Skip to main content

Viðmiðunarreglur

Þetta eru þær reglur sem við höfum til viðmiðunar í hópvinnunni sjálfri og við höldum okkur innan þess ramma sem þær eru.

Viðurkennið að heilagur andi sé við stjórnvölinn.
Viðurkennið í þakklæti nálægð heilags anda og biðjið um leiðsögn hans og leiðbeiningu.

Leggið ykkur fram um að sýna kærleika á viðeigandi hátt.
Virðið þarfir annarra með því að biðja leyfis til að sýna samúð með faðmlagi eða snertingu. Mörgum finnst líkamleg snerting óþægileg.

Vinna einstaklingsins miðist við sporið sem verið er að vinna í.
Einbeitið ykkur að því að tjá ykkar eigin reynslu, styrk og von hvað varðar það spor sem verið er að fjalla um. Sjáið til þess að allir fái jafnan tíma til að tjá sig.

Notið takmarkaðan tíma og leyfið öðrum að tjá sig.
Hafið athugasemdir ykkar stuttar, skiptist á að tala og grípið ekki fram í. Virðið rétt hvers og eins til að tjá sig sjálfur, án athugasemda.

Hvetjið til vellíðunar og stuðnings með því að segja frá eigin reynslu.
Reynið ekki að gefa ráð eða bjarga öðrum. Viðurkennið það sem hinir segja án athugasemda og gerið ykkur grein fyrir að þetta er þeirra sannleikur. Axlið einungis ábyrgð á eigin tilfinningum, hugsunum og gerðum.

Forðist að tala í kross.
Að tala í kross er þegar tveir eða fleiri taka þátt í umræðu sem útilokar aðra. Það getur líka átt við þegar verið er að gefa ráð.

Viðhaldið trúnaði.
Haldið öllu því sem sagt er innan hópsins til að tryggja andrúmsloft þar sem öryggi og einlægni eru til staðar.

Forðist slúður.
Segið frá ykkar eigin þörfum og forðist að tala um einhvern sem er fjarverandi.

Forðist að gagnrýna eða verja aðra.
Látið á kærleiksríkan hátt aðra bera ábyrgð á eigin hegðun ef þeir óska þess. Að öðru leyti skulum við viðurkenna að við berum öll ábyrgð frammi fyrir Kristi og það er ekki í okkar verkahring að verja eða gagnrýna aðra.

Komið til hvers fundar undirbúin og í bæn.
Fyrir hvern fund skuluð þið lesa það efni sem ákveðið hefur verið og ljúka við allar skriflegar æfingar.
Biðjið um leiðsögn og fúsleika til þess að tjá hug ykkar í einlægni og heiðarleika þegar þið eigið samskipti við einn eða fleiri úr hópnum.