Skip to main content

Tólf sporin

Tólf sporin eins og Vinir í bata tileinka sér þau

Tólf sporin eru tekin hér upp úr bókinni Tólf sporin – Andlegt ferðalag (The Twelve Steps – A Spiritual Journey) en þar eru þau prentuð með leyfi Alcoholics Anonymous World Services Inc. Leyfi þetta þýðir þó ekki að AA-samtökin hafi farið yfir eða samþykkt innihald bókarinnar eða að samtökin séu sammála efni hennar.

AA-efni er eingöngu ætlað til hjálpar alkóhólistum og stendur það óhaggað, þó að Tólf sporin séu aðlöguð öðrum vandamálum og notuð þannig til hjálpar í hvers konar erfiðleikum.

Í fyrsta sporinu hefur orðasambandinu gegn áfengi verið breytt í vegna aðskilnaðar frá Guði til að þjóna tilgangi bókarinnar. Orðrétt þýðing hefði verið: vegna þeirra áhrifa sem aðskilnaður frá Guði hefur á okkur.

Ritningarversin sem vísað er til á eftir hverju spori eru einnig tekin beint upp úr ofangreindri bók og eru þau valin af höfundum bókarinnar.

 1. Við viðurkenndum vanmátt okkar vegna aðskilnaðar frá Guði og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi. (Rómv. 7:18)
 2. Við fórum að trúa að máttur, okkur æðri, gæti gert okkur heil að nýju. (Filip. 2:13)
 3. Við tókum þá ákvörðun að láta vilja okkar og líf lúta handleiðslu Guðs, samkvæmt skilningi okkar á honum. (Róm. 12:1)
 4. Við gerðum óttalaust nákvæman siðferðislegan lista yfir skapgerðareinkenni okkar. (Harmlj. 3:40)
 5. Við viðurkenndum afdráttarlaust fyrir Guði, sjálfum okkur og öðrum einstaklingi yfirsjónir okkar. (Jak. 5:16a)
 6. Við vorum þess albúin að láta Guð fjarlægja alla okkar skapgerðar-bresti. (Jak. 4:10)
 7. Við báðum Guð í auðmýkt að fjarlægja brestina. (1. Jóh. 1:9)
 8. Við gerðum lista yfir alla þá sem við höfðum skaðað og urðum fús til að bæta fyrir brot okkar. (Lúk. 6:31)
 9. Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust, þar sem því var við komið, svo fremi sem það særði engan. (Matt. 5:23-24)
 10. Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar okkur skjátlaðist, viðurkenndum við það undanbragðalaust. (1. Kor. 10:12)
 11. Við leituðumst við, með bæn og hugleiðslu, að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum aðeins um þekkingu á því sem hann ætlar okkur og styrk til að framkvæma það. (Kol. 3:16a)
 12. Við fundum að sá árangur sem náðist, með hjálp reynslusporanna, var andleg vakning og þess vegna reyndum við að flytja öðrum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi. (Gal. 6:1)