Skip to main content

Ég fór í 12 sporastarf veturinn 2004

Með janúar 4, 2019Reynslusögur

Ég fór í 12 sporastarf veturinn 2004-2005.

Líf mitt var á margan hátt stjórnlaust. Ég sveiflaðist eins og lauf í vindi og ég var mjög ómeðvituð um eigin tilfinningar og þarfir. Ég setti fólki ekki skýr mörk og leyfði öðrum að ráðskast með mig.
Vinnan í sporunum skilaði mér mun betri líðan og bætti lífsgæði mín.

Samt er það þannig að “lengi lærir sem lifir” og ákvað ég því að skella mér aftur í sporin s.l. vetur. Ég uppgötvaði – mér til ánægju að margt gott hafði áunnist síðan ég fór í 12 sporin um árið, en samt uppgötvaði ég fullt að nýjum hlutum og ég naut þess að vinna þessa sjálfsskoðunarvinnu.

Af nógu var að taka. Ég fann fullt af brestum sem ég þurfti að horfast í augu við. Það þarf kjark til að þora í sjálfsskoðun af þessu tagi, en ég bað góðan Guð margsinnis að hjálpa mér við þetta verkefni. Ég lærði líka að koma auga á kosti mína og láta mér þykja vænt um þá og vera þakklát fyrir þá.

Margt sem ég uppgötvaði um sjálfa mig olli sársauka, en þá þurfti ég að gæta þess að takast á við tilfinningarnar mínar á þeim hraða sem viðráðanlegur var hverju sinni. Með því að deila með félögunum í fjölskylduhópnum uppgötvunum mínum kom ég auga á lausnir og hvernig ég gat unnið úr því sem ég fann. Þetta varð sannkölluð sjálfsstyrking.
Mér fannst stórkostlegt að finna að ég var ekki ein um að finna fyrir vanmætti, ótta við fólk sem hefur völd eða er ráðríkt, vangetu til að setja fólki skýr mörk, svo eitthvað sé nefnt. Ég kannaðist við mjög margt sem lýst er í algenga hegðunarmynstrinu, en gegnum sporavinnuna fækkaði þeim atriðum verulega sem áttu við mig. Í lok vetrar átti ég nýjan spegil, þann sem kallaður er Áfangar í bata. Hann var þó ekki sprungulaus og ákvað ég því í vor að fara aftur í gegn um sporin í vetur.

Með því að vinna í sporunum hefur innsæi mitt aukist, sjálfsmeðvitund mín batnað til muna og ég hef lært að ég hef ekki stjórn á öllu. Ég hef gert mér grein fyrir því að ég ræð ekki við alla hluti ein og ég þarf að hleypa Guði að, leyfa honum að koma með lækningu inn í líf mitt.

Vinnan í 12 sporunum hefur aukið mjög á lífsgæði mín, eins og áður sagði. Ég á betri samskipti við aðra, sem fela m.a. í sér að ég er meðvitaðri um eigin þarfir, er meira vakandi fyrir að fylgja eigin sannfæringu, í stað þess að reyna stöðugt að þóknast öðrum.
Mér líkar ekki vel við alla – öllum þarf ekki að líka við mig. Það er í himnalagi og ofureðlilegt. Mikill léttir fylgdi þessari uppgötvun.

Ég er viss um að vinna í 12 sporum getur bætt líðan margra ólíkra einstaklinga með ólíkan bakgrunn. Þessa tvo vetur sem ég hef unnið í fjölskylduhópi hef ég eignast góð kynni og djúpa vináttu við margt fólk. Ég hef séð ótrúlegan bata hjá mörgum, það er dásamlegt að fylgjast með þeirri þróun.

Allir sem fara í sporin vinna í þeim á sínum forsendum. Menn fara eins grunnt eða djúpt eins og hverjum hentar, hverju sinni. Ég hef séð að efni 12 sporanna er prógramm sem virkar.

Guð blessi þá sem sem lagt hafa fram krafta sína til að vinna að bókinni 12 sporin – andlegt ferðalag og hjálparbókunum sem gerðar hafa verið. Og ég bið Guð að gefa fólki sem langar, en hikar við að fara í sporavinnuna hugrekki til að slá til.

Vinarkveðja.
Vinur í bata.