Skip to main content

Vinur í bata sendi okkur sögu sína

Með janúar 4, 2019Reynslusögur

Vinur í bata sendi okkur sögu sína:

Ég hef öðlast svo ótal margt í gegnum 12 spora vinnuna. Það er erfitt að reyna að útskýra það í fáum orðum en ég ætla samt að reyna.

Þegar ég horfi til baka yfir síðustu 3-5 árin í lífi mínu, sé ég niðurbrotinn mann. Mann án vonar, mann sem lifði í eilífum ótta. Það var einhvern veginn þannig að dagarnir voru bara ömurlegir. Ég hafði einn tilgang í lífinu sem var að lifa af daginn. En hver dagurinn á fætur öðrum var jafn ömurlegur og gærdagurinn. Í brjósti mér var vonin um að morgundagurinn yrði betri, hann varð að verða það. En alltaf brást það. Ég lifði í vonlausri stöðu: Dagurinn í dag var ömurlegur og morgundagurinn var alltaf á morgun.

Vikum og mánuðum saman svaf ég mjög illa, já stundum bara ekki neitt. En alltaf leið mér vel – alltaf var allt í lagi, út á við. En innra með mér hrópaði ég, gargaði: „Guð, vertu mér miskunnsamur! Veittu mér hvíld!“ svo vonaði ég bara að ég gæti sofnað og þyrfti aldrei aftur vakna. Kvíði, nagandi ótti, já í raun óútskýranleg skelfing og vonleysi. Ég var algjörlega magnþrota, hafði ekki krafta í neitt. Algjörlega tómur.

Á þessum tíma fannst mér ég vera ekkert og þaðan af verra; ég var öllum byrði. Mér fannst ég ekki vera þess virði að vera elskaður og fannst mér ekki takast að elska þá sem það áttu skilið. Sama hvað ég reyndi; allt fór á sama veg: Mistök, ósigrar og niðurlag. Allt mistókst; ég gat ekki sofið, ekki kom lífsgleðin, kvíðinn hafði öll völd. Ég lifði og hrærðist á valdi óttans og skelfingarinnar. Algjört myrkur og vonleysi. Lifandi en samt dauður. Ég var lifandi dauður.

Ég fór á Klepp. Ég hafði ekki getað sofið í nokkra mánuði. Það sem átti að veita mér hvíld og frið, var frá mér tekið. Ótti og kvíði réði öllu, líka svefninum. Þá sjaldan ég náði að sofna, knúði martröðin dyra og rændi mig hvíldinni. Loks fannst mér ég vera að sturlast. Hafði enga stjórn, hrapaði stjórnlaust inn í algjört myrkur. Ég dvaldi á Kleppi í 2-3 vikur, náði reglu á svefninn. Lyfin voru það eina sem hjálpaði á þessum tíma. Ég vissi að þunglyndi og kvíði plagaði mig. Ég vissi alveg að ég væri sjúkur en samt lifði ég í ákveðinni afneitun. Vissi þetta en sætti mig samt ekki við það, afneitaði því, gafst ekki upp fyrir þeirri staðreynd að ég væri í raun helsjúkur. Ég fór að sulla í bjórnum, hann sló svo vel á kvíðann. Að hann væri í raun á bandi þunglyndisins skipti minna máli og kvíðinn væri því margfallt verri daginn eftir. Ekkert breyttist. Ég var enn á valdi óttans og skelfingarinnar. Enn lifandi dauður.

Þá gerðist það að dóttir mín sagði: „Pabbi! Þú ert fífl, en mér þykir samt vænt um þig!“ Ég hringdi inn á Teig, meðferðardeild Landspítalans. Örfáum vikum síðar var ég kominn inn á dagdeildina og farinn að vinna í prógramminu. Ótrúlegt, strax á fyrstu dögunum hvarf kvíðinn og óttinn. Það var eins og starfsfólkið hefði rétt mér spegil og sagt: „Líttu á sjálfan þig!“ Með þeirra aðstoð og leiðsögn tókst mér að skilja eða sætta mig við það að ég væri þunglyndur og alki. Hægt og rólega var ég leiddur inn á braut 12 sporanna. Því líkur léttir. Ég var sjúklingur og þurfti aðstoðar við. Ég var ekki aumingi með hor, ég var ekki fífl eða þaðan af verra. Ég var veikur maður, hvort sem mér líkaði betur eða ver. Þungu fargi var af mér létt. Það var ekkert að mér í raun, ég var bara veikur. Bara veikur. Ég hafði ekki valið að verða svona. Enginn velur að verða þunglyndur eða hafa neikvæðar hugsanir. ENGINN. Þunglyndið reiddi til höggs; ég varð fyrir því. Svo einfalt var þetta.

En ég stóð aftur á móti frammi fyrir því vali hvort ég ætlaði að láta sjúkdóminn ráða mínu lífi eða hvort ég ætlaði að gera eitthvað til að sporna gegn honum. Í mínum huga sé ég einungis eina lausn: 12 sporin og samfélag við þá sem gengið hafa þann stig og haldið sínum sjúkdómi í skefjum með þeim. AA fundir skipta þar gríðarlegu máli. Án þeirra væri ég ekki hér. Þar hitti ég fólk sem hefur fetað sig veg hinna 12 spora, eitt skref í einu, einn dag í einu.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Fyrstu þrjú sporin fjalla um Guð, samkvæmt skilningi mínum á honum. Þau fjalla um það að gefast upp fyrir honum og leyfa honum að koma inn í líf mitt, leyfa honum að komast að með sína líkn og lækningu. Til þess að hann geti það verð ég þó fyrst að gefast algjörlega upp fyrir honum, sleppa takinu og falla í fang hans. Ég þarf að hætta „að hugsa“ því mín hugsun dregur mig frá Honum. Fyrir mig þýðir það að sleppa, að ég hætti að hugsa og leyfi Honum að komast að. Mínar lausnir/hugsanir hafa einungis leitt mig lengra inn í vonleysið og myrkrið. Ég sætti mig ekki við þunglyndið öðruvisi en með Guðs hjálp. Með því að sleppa algjörlega getur Guð hjálpað mér eins og hann vill. Þunglyndið hverfur ekki! En með uppgjöfinni fyrir Honum öðlast mér æðruleysi, óttaleysi, því Hann er hjá mér jafnvel þó ég gangi í gegnum dauðans skuggadal óttast ég ekkert illt. Hann er hjá mér, gengur mér við hlið. Aftur og aftur tekur Hann mig upp og ber mig yfir tálma og hindranir.

Kjark til að breyta því sem ég get breytt. Aðferð Guðs til bjargar mér birtist svo í næstu sex sporum. Þau lýsa lækningu Hans á mér og mínu lífi. En meðferð Hans krefst þess að ég gefi mig að þessu af heilum hug og dragi ekkert undan. EKKERT. Í þessum sporum skoða ég allt mitt líf og mína hegðun. Horfist í augu við hegðun mína og atferli. Viðurkenni allt það sem ég hef gert rangt á hlut annarra og minn eigin. Skoða það sem aðrir hafa gert mér. Næ sátt í líf mitt. Geri upp það sem gera þarf upp. Leita eftir fyrirgefningu þar sem ég þarfnast hennar og reyni af heilum hug að fyrirgefa það sem mér var gert. Þannig öðlast ég frið í hjarta og sinni. Lífið öðlast nýtt innihald, fær nýjan tilgang og markmið. Að lifa sáttur við Guð, menn og sjálfan mig.

Og vit til að greina þar á milli. Síðustu þrjú sporin fjalla svo um það hvernig ég get í mínu daglega lífi haldið áfram á leið batans. Dagleg reikningskil, bæn og tilbeiðsla.

Með þetta í farteskinu geng ég öruggum skrefum fram á veginn, æðrulaus. Ég hef ekkert að óttast eða æðrast yfir, bara ef ég held mig við þessa einföldu bæn, sem lýsa markmiði og tilgangi 12 sporanna svo vel. Ef æðrulaus ég geng, öðlast mér kjarkur til að takast á við lífið, breyta því sem breyta þarf, og við bæn og tilbeiðslu öðlast mér vit til greina á milli þess sem ég get breytt og hins sem ég verð að sætta mig við.

12 sporin hafa þannig umturnað lífi mínu. Sprengt það í tætlur á jákvæðan hátt, gefið lífi mínu nýjan og betri tilgang. Þar sem áður ríkti myrkur og vonleysi, lýsir ljós gleðinnar og vonarinnar. Þar sem áður ríkti sorg er nú gleði.

Nú lifi ég ekki lengur í vonbrigðum gærdagsins með von um að morgundagurinn verði betri. Nú lifi ég aðeins í dag. Ég er. Að ég var í gær eða að ég verði á morgun, hverju breytir það? Það eina sem skiptir máli er að ég er, NÚNA ekki í gær eða á morgun! Núna veitist mér tækifæri, ég get hvergi annar staðar verið. Tíminn hvorki kemur né fer, hann bara er. Það er enginn annar tími til!!

Æðruleysisbænin og 12 sporin snúast um hvað ég geti gert núna. Þetta er gjöf 12 sporanna sem mér er gefin. Má bjóða þér?

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.