Skip to main content

Bænir

Hér eru okkar helstu bænir

Bæn byrjandans

Úr bókinni Bænir fyrir Tólf sporin

Drottinn, ég vil elska þig ég er samt ekki viss.
Ég vil treysta þér,
ég er samt hrædd(ur) um að verða gleypt(ur).
Ég veit að ég þarfnast þín
en ég skammast mín fyrir það.
Mig langar að biðja en ég óttast að vera hræsnari.
Ég þarfnast sjálfstæðis míns,
samt hræðist ég einveruna.
Ég vil tilheyra einhverjum,
samt verð ég að vera ég sjálf(ur).
Taktu mig, Drottinn, en láttu mig samt vera.
Drottinn, ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.
Ó, Drottinn, ef þú ert þarna,
geturðu þá ekki skilið þetta?
Gef mér það sem ég þarfnast
en veit mér frelsi til að velja.
Hjálpa mér að finna út úr þessu sjálf(ur)
en ekki sleppa mér.
Leyf mér að skilja sjálfa(n) mig
en ekki láta mig örvænta.
Kom til mín, ó, Drottinn, ég vil hafa þig nálægt.
Lýstu upp myrkrið í mér, en ekki láta mér bregða.
Hjálpa mér að koma auga á það sem ég þarf að gera
og gef mér styrk til að framkvæma það.
Ó, Drottinn, ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.

Þakkarbæn

Þegar við biðjum bænir í þakklæti og tilgreinum sérstakar ástæður okkar fyrir þakklætinu, minnum við okkur sjálf á margt í leiðinni. Við munum hvernig það var að vera í neyð. Við minnumst þess að það má treysta Guði til að svara bænum. Við minnum okkur á að taka ekki forsjón Guðs sem sjálfsögðum hlut. Og við minnum okkur á að við berum hvorki ábyrgð á blessuninni né bænasvarinu – það gerir Guð. (Úr bókinni Bænir fyrir Tólf sporin)

Þakka þér góði Guð fyrir nýjan dag
Tækifæri til að lifa á mannsæmandi hátt
að finna aftur gleði yfir lífinu
og haminguna sem felst í því að gefa.
Þakka þér fyrir skilningsríka vini
og fyrir friðinn sem kemur
frá kærleiksríkri hendi þinni.
Hjálpa mér að vakna við morgunsól
með þá bæn á vörum að þinn vilji verði í dag
því að með þinni hjálp mun ég rata réttan veg.
Þakka þér enn á ný, góði Guð, fyrir nýjan dag.

Þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört, fögnum, verum glaðir á honum.  (Sálm. 118:24)

Þegar ég vakna

Guð, viltu stýra hugsun minni, sérstaklega að beina henni frá sjálfsvorkunn, óheiðarleika og eigingirni.

Þegar hik kemur á mig í erli dagsins, viltu þá gefa mér innblástur, frumkvæði í hugsun eða ákvörðun. Hjálpa mér að slaka á og taka því rólega, lát mig ekki þrjóskast við. Hjálpa mér að treysta á innblástur þinn, frumkvæði og ákvarðanir í stað minnar gömlu hugsunar.

Viltu sýna mér—allan daginn—hvaða skref ég á að taka næst og gefa mér nákvæmlega það sem ég þarfnast til að leysa sérhvert vandamál. Guð, ég bið sérstaklega um frelsi frá einþykkni og ég bið ekki um neitt sem er bara fyrir mig. Gef mér heldur þekkingu á vilja þínum fyrir mig og styrk til að breyta samkvæmt því í öllu því sem gerist yfir daginn.

Viltu fá mig til að nema staðar þegar ég finn fyrir spennu eða efa í dag og minna mig á að biðja þig um rétta hugsun eða viðbrögð. Gef að ég sé stöðugt vakandi í þeirri hugsun að það er ekki lengur ég sem stjórna leikritinu með því að ég segi í auðmýkt, mörgum sinnum á dag: „Verði þinn vilji” og hjálpa mér að meina það líka.

Þá verður miklu minni hætta á að ég finni fyrir æsingi, ótta, reiði, áhyggjum, sjálfvorkunn eða taki heimskulegar ákvarðanir. Mér verður meira úr verki. Ég eyði ekki orku í heimskulega hluti eins og þegar ég reyndi að lifa lífinu eftir mínum hentugleikum. Ég ætla að leyfa þér að aga mig á þennan einfalda hátt. Ég ætla að gefa þér allt valdið og alla dýrðina.

Drottinn, á morgnana heyrir þú rödd mína, á morgnana legg ég bæn mína fram fyrir þig, og ég bíð þín.  (Sálm. 5:4)

Bæn heilags Frans frá Assisi

Drottinn, lát mig vera verkfæri friðar þíns.
Hjálpa mér til að leiða inn kærleika,
þar sem hatur ríkir,
trú, þar sem efinn ræður,
von, þar sem örvæntingin drottnar

Hjálpa mér að fyrirgefa, þar sem
rangsleitni er höfð í frammi,
að skapa eindrægni þar sem sundrung ríkir
að dreifa ljósi þar sem myrkur grúfir
og flytja fögnuð þar sem sorgin býr.

Meistari, hjálpa mér að kappkosta ekki
svo mjög að vera huggaður sem að hugga,
ekki svo mjög að vera skilinn sem að skilja,
ekki svo mjög að vera elskaður sem að elska.

Því að það er með því að gefa að vér þiggjum
með því að fyrirgefa að oss verður fyrirgefið
með því að týna lífi voru að vér vinnum það.
Það er með því að deyja að vér
upprísum til eilífs lífs

AMEN

Í þýðingu sr. Sigurjóns Guðjónssonar

Æðruleysisbænin

Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.

Að lifa einn dag í einu,
njóta hvers andartaks fyrir sig,
viðurkenna mótlæti sem friðarveg,
með því að taka syndugum heimi eins og hann er,
eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann

og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg
ef ég gef mig undir vilja þinn
svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi
og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur.

Amen

Reinhold Niebuhr