Skip to main content

Vorhátíð/Uppskeruhátíð 2023

Með apríl 30, 2023maí 14th, 2023Fréttir

Vorhátíð/Uppskeruhátið 2023

Það styttist í vorhátíðina og við hlökkum til að sjá ykkur með vor í augum og glöð yfir að vera í bata. Við kíkjum í fataskápinn okkar og finnum eitthvað sumarlegt og í glöðum litum til að fara í sem hæfir tilefninu.

Auðvitað væntum við þess að þið komið til að gleðjast með okkur og hvert með öðru miðvikudagskvöldið 17. maí kl. 20.00 í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Það er yndislegt að hittast á vorkvöldi á svo fallegum stað eiga saman góða stund. Þið megið líka gjarnan biðja fyrir góðu veðri.

Við ætlum að syngja saman létta söngva og þakka Guði á þann hátt fyrir batann í lífi okkar og svo heyrum við vitnisburði þeirra sem þekkja sporin og batann af eigin raun. Það er fátt meira uppörvandi en að heyra góða batasögu. Þórður leikur undir sönginn og svo heyrum við eitthvað gott bæði í tónum og tali frá Gísla og Herdísi. Sr. Arndís Linn sendir okkur svo út í vorið með blessun.  Við gefum okkur tíma fyrir kaffisopa og létta hressingu eftir stundina.

Takið kvöldið frá – og látið vita í hópunum ykkar og hnippið líka í eldri vini í bata. Það væri mjög gaman að finna samstöðu og stuðning frá eldri vinum í bata. Um að gera að taka með sér gesti. Endilega dreifið fréttabréfinu til þeirra vina í bata sem þið vitið um.

Starfshópurinn.