Skip to main content

Vitnisburður minn

Með janúar 4, 2019Reynslusögur

Vitnisburður minn

Þegar ég var lítil átti ég gott heimili, góða og umhyggjusama foreldra en það var eitthvað sem gerði það að verkum að ég var ósátt við sjálfa mig.

Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að ég myndi ekki lifa lengi og var ég mjög sannfærð um að ég myndi ekki lifa nema til fertugs.

Á fertugsárinu stokkaði ég upp líf mitt og byrjaði í sporunum í kirkjunni minni og núna eru tæp 3 ár liðin og lífið mitt hefur tekið miklum breytingum sem ég ætla að reyna að lýsa hér.

Ég var með mjög lélegt sjálfstraust og vissi ekki hvert ég stefndi með líf mitt enda var ég mjög meðvirk og vildi gera öllum öðrum til geðs. Ég var löngu búin að týna sjálfri mér.

Ég var alltaf pirruð og óánægð enda mikið að spá í hvernig aðrir vildu að ég hefði hlutina. Ég hélt að það væri miklu betra að fá annara manna álit á öllum hlutum heldur en að fylgja eigin sannfæringu enda var ég löngu búin að týna henni, ef ég hef þá haft einhverja.

Allt sem gerðist og sem ég þurfti að ganga í gegnum var áfall í mínum augum og það tók enga smá orku að spá í og segja öllum hversu mikið mál þetta var og ég þurfti stöðugt að fá aðra til að samþykkja að þetta væri mikið áfall.

Ég gerði margt til þess að vera viðurkennd, gerði jafnvel hvað sem er til að fólki líkaði við mig.

Svo tók ég fólk að mér sem ég vorkenndi og fannst þurfa á mínum stuðningi að halda. Ég tók það þannig að mér, að það átti jafnvel ekki líf nema að spyrja mig hvernig það ætti að hafa hlutina, þetta var góð tilfinning að getað “hjálpað” fólki með því að segja hvernig það átti að hafa hlutina enda miklu auðveldara heldur en að þurfa að taka ábyrgð á mínu eigin lífi.

Með þessu fékk ég viðurkenningu fyrir að vera góð, því ef ég var góð þá horfði fólk upp til mín og ég fékk að vera mikilvæg í þeirra augum en viðkomandi áttaði sig ekki á því að ég var sjálf mjög meðvirk og þetta var ekki gert af umhyggju heldur stjórnsemi og mikilli þörf fyrir að vera viðurkennd.

Sumir gengu á lagið með mig og misnotuðu góðmennsku mína, og ég áttaði mig ekki á því að vinskapur er meira en að gefa, hann er einnig að þiggja. Því ég átti mjög erfitt með að þiggja eitthvað frá öðrum og ef ég gerði það þá þurfti ég að greiða fyrir það og það ríkulega með miklum fórnum.

Ég var haldin miklum verkkvíða sem lýsti sér í því, að þegar ég var að gera eitthvað fyrir fólk sem mér fannst öruggt með sig var ég allan tímann meðan á verkinu stóð, að brjóta mig niður fyrir að þetta væri nú ekki nógu vel gert og ég fengi nú skammir fyrir þetta.

Ég talaði illa um aðra til að upphefja sjálfa mig þannig að fólki finndist ég miklu merkilegri en aðrir sem gerði það að verkum að ég var hrædd um að fólk talaði illa um mig þegar að það snéri sér frá mér, þannig að ég varð enn óöruggari með mig og var enn órólegri innan um fólk, það var einhvern vegin auðveldara að vera ósýnileg innan um aðra.

Líf mitt einkenndist af því að vera alltaf að leita að einhverju sem ég fann ekki.

Í dag er líf mitt í fastari skorðum og ég geri mér grein fyrir því að það sem ég vil fá út úr lífinu er að vera ég sjálf og ef ég kem fram af heilindum þá er ég elskuð af fólki.

Í dag á ég fullt af góðum vinum sem taka mig eins og ég er.

Ég er byrjuð í skóla og tel mig eiga bjarta og skemmtilega framtíð framundan.

Ég viðheld jafnvægi mínu með að vinna reglulega í sporunum og minni mig á að gamla lífið og viðhorfin eru ekki það sem ég vil lengur.

Ég er ekki eins stjórnsöm og ég var áður, tek fólki eins og það er en forðast að vera með fólki sem dregur mig niður og ætlar að tala illa um aðra ég er hætt að leita upp viðurkenningu frá öðrum.

Ég er með gott sjálfstraust sem sýnir sér í umhyggju og elsku til þess sem ég fæ í gegnum lífið og reynslu sem ég get lært af.

Ég reyni að byggja mig upp með jákvæðum hugsunum.

Ég er ekki lengur óörugg og ósýnileg innan um fólk heldur reyni ég að ganga alltaf skrefinu lengra en ég tel mig geta.

Vinur í bata