði hann og var hreint út sagt vond við hann. Ég drakk mikið og illa, var í neyslu og hagaði mér samkvæmt því. Svona var lífið mitt til 17 ára aldurs þá fann ég botninn. Ég bjó á Hótelum og var með strák sem var rosalegur fíkill og ég elti hann, ég gerði bara það sem hann gerði og fylgdi honum í ræsið. Hann var langtum meiri fíkill en ég og á þessu tímabili þá var ég orðin meiri fíkill en hann. Við áttum mikla samleið á þessum tíma því við vorum bæði mjög andlega veik. Á endanum dó hann af völdum alkóhólisma. Ég var mjög langt niðri, og varð edrú. Á þessum tíma langaði mig mest til að deyja ég sat uppi ein, með klesstan bíl, fullt af skuldum, búin að svíkja og særa fólk í kringum mig og í þvílíkri sorg því kærastinn minn hafði dáið. Ég sótti fundi en vann aldrei sporin.

Ég sat marga AA fundi en allt sem var sagt þaut í gegnum eyrun á mér og ég hreinlega heyrði ekki í þeim sem voru að tala. Á endanum datt ég í það og það skipti endaði þannig að ég lenti á spítala og síðar inn á 33 A, þá fékk ég ógeð, algert ógeð. Ég fór í meðferð árið 2000 og var edrú lengi eftir á án þess að vera virk í AA, ég kynntist strák og við eignuðumst barn saman ég helgaði líf mitt barninu mínu og hætti að tala við fólk í neyslu. Ég tók móðurhlutverkið mjög alvarlega og vildi vera syni mínum góð móðir, fyrirmynd og standa með honum. Ég stóð við það og var edrú lengi lengi án þess að vera í prógrammi. Eftir langan edrú tíma var ég byrjuð að trúa því að ég væri ekki alki og að ég gæti bara fengið mér einn, tvo bjóra. Ég gerði það og það gekk vel þangað til að sagan fór að endurtaka sig. Sem betur fer áttaði ég mig strax og náði að snúa við blaðinu áður en ég fór niður á við. Ég sinnti barninum mínu 100% og mér gekk mjög vel í lífinu ég menntaði mig og svo framveigis.. Ég varð aftur ólétt og eignaðist annað barn og helgaði börnunum mínum líf mitt ég vildi vera þeim eins góð mamma og ég gæti.

Ég fór í sporin og tók þau með alvöru og sem betur fer því sporin gerðu svo ótrúlega margt fyrir mig og gera enn þann dag í dag. Í sporunum gerði ég upp fortíðina mína, losnaði við svo þunga byrði sem hafði hvílt á mér og óttinn, gremjan, vanlíðanin og bara allt fór. Ég er svo ótrúlega þakklát guði fyrir það hvað ég á yndislega fallegt, gleðilegt og yndislegt líf í dag og það er allt honum að þakka . Hann leiddi mig á rétta braut, hann styður mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og hann lýsir mér veginn. Með hans hjálp er ég edrú og er að gera virkilega góða hluti í lífinu.

Reynsl mín sannar að það er ekki gott fyrir mann að vera edrú í engu prógrammi því að prógrammið er það sem fær mann til að vera frjáls og hamingjusamur edrú. Með því að vera í prógrammi treystir maður guði og það er alveg yndislegt.

Ég vona svo innilega að þið sem lesið þetta, eruð alkar og ekki í neinu prógrammi farið í sporin því þá fyrst öðlist þið besta líf sem þið gætuð hugsað ykkur.

Gangi ykkur vel – Kona í bata

Reynslusagan mín

Með Reynslusögur

Reynslusagan mín

Þegar ég loks fór að gera eitthvað í mínum málum átti ég að baki 25 ára hjónaband og eftir það 6 ára sambúð sem ég var í en var líka um það bil að ljúka.
En af hverju??

Ég var fínn strákur (að eigin áliti) en þarna var bara svo komið að ég var komin niður í mjög djúpan dimman dal örvæntingar, kvíða og ótta sem eg sá enga leið út úr. Hvað átti eg að gera! Þá var það einmitt sambýliskona mín sem benti mér á hópastarf sem kallaði sig Tólf spora hópar.

Satt að segja hafði ég nú aldrei heyrt þetta nefnt en ákvað að hafa samband því ég varð að fá hjálp ég gat ekki meira. Ég tók upp símann og var mjög kvíðinn að tjá erindi mitt. Viðkunnaleg rödd í símanum sem ég upplifði sem englarödd tjáði mér að hún skyldi sjá hvað hún gætti gert fyrir mig því það væri búið að loka hópunum og starfið byrjað. Hvað var nú til ráða? Og aftur tóku kvíðinn og óttinn völdin. En vegna þess að Guð var komin inn í málið samþykkti hópurinn sem þá var byrjaður að starfa að taka mig inn í hópinn. Þvílík blessun að komast að raun um að til var fólk sem var svipað ástatt fyrir og mér sjálfum. Að heyra að öðrum leið eins og mér – þvílíkur léttir – en nú var mikil vinna framundan, vinna við að rannsaka og skoða sjálfan sig.

Það var alveg með ólíkindum hvað maður áttaði sig á mörgu sem miður hafði farið bæði í uppvexti sem barn og á unglingsárunum og svo á fullorðinsárum. Hvernig ég reyndi að hafa stjórn á öllu í kringum mig, ef það tókst ekki þá fór ég bara í fýlu og reyndi þannig að hafa áhrif á umhverfið! Og það sem verra var, fjölskylduna mína og ef það tókst ekki með fýlunni þá var nú alltaf sá möguleiki eftir að einangra sig frá öllum í fýlu þannig að allir í kringum mann voru á tánum. Að uppgötva að ég hafði reynt að stjórna umhverfi mínu með andlegu ofbeldi – því að það er það sem það heitir – var mjög sársaukafullt og mjög erfitt að horfa í spegil í langan tíma.

Og vegna þess að hegðunarmynstur mitt í seinna sambandinu var ekkert öðruvísi en í hjónabandinu mínu þá gafst sú kona auðvitað líka upp á þessu og mér var hafnað í annað sinn. Einmitt þetta sem eg var svo hræddur við HÖFNUN. Í síðara skiptið var þetta allt vegna þess að ég gaf mér ekki tíma til að athuga hvað það var sem hafði farið úrskeiðis í hjónabandinu mínu heldur æddi í næsta samband af því ég átti svo óskaplega bágt og gat ekki verið einn (það heitir sjálfsvorkunn). Betra hefði verið að gefa sér meiri tíma eftir skilnaðinn því þá væri ég ef til vill enn með þessari yndislegu konu sem vísaði mér á Tólf spora hópinn og stuðlaði þannig að bata mínum vegna þess að henni þótti vænt um mig – henni var ekki sama.

Núna eftir fjögur ár í Tólf spora starfinu hef ég öðlast sjáftraustið mitt aftur, ég er sáttur við sjálfan mig, ég get staðið á eigin fótum, er bjartsýnn aftur og elska lífið á ný og það er svo ekki lítið – en nákvæmlega þetta hef ég öðlast við að vera með Guði og góðum vinum í Tólf spora starfinu.

Kæra þakkir fyrir þann bata sem ég hef mátt öðlast.
Vinur í bat

Nýtt líf

Með Reynslusögur

Haustið 1996 veiktist ég af flogaveiki og átti í henni í 7 ár. Ég var á beinu brautinni, eins og sagt er, var að hefja mitt annað ár í háskólanámi, í sambúð og átti bjarta framtíð fyrir mér. Ég upplifði þetta eins og fótunum hefði verið kippt undan mér.

Stundum finnst mér eins og þetta hafi allt saman verið ein löng martröð. Ég var á mjög miklum lyfjum og þessi tími er svolítið í þoku og sumt man ég alls ekki. Stundum vissu læknarnir ekki hvaða einkenni voru frá sjúkdómnum og hvað var vegna lyfjanna, en þau ollu miklum aukaverkunum. Ég var td. á einu lyfi sem átti það til að rjúka upp í blóðgildi þannig að ég var eins og á 7. glasi, sá tvöfalt og gekk á veggi.

Þremur árum eftir að ég veiktist slitu ég og unnusti minn samvistum, hann var þá búinn að standa við hlið mér eins og klettur. Þá flutti ég til foreldra minna og þau sáu mig þá fá flogakast í fyrsta skipti. Það var þeim þungbært, þau höfðu oft annast mig eftir köst, en ekki gert sér grein fyrir hversu stór þau væru og óhugnanleg. Viðbrögð þeirra fóru illa í mig, þau vildu aldrei skilja mig eftir eina, en ég sé nú að þetta var gert af umhyggjunni einni saman.

Árið 2000 var ég send út til USA til þess að fara í skurðaðgerð. Ég gerði mér mjög miklar vonir um bata. Ég fór í ýtarlegar rannsóknir og kom þá í ljós að þeir treystu sér ekki til að gera aðgerð. Skipt var um lyf í kjölfarið og sjúkdómurinn breyttist. Köstin urðu fleiri en minni. Vonbrigðin voru mikil, mér fannst ólíklegt að reynt yrði aftur, en ég gafst ekki upp. Mér bauðst að fara til taugalæknis sem var ný kominn úr námi. Rannsóknarniðurstöðurnar voru sendar aftur til USA. Allt gekk mjög hratt fyrir sig, læknirinn fylgdi hlutunum vel eftir og stuttu seinna var ég aftur komin til Bandaríkjanna. Þar fór ég í heilaskurðaðgerð – þetta var fyrir sex árum og ég hef ekki fengið flogakast síðan.

Mér var sagt frá 12 sporunum í fyrra sumar. Hringt var í mig um haustið, rétt fyrir fyrsta kynningarfundinn, til þess að minna mig á hann. Þá voru báðir foreldrar mínir veikir og mér fannst ég verða að sjá um þau þar sem þau hafa gert svo ótrúlega mikið fyrir mig. Mér fannst útilokað að ég hefði tíma fyrir sporin. Ég var hinsvegar orðin algjörlega uppgefin og álagið var að sliga mig. Ég dreif mig á fundinn og eftir hann var ekki aftur snúið.

Veikindi mín reyndu mjög mikið á samskiptin í fjölskyldunni og ég náði að vinna mikið með það í sporunum. Ég skil sjónarmið foreldra minna og systkina mun betur. Mér finnst ég bregðast við áreiti af meiri yfirvegun, skilningi og kærleika. Ég tel mig hafa breyst, en ég breyti ekki öðrum.

Ég hef viljað halda því fram að sjúkdómar eins og flogaveiki séu tilvaldir til þess að brjóta fólk niður. Ég var alltaf að fela eitthvað, hrædd um að fá köst, skammaðist mín fyrir þau og áður en ég fór í sporavinnuna var ég hrædd um að vera hafnað eða litin öðrum augum vegna veikinda minna. Sporavinnan efldi mig mjög mikið, mér er sagt að ég hafi blómstrað, ég trúi því núna að ég geti gert nánast hvað sem er! Þar lærði ég einnig að bera virðingu fyrir sjálfri mér og setja mig í fyrsta sætið. Eins og við öll vitum er þetta lífsstíll, ég er rétt að byrja.

Sporavinnan víkkar sjóndeildarhringinn, það er gott að kynnast sjálfum sér almennilega og fyrirgefa bæði sér og öðrum. Sporin styrktu trú mína á Guð og ég er fullviss um að til er æðri máttur sem er með okkur og hjálpar okkur og styður í gegnum súrt og sætt.

Ég er uppfull af þakklæti og með góða tilfinningu í hjartanu. Guð gaf mér nýtt líf! Ég þarf að nota það vel. Ég er mjög heppin, ég er svo heppin að hafa verið orðin þetta gömul þegar ég veiktist, getað klárað námið mitt, vera með vinnu, eiga góða fjölskyldu og hafa náð bata því að ekkert af þessu er sjálfgefið!

Guð er svo sannarlega með mér í för.
Vinkona í bata

Vinur í bata sendi okkur sögu sína

Með Reynslusögur

Vinur í bata sendi okkur sögu sína:

Ég hef öðlast svo ótal margt í gegnum 12 spora vinnuna. Það er erfitt að reyna að útskýra það í fáum orðum en ég ætla samt að reyna.

Þegar ég horfi til baka yfir síðustu 3-5 árin í lífi mínu, sé ég niðurbrotinn mann. Mann án vonar, mann sem lifði í eilífum ótta. Það var einhvern veginn þannig að dagarnir voru bara ömurlegir. Ég hafði einn tilgang í lífinu sem var að lifa af daginn. En hver dagurinn á fætur öðrum var jafn ömurlegur og gærdagurinn. Í brjósti mér var vonin um að morgundagurinn yrði betri, hann varð að verða það. En alltaf brást það. Ég lifði í vonlausri stöðu: Dagurinn í dag var ömurlegur og morgundagurinn var alltaf á morgun.

Vikum og mánuðum saman svaf ég mjög illa, já stundum bara ekki neitt. En alltaf leið mér vel – alltaf var allt í lagi, út á við. En innra með mér hrópaði ég, gargaði: „Guð, vertu mér miskunnsamur! Veittu mér hvíld!“ svo vonaði ég bara að ég gæti sofnað og þyrfti aldrei aftur vakna. Kvíði, nagandi ótti, já í raun óútskýranleg skelfing og vonleysi. Ég var algjörlega magnþrota, hafði ekki krafta í neitt. Algjörlega tómur.

Á þessum tíma fannst mér ég vera ekkert og þaðan af verra; ég var öllum byrði. Mér fannst ég ekki vera þess virði að vera elskaður og fannst mér ekki takast að elska þá sem það áttu skilið. Sama hvað ég reyndi; allt fór á sama veg: Mistök, ósigrar og niðurlag. Allt mistókst; ég gat ekki sofið, ekki kom lífsgleðin, kvíðinn hafði öll völd. Ég lifði og hrærðist á valdi óttans og skelfingarinnar. Algjört myrkur og vonleysi. Lifandi en samt dauður. Ég var lifandi dauður.

Ég fór á Klepp. Ég hafði ekki getað sofið í nokkra mánuði. Það sem átti að veita mér hvíld og frið, var frá mér tekið. Ótti og kvíði réði öllu, líka svefninum. Þá sjaldan ég náði að sofna, knúði martröðin dyra og rændi mig hvíldinni. Loks fannst mér ég vera að sturlast. Hafði enga stjórn, hrapaði stjórnlaust inn í algjört myrkur. Ég dvaldi á Kleppi í 2-3 vikur, náði reglu á svefninn. Lyfin voru það eina sem hjálpaði á þessum tíma. Ég vissi að þunglyndi og kvíði plagaði mig. Ég vissi alveg að ég væri sjúkur en samt lifði ég í ákveðinni afneitun. Vissi þetta en sætti mig samt ekki við það, afneitaði því, gafst ekki upp fyrir þeirri staðreynd að ég væri í raun helsjúkur. Ég fór að sulla í bjórnum, hann sló svo vel á kvíðann. Að hann væri í raun á bandi þunglyndisins skipti minna máli og kvíðinn væri því margfallt verri daginn eftir. Ekkert breyttist. Ég var enn á valdi óttans og skelfingarinnar. Enn lifandi dauður.

Þá gerðist það að dóttir mín sagði: „Pabbi! Þú ert fífl, en mér þykir samt vænt um þig!“ Ég hringdi inn á Teig, meðferðardeild Landspítalans. Örfáum vikum síðar var ég kominn inn á dagdeildina og farinn að vinna í prógramminu. Ótrúlegt, strax á fyrstu dögunum hvarf kvíðinn og óttinn. Það var eins og starfsfólkið hefði rétt mér spegil og sagt: „Líttu á sjálfan þig!“ Með þeirra aðstoð og leiðsögn tókst mér að skilja eða sætta mig við það að ég væri þunglyndur og alki. Hægt og rólega var ég leiddur inn á braut 12 sporanna. Því líkur léttir. Ég var sjúklingur og þurfti aðstoðar við. Ég var ekki aumingi með hor, ég var ekki fífl eða þaðan af verra. Ég var veikur maður, hvort sem mér líkaði betur eða ver. Þungu fargi var af mér létt. Það var ekkert að mér í raun, ég var bara veikur. Bara veikur. Ég hafði ekki valið að verða svona. Enginn velur að verða þunglyndur eða hafa neikvæðar hugsanir. ENGINN. Þunglyndið reiddi til höggs; ég varð fyrir því. Svo einfalt var þetta.

En ég stóð aftur á móti frammi fyrir því vali hvort ég ætlaði að láta sjúkdóminn ráða mínu lífi eða hvort ég ætlaði að gera eitthvað til að sporna gegn honum. Í mínum huga sé ég einungis eina lausn: 12 sporin og samfélag við þá sem gengið hafa þann stig og haldið sínum sjúkdómi í skefjum með þeim. AA fundir skipta þar gríðarlegu máli. Án þeirra væri ég ekki hér. Þar hitti ég fólk sem hefur fetað sig veg hinna 12 spora, eitt skref í einu, einn dag í einu.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Fyrstu þrjú sporin fjalla um Guð, samkvæmt skilningi mínum á honum. Þau fjalla um það að gefast upp fyrir honum og leyfa honum að koma inn í líf mitt, leyfa honum að komast að með sína líkn og lækningu. Til þess að hann geti það verð ég þó fyrst að gefast algjörlega upp fyrir honum, sleppa takinu og falla í fang hans. Ég þarf að hætta „að hugsa“ því mín hugsun dregur mig frá Honum. Fyrir mig þýðir það að sleppa, að ég hætti að hugsa og leyfi Honum að komast að. Mínar lausnir/hugsanir hafa einungis leitt mig lengra inn í vonleysið og myrkrið. Ég sætti mig ekki við þunglyndið öðruvisi en með Guðs hjálp. Með því að sleppa algjörlega getur Guð hjálpað mér eins og hann vill. Þunglyndið hverfur ekki! En með uppgjöfinni fyrir Honum öðlast mér æðruleysi, óttaleysi, því Hann er hjá mér jafnvel þó ég gangi í gegnum dauðans skuggadal óttast ég ekkert illt. Hann er hjá mér, gengur mér við hlið. Aftur og aftur tekur Hann mig upp og ber mig yfir tálma og hindranir.

Kjark til að breyta því sem ég get breytt. Aðferð Guðs til bjargar mér birtist svo í næstu sex sporum. Þau lýsa lækningu Hans á mér og mínu lífi. En meðferð Hans krefst þess að ég gefi mig að þessu af heilum hug og dragi ekkert undan. EKKERT. Í þessum sporum skoða ég allt mitt líf og mína hegðun. Horfist í augu við hegðun mína og atferli. Viðurkenni allt það sem ég hef gert rangt á hlut annarra og minn eigin. Skoða það sem aðrir hafa gert mér. Næ sátt í líf mitt. Geri upp það sem gera þarf upp. Leita eftir fyrirgefningu þar sem ég þarfnast hennar og reyni af heilum hug að fyrirgefa það sem mér var gert. Þannig öðlast ég frið í hjarta og sinni. Lífið öðlast nýtt innihald, fær nýjan tilgang og markmið. Að lifa sáttur við Guð, menn og sjálfan mig.

Og vit til að greina þar á milli. Síðustu þrjú sporin fjalla svo um það hvernig ég get í mínu daglega lífi haldið áfram á leið batans. Dagleg reikningskil, bæn og tilbeiðsla.

Með þetta í farteskinu geng ég öruggum skrefum fram á veginn, æðrulaus. Ég hef ekkert að óttast eða æðrast yfir, bara ef ég held mig við þessa einföldu bæn, sem lýsa markmiði og tilgangi 12 sporanna svo vel. Ef æðrulaus ég geng, öðlast mér kjarkur til að takast á við lífið, breyta því sem breyta þarf, og við bæn og tilbeiðslu öðlast mér vit til greina á milli þess sem ég get breytt og hins sem ég verð að sætta mig við.

12 sporin hafa þannig umturnað lífi mínu. Sprengt það í tætlur á jákvæðan hátt, gefið lífi mínu nýjan og betri tilgang. Þar sem áður ríkti myrkur og vonleysi, lýsir ljós gleðinnar og vonarinnar. Þar sem áður ríkti sorg er nú gleði.

Nú lifi ég ekki lengur í vonbrigðum gærdagsins með von um að morgundagurinn verði betri. Nú lifi ég aðeins í dag. Ég er. Að ég var í gær eða að ég verði á morgun, hverju breytir það? Það eina sem skiptir máli er að ég er, NÚNA ekki í gær eða á morgun! Núna veitist mér tækifæri, ég get hvergi annar staðar verið. Tíminn hvorki kemur né fer, hann bara er. Það er enginn annar tími til!!

Æðruleysisbænin og 12 sporin snúast um hvað ég geti gert núna. Þetta er gjöf 12 sporanna sem mér er gefin. Má bjóða þér?

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Ferðarlagið mitt hér í kirkjunni

Með Reynslusögur

Ferðarlagið mitt hér í kirkjunni, með vinum í bata, byrjaði á einum litlum blaðasnepil sem kom inn um lúguna heima hjá mér. Þegar ég las á miðann, þá vissi ég að núna væri guð að aðstoða mig. Hann var að rétta mér hjálparhönd þegar ég þarfnaðist þess hvað mest.

Á þeim tíma sem vinir í bata byrjaði var ég nýbyrjuð hjá sálfræðingi og á þunglyndislyfjum. Mig vantaði mikla hjálp. En þetta brot úr ljóðinu Norðurljós eftir Jóhannes úr Kötlum finnst mér lýsa tilfinningunni þegar ég las bréfsnepilinn:

Ég vildi sigra sortans mátt og sjá í gegnum hann.
Því einhver þrá til æðra lífs í æðum mínum brann.
Ég þráði meira, meira ljós í mína veika sál.
Ég þráði glóð frá Guði sjálfum, glóð sem væri ei tál.

Á þessum tíma átti ég 10 mánaða stelpu og var mikið veik af fæðingarþunglyndi. Ég hafði fengið áfallastreituröskun í kjölfar fæðingar og var komin með ýmsar þráhyggjur og mikinn kvíða sem gerðu lífið mitt mjög erfitt.
Ég elskaði ekki barnið mitt. Ég var hrædd við hana. Ég sá eftir öllu saman. Ég var þakin samviskubiti yfir öllu sem ég gerði og fannst ég aldrei vera nógu góð. Ég hætti að elska sjálfa mig. Mér fannst ég sjálf vera horfin og ég þekkti mig ekki lengur. Ég átti erfitt með að eiga samskipti við annað fólk og fannst allir í kringum mig vera orðnir fífl. Það var erfitt að fara framúr rúminu og það var erfitt að hætta að gráta. Mér kveið fyrir öllu minnstu hlutum. Ég var viss um að lífið væri auðveldara fyrir alla án mín.

Ég fann að mig vantaði eitthvað meira en það sem ég fékk hjá sálfræðingnum, en ég vissi ekki hvað það væri. En fljótlega eftir að ég byrjaði í vinum í bata þá áttaði ég mig á því. Mig vantaði einhverskonar tengslanet. Mig vantaði að fá að að tjá mig við venjulegt fólk sem hafði alls konar reynslu. Fólk sem ég vissi að dæmdi mig ekki. Mig vantaði ekki bara að fá að tala, heldur vantaði mig líka á að fá að hlusta. Og það er einmitt það sem hjálpaði mér hvað mest, að fá að heyra að ég væri ekki sú eina sem væri að ströggla með daglegt líf. Að ég væri bara mannleg.

Ég átti mikla vinnu fyrir höndum. Erfiða vinnu. En ég vissi innst inni að sú vinna myndi á endanum bera árangur. Ástæðan fyrir því að ég vissi það er af því að ég hef áður unnið mikla sjálfsvinnu tengda meðvirkni. En ég er yngst níu systkina og er ein þeirra sem hef þurft horfa upp á ástvini sína berjast við fíknina. En pabbi minn er óvirkur alkahólisti og bræður mínir fjórir einnig ásamt því að vera líka óvirkir fíklar. Bróðir minn, sem ég er mjög náin, hefur þurft að glíma við geðhvarfasýki í nokkur ár, sem hann þróaði með sér þegar hann var sem lengst leiddur inn í heim eiturlyfja. Ég er því gríðarlega þakklát að hafa vitað í upphafi að fyrst ég væri byrjuð að vinna í sjálfri mér að þá myndi allt verða allt í lagi. Að það væri til lausn.

Hér í kirkjunni deildi ég hugsunum mínum og ég var ákveðin í því að skafa ekkert af hlutunum. Sama hve asnalegir þeir væru. Því bata skyldi ég ná að uppskera á endanum og þá leggur maður hjartað beint á borðið. Ég sagði frá öllum göllunum mínum og mistökum, vondum hugsunum og tilfinningum. En hægt og rólega fór ég að segja frá kostunum mínum og eiginleikum mínum sem ég mér hefur alla tíð þótt vænt um. Ég fann að þessi ég sem ég áður þekkti var að brjótast fram og ég byrjaði að finna fyrir létti. Hún var þarna ennþá, manneskjan sem ég elska hvað mest í lífinu. Það var svo gott að finna sjálfa sig á ný.

Að vinna sporin var alls ekki létt, enda af nógu að taka. En ég get svo sannarlega sagt að með þeim endurheimti ég líf mitt á ný. Í dag er ég ótrúlega hamingjusöm. Ég er þakklát. Ég elska stelpuna mína endalaust og samband okkar er mjög gott. Eitt það dýrmætasta sem ég lærði í sporunum og í vinnu minni hér í vetur er að ég hef alla tíð lagt of miklar kröfur á sjálfa mig. Í dag leyfi ég mér að vera mannleg, ég leyfi mér að gera mistök og að slaka á. Með vinum í bata fann ég þetta ljós sem mig vantaði í hjartað mitt og sálu.

Ferðalangur.

Ég fór í 12 sporastarf veturinn 2004

Með Reynslusögur

Ég fór í 12 sporastarf veturinn 2004-2005.

Líf mitt var á margan hátt stjórnlaust. Ég sveiflaðist eins og lauf í vindi og ég var mjög ómeðvituð um eigin tilfinningar og þarfir. Ég setti fólki ekki skýr mörk og leyfði öðrum að ráðskast með mig.
Vinnan í sporunum skilaði mér mun betri líðan og bætti lífsgæði mín.

Samt er það þannig að “lengi lærir sem lifir” og ákvað ég því að skella mér aftur í sporin s.l. vetur. Ég uppgötvaði – mér til ánægju að margt gott hafði áunnist síðan ég fór í 12 sporin um árið, en samt uppgötvaði ég fullt að nýjum hlutum og ég naut þess að vinna þessa sjálfsskoðunarvinnu.

Af nógu var að taka. Ég fann fullt af brestum sem ég þurfti að horfast í augu við. Það þarf kjark til að þora í sjálfsskoðun af þessu tagi, en ég bað góðan Guð margsinnis að hjálpa mér við þetta verkefni. Ég lærði líka að koma auga á kosti mína og láta mér þykja vænt um þá og vera þakklát fyrir þá.

Margt sem ég uppgötvaði um sjálfa mig olli sársauka, en þá þurfti ég að gæta þess að takast á við tilfinningarnar mínar á þeim hraða sem viðráðanlegur var hverju sinni. Með því að deila með félögunum í fjölskylduhópnum uppgötvunum mínum kom ég auga á lausnir og hvernig ég gat unnið úr því sem ég fann. Þetta varð sannkölluð sjálfsstyrking.
Mér fannst stórkostlegt að finna að ég var ekki ein um að finna fyrir vanmætti, ótta við fólk sem hefur völd eða er ráðríkt, vangetu til að setja fólki skýr mörk, svo eitthvað sé nefnt. Ég kannaðist við mjög margt sem lýst er í algenga hegðunarmynstrinu, en gegnum sporavinnuna fækkaði þeim atriðum verulega sem áttu við mig. Í lok vetrar átti ég nýjan spegil, þann sem kallaður er Áfangar í bata. Hann var þó ekki sprungulaus og ákvað ég því í vor að fara aftur í gegn um sporin í vetur.

Með því að vinna í sporunum hefur innsæi mitt aukist, sjálfsmeðvitund mín batnað til muna og ég hef lært að ég hef ekki stjórn á öllu. Ég hef gert mér grein fyrir því að ég ræð ekki við alla hluti ein og ég þarf að hleypa Guði að, leyfa honum að koma með lækningu inn í líf mitt.

Vinnan í 12 sporunum hefur aukið mjög á lífsgæði mín, eins og áður sagði. Ég á betri samskipti við aðra, sem fela m.a. í sér að ég er meðvitaðri um eigin þarfir, er meira vakandi fyrir að fylgja eigin sannfæringu, í stað þess að reyna stöðugt að þóknast öðrum.
Mér líkar ekki vel við alla – öllum þarf ekki að líka við mig. Það er í himnalagi og ofureðlilegt. Mikill léttir fylgdi þessari uppgötvun.

Ég er viss um að vinna í 12 sporum getur bætt líðan margra ólíkra einstaklinga með ólíkan bakgrunn. Þessa tvo vetur sem ég hef unnið í fjölskylduhópi hef ég eignast góð kynni og djúpa vináttu við margt fólk. Ég hef séð ótrúlegan bata hjá mörgum, það er dásamlegt að fylgjast með þeirri þróun.

Allir sem fara í sporin vinna í þeim á sínum forsendum. Menn fara eins grunnt eða djúpt eins og hverjum hentar, hverju sinni. Ég hef séð að efni 12 sporanna er prógramm sem virkar.

Guð blessi þá sem sem lagt hafa fram krafta sína til að vinna að bókinni 12 sporin – andlegt ferðalag og hjálparbókunum sem gerðar hafa verið. Og ég bið Guð að gefa fólki sem langar, en hikar við að fara í sporavinnuna hugrekki til að slá til.

Vinarkveðja.
Vinur í bata.

Vitnisburður minn

Með Reynslusögur

Vitnisburður minn

Þegar ég var lítil átti ég gott heimili, góða og umhyggjusama foreldra en það var eitthvað sem gerði það að verkum að ég var ósátt við sjálfa mig.

Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að ég myndi ekki lifa lengi og var ég mjög sannfærð um að ég myndi ekki lifa nema til fertugs.

Á fertugsárinu stokkaði ég upp líf mitt og byrjaði í sporunum í kirkjunni minni og núna eru tæp 3 ár liðin og lífið mitt hefur tekið miklum breytingum sem ég ætla að reyna að lýsa hér.

Ég var með mjög lélegt sjálfstraust og vissi ekki hvert ég stefndi með líf mitt enda var ég mjög meðvirk og vildi gera öllum öðrum til geðs. Ég var löngu búin að týna sjálfri mér.

Ég var alltaf pirruð og óánægð enda mikið að spá í hvernig aðrir vildu að ég hefði hlutina. Ég hélt að það væri miklu betra að fá annara manna álit á öllum hlutum heldur en að fylgja eigin sannfæringu enda var ég löngu búin að týna henni, ef ég hef þá haft einhverja.

Allt sem gerðist og sem ég þurfti að ganga í gegnum var áfall í mínum augum og það tók enga smá orku að spá í og segja öllum hversu mikið mál þetta var og ég þurfti stöðugt að fá aðra til að samþykkja að þetta væri mikið áfall.

Ég gerði margt til þess að vera viðurkennd, gerði jafnvel hvað sem er til að fólki líkaði við mig.

Svo tók ég fólk að mér sem ég vorkenndi og fannst þurfa á mínum stuðningi að halda. Ég tók það þannig að mér, að það átti jafnvel ekki líf nema að spyrja mig hvernig það ætti að hafa hlutina, þetta var góð tilfinning að getað “hjálpað” fólki með því að segja hvernig það átti að hafa hlutina enda miklu auðveldara heldur en að þurfa að taka ábyrgð á mínu eigin lífi.

Með þessu fékk ég viðurkenningu fyrir að vera góð, því ef ég var góð þá horfði fólk upp til mín og ég fékk að vera mikilvæg í þeirra augum en viðkomandi áttaði sig ekki á því að ég var sjálf mjög meðvirk og þetta var ekki gert af umhyggju heldur stjórnsemi og mikilli þörf fyrir að vera viðurkennd.

Sumir gengu á lagið með mig og misnotuðu góðmennsku mína, og ég áttaði mig ekki á því að vinskapur er meira en að gefa, hann er einnig að þiggja. Því ég átti mjög erfitt með að þiggja eitthvað frá öðrum og ef ég gerði það þá þurfti ég að greiða fyrir það og það ríkulega með miklum fórnum.

Ég var haldin miklum verkkvíða sem lýsti sér í því, að þegar ég var að gera eitthvað fyrir fólk sem mér fannst öruggt með sig var ég allan tímann meðan á verkinu stóð, að brjóta mig niður fyrir að þetta væri nú ekki nógu vel gert og ég fengi nú skammir fyrir þetta.

Ég talaði illa um aðra til að upphefja sjálfa mig þannig að fólki finndist ég miklu merkilegri en aðrir sem gerði það að verkum að ég var hrædd um að fólk talaði illa um mig þegar að það snéri sér frá mér, þannig að ég varð enn óöruggari með mig og var enn órólegri innan um fólk, það var einhvern vegin auðveldara að vera ósýnileg innan um aðra.

Líf mitt einkenndist af því að vera alltaf að leita að einhverju sem ég fann ekki.

Í dag er líf mitt í fastari skorðum og ég geri mér grein fyrir því að það sem ég vil fá út úr lífinu er að vera ég sjálf og ef ég kem fram af heilindum þá er ég elskuð af fólki.

Í dag á ég fullt af góðum vinum sem taka mig eins og ég er.

Ég er byrjuð í skóla og tel mig eiga bjarta og skemmtilega framtíð framundan.

Ég viðheld jafnvægi mínu með að vinna reglulega í sporunum og minni mig á að gamla lífið og viðhorfin eru ekki það sem ég vil lengur.

Ég er ekki eins stjórnsöm og ég var áður, tek fólki eins og það er en forðast að vera með fólki sem dregur mig niður og ætlar að tala illa um aðra ég er hætt að leita upp viðurkenningu frá öðrum.

Ég er með gott sjálfstraust sem sýnir sér í umhyggju og elsku til þess sem ég fæ í gegnum lífið og reynslu sem ég get lært af.

Ég reyni að byggja mig upp með jákvæðum hugsunum.

Ég er ekki lengur óörugg og ósýnileg innan um fólk heldur reyni ég að ganga alltaf skrefinu lengra en ég tel mig geta.

Vinur í bata