Skip to main content

Geta allir nýtt sér Tólf sporin?

Allir menn hafa tilfinningar og hvatir og allir verða fyrir einhverjum atburðum eða áföllum í lífinu sem skilja eftir sár.

Ef einstaklingur nær ekki að vinna sig tilfinningalega út úr þessum atburðum eða áföllum, geta sárin orðið djúp og haft slæm áhrif á líðan og líf einstaklingsins og samskipti hans við aðra.

Margir verða fyrir neikvæðum áhrifum í uppeldi sínu og uppvexti

Margir verða fyrir neikvæðum áhrifum í uppeldi sínu og uppvexti, sem stundum er afleiðing þess að fullorðnir sem bera áttu ábyrgð á uppeldinu, voru hugsanlega undir ofneyslu efna af einhverju tagi eða áttu við tilfinningaleg vandamál að stríða eða áráttubundna hegðun. Vegna óreiðu sem ríkti í uppvextinum þá getur einstaklingur þróað með sér hegðun sem heltekur líf hans og vinnur gegn eðlilegri stjórn á lífinu sem fullorðins einstaklings.

Atburðir í barnæsku

Vegna atburða í barnæsku eða sársauka seinna í lífinu lærir einstaklingurinn að bæla tilfinningar sínar og loka þær vandlega inni, afneita sársauka og óþægindum. Einstaklingurinn lærir að hann uppsker höfnun ef hann lætur í ljós þarfir sínar og langanir sem vekur síðan upp hugsanir um að hann sé ekki nógu góður einstaklingur. Þegar einstaklingurinn síðan eldist heldur hann áfram að líta umhverfið sömu augum og hann gerði við sársaukavekjandi atburðum í lífinu.

Að komast hjá höfnun

Til þess að komast hjá höfnun bæta margir sér upp þessar bældu tilfinningar með því að gera eitthvað öfgakennt, eða þróa með sér áráttubundna eða ávanamyndandi hegðun. Hegðunin getur falist í því að vera mjög upptekin af vissum samböndum, vinnunni eða einstaklingurinn felur raunverulegar tilfinningar sínar með því að vinna of mikið, borða of mikið eða misnota efni eins og alkohól eða fíkniefni. Með sporunum er hægt að skoða þessa neikvæðu hegðun sem einstaklingurinn hefur komið sér upp.

Einstaklingurinn hefur val

Einstaklingurinn hefur val, hann getur valið að leggja til hliðar neikvæð skilaboð barnæskunnar og farið að vinna að því að læra nýja hegðun sem mun gagnast honum betur (Tólf sporin – Andlegt ferðalag,1999).

Úr BS Ritgerð 2004 – Um meðferðargildi Tólf sporanna – A.M.