Tólf sporin – Andlegt ferðalag
Í október s.l. sat ég við eldhúsborðið og var að fletta blöðunum. Þá rakst ég á litla auglýsingu frá Vinum í bata þar sem þeir voru að auglýsa byrjun á 12 spora námskeiði, byggt á bókinni Tólf sporin – Andlegt ferðalag, sem átti að byrja í Grensáskirkju skömmu síðar.
Venjulega tek ég ekki eftir svona auglýsingum en þarna var eins og einhver tæki af mér stjórnina og ákvæði fyrir mig að þetta væri nákvæmlega það sem ég þyrfti að fara í gegnum og síðan mætti ég á kynningarfund án þess að hafa hugmynd um hvað þetta væri eða um hvað þetta snerist.
Ég var þarna á þessum tímapunkti alveg að gefast upp á sjálfri mér og lífinu, mikið var búið að ganga á og ég var gjörsamlega búin á sál og líkama og vissi ekki hvað ég gæti gert til að grafa mig upp úr þeirri holu sem ég var búin að grafa mig niður í – ég var mjög ósátt og leið mjög illa, var lokuð inni í sjálfri mér og tilfinningalega dauð. Ég var búin að einangra mig frá öðru fólki, öll gleði var horfin út úr lífi mínu, ég var full af kvíða og ótta við eitthvað sem kannski gæti eða gæti ekki gerst, yfirfull af skömm og sektarkennd og fullviss um að ég ætti ekkert gott skilið. Ég var búin að lesa heilt bókasafn af sjálfshjálparbókum og það hjálpaði aðeins en dugði samt engan veginn. Ég var lifandi dauð.
Á kynningarfundinum fann ég strax þessa samkennd, að ég var ekki eina manneskjan í veröldinni sem var búin að týna sjálfri mér. Þarna er fólk sem er búið að ganga í gegnum ólíka hluti í lífi sínu en á það sameiginlegt að vera búið að missa tökin á lífi sínu og er reiðubúið að finna leiðina á ný með aðstoð æðri máttar og stuðningi hvers annars. Þarna er enginn komin til að dæma eða hneykslast.
Ég hélt af stað í 12 spora gönguna full bjartsýni og ákveðin í að fá eins mikið út úr þessu og ég mögulega gæti. Mér reyndar óaði við því að þetta tæki allan þennan tíma en í dag hugsa ég til þess með trega að þessu eigi eftir að ljúka og stefni að því að fara aftur næsta haust. Ég er mjög heppin með “fjölskylduhóp” því þó að við séum ólíkar þá erum við sannir “vinir í bata” og algjör trúnaður og traust ríkir innan hópsins.
Þó að ég sé ekki búin að ljúka sporavinnunni, aðeins komin í 8. sporið þegar þetta er skrifað, þá hefur ansi margt breyst í lífi mínu. Ég hlakka til að vakna á morgnana og takast á við nýjan dag. Ég er farin að upplifa gleðina á ný og leyfa mér að hlakka til og upplifa tilfinningar sem voru alveg horfnar. Ég er sáttari við sjálfa mig, umburðarlyndari gagnvart öðrum og hef ekki lengur áhyggjur af því hvað aðrir eru að gera eða hvort þeir eru að gera rétt. Ég er að læra það að eina manneskjan sem ég ber ábyrgð á er ég sjálf, ég stjórna því sjálf hvernig mér líður og hvort ég læt orð eða gerðir annara eyðileggja og eitra mitt líf. Ég er að læra að tileinka mér nýja lífssýn, hugsa öðruvísi og bregðast öðruvísi við óæskilegum aðstæðum.
Allt kostar þetta blóð, svita og tár en það er fyllilega þess virði. Það eitt að opna mig og deila tilfinningum mínum og játa yfirsjónir mínar og ófullkomleika fyrir einhverjum hefði mér fundist algjörlega óhugsandi fyrir nokkrum mánuðum síðan. Í dag þykir mér þetta mjög gott því innibyrgðar tilfinningar og sársauki er mjög þung byrði að bera og því þyngri sem meira hleðst upp. Ég gafst upp undan byrðinni og sem betur fer stóðu mér þá á því augnabliki opnar dyr Grensáskirkju og “Vina í bata” með sitt frábæra 12 spora námskeið og ég tel hiklaust að þetta hafi bjargað lífi mínu og ég verð mínum æðri máttarvöldum og forsjóninni eilíflega þakklát fyrir að hafa leitt mig í kirkjuna mína. Þarna hef ég eignast vini fyrir lífstíð, að ég tel, vini sem ég veit að mér er óhætt að treysta, þeir vita allt um mig og ég þarf ekkert að fela og þeir eru alltaf til staðar fyrir mig. Ég get óhikað verið ég sjálf í návist þeirra með öllum mínum kostum og göllum og það hjálpar mér að læra að standa með sjálfri mér innan um annað fólk.
Ég mæli eindregið með því fyrir alla að fara í þetta ferðalag því það gerir öllum gott, hvort sem þeir eru sáttir eða ósáttir í lífi sínu og það sem merkilegast er að þetta kostar ekki neitt. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig, ég er betri manneskja eftir.
Vinur í bata.
Nýlegar athugasemdir