Tólf spora gangan mín
Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni 12-spora göngu.
Ég fór fyrst í 12-sporin fyrir 4 árum, það sem ég var að glíma við þá var aðallega: Reiði, Stjórnsemi, Minnimáttarkennd, Skort á sjálfsöryggi, Eigið niðurrif, Neikvæðni, Hefnd, Tilgangsleysi, Fullkomnunarþörf, Hvatvísi, Skoðanaleysi, Tilfinningaheft, Hræðsla (sérstaklega við höfnun), Sektarkennd, Óöryggi.
Ég fann engan tilgang með lífinu og sá enga leið út, ég hafði verið að sækja Al-anon fundi sem gerðu mér gott en ég þurfti eitthvað meira, mér fannst ég stöðnuð, hafði heyrt af 12-sporunum en vissi í rauninni ekki hvað þau voru þegar við tókum okkur þrjár saman og fórum í gegnum þau. Það tók okkur tvö ár enda fórum við bara á okkar hraða og svöruðum öllum spurningum sem var gott því þá komst ég ekki hjá því að svara líka þeim erfiðu. Í þessu ferðalagi mínu gerði ég mér grein fyrir því að ég var einungis að skafa kúfinn af því sem ég vildi greiða úr í mínu lífi þannig að ég fór aftur í gegnum sporin.
Ég veit í rauninni ekki hvar ég á að byrja með að segja hversu mikið sporin hafa breytt lífi mínu, þetta er eins og ég sagði við einn mann bara ókeypis sálfræðiaðstoð sem virkar. Mér finnst ég hafa fengið bata af mínum skapgerðarbrestum og er mikið lífsglaðari í dag en fyrir 4 árum. Ég er að sjálfsögðu ekki útskrifuð sem heilbrigð manneskja en ég er búin að komast að því að ég hef tilfinningar og skoðanir og hef rétt á að hafa þær en þarf ekki að sveiflast með annarra manna skoðunum.
Ég hafði sérstaka aðferð til að leyna mínu skoðanaleysi og tilfinningafrosti. Þegar einhver spurði mig að einhverju eða vildi mína skoðun svaraði ég út í hött og helst með einhverju niðrandi um persónuna þannig að hún varð kjaftstopp og þar með var málið dautt.
Ég hef líka fengið mikinn bata af minni stjórnsemi og get í dag leyft fólki að reyna aðrar aðferðir en mínar og get samþykkt að þær virka sem ég gat engann veginn gert áður, allt var best og flottast sem ég sagði. Ég taldi mér líka trú um að ef einhver gerði ekki eins og ég sagði þá þyrfti ég að hefna fyrir það, ég notaði þetta óspart á maka minn sem lét ekki og mun sem betur fer aldrei láta að minni stjórn, samskipti okkar voru á tímabili bara í einstefnu þar sem ég hafði orðið og braut hann niður ef hann lét ekki af stjórn, með von um betri hegðun frá honum.
Fullkomnunarþörf mín hefur lagast, í dag get ég leyft börnunum mínum að klæða sig sjálf og ekki skiptir máli hvort þau eru í krummafót eða í svörtu sokkabuxunum í stað þeirra rauðu, aðalatriðið er að þau klæddu sig sjálf og eru ánægð með það.
Erfiðast við að fara í sporin var að vita hvernig ég var en ekki hvernig ég yrði og þurfa að fara að vinna með manneskju sem ég í rauninni þekkti ekki og var ekki viss um að ég vildi kynnast, það er svo miklu auðveldara að vera bara í sínu fari. Ég var ekki hrædd við fordóma því mér fannst ég verða að gera þetta fyrir mig en ekki fyrir aðra. Ég var viss um að mín vellíðan væri mikilvægari en umtal annarra, enda segi ég í dag að ég sé að gera það sem alla langar að gera en fáir hafa kjark til. Frægur maður sagði: Viltu vera hamingjusöm eða viltu hafa rétt fyrir þér. Ég vil vera hamingjusöm og kaus þess vegna 12-sporin og sé ekki eftir því. Þetta er spurning um forgangsröðun og ég veit í dag að til þess að geta gefið af mér til minna barna og maka þá verð ég að vera í lagi og þess vegna stunda ég 12-sporin.
12-Sporin hafa:
Kennt mér að hafa samskipti við fólk.
Kennt mér að ég þarf ekki alltaf að hafa rétt fyrir mér.
Kennt mér að ég megi gera mistök.
Kennt mér að ég geti tekið eitthvað að mér án þess að vera viss um að klára verkefnið.
Kennt mér þolinmæði.
Kennt mér að vera hamingjusamari.
Kennt mér að líta á fólk eins og það er en ekki eins og ég við hafa það.
Kennt mér að virða skoðanir annarra.
Kennt mér að ég megi hafa skoðanir og að þær þurfi ekki að vera eins og hjá öðrum.
Ég vona að þessi saga mín verði til þess að styrkja þá sem eru að hugsa um 12-sporin en hafa ekki fundið sig í því að byrja. Þau virka.
Kona í bata.