All Posts By

a8

Ferðarlagið mitt hér í kirkjunni

Með | Reynslusögur

Ferðarlagið mitt hér í kirkjunni, með vinum í bata, byrjaði á einum litlum blaðasnepil sem kom inn um lúguna heima hjá mér. Þegar ég las á miðann, þá vissi ég að núna væri guð að aðstoða mig. Hann var að rétta mér hjálparhönd þegar ég þarfnaðist þess hvað mest.

Á þeim tíma sem vinir í bata byrjaði var ég nýbyrjuð hjá sálfræðingi og á þunglyndislyfjum. Mig vantaði mikla hjálp. En þetta brot úr ljóðinu Norðurljós eftir Jóhannes úr Kötlum finnst mér lýsa tilfinningunni þegar ég las bréfsnepilinn:

  • Ég vildi sigra sortans mátt og sjá í gegnum hann.
  • Því einhver þrá til æðra lífs í æðum mínum brann.
  • Ég þráði meira, meira ljós í mína veika sál.
  • Ég þráði glóð frá Guði sjálfum, glóð sem væri ei tál.

Á þessum tíma átti ég 10 mánaða stelpu og var mikið veik af fæðingarþunglyndi. Ég hafði fengið áfallastreituröskun í kjölfar fæðingar og var komin með ýmsar þráhyggjur og mikinn kvíða sem gerðu lífið mitt mjög erfitt.
Ég elskaði ekki barnið mitt. Ég var hrædd við hana. Ég sá eftir öllu saman. Ég var þakin samviskubiti yfir öllu sem ég gerði og fannst ég aldrei vera nógu góð. Ég hætti að elska sjálfa mig. Mér fannst ég sjálf vera horfin og ég þekkti mig ekki lengur. Ég átti erfitt með að eiga samskipti við annað fólk og fannst allir í kringum mig vera orðnir fífl. Það var erfitt að fara framúr rúminu og það var erfitt að hætta að gráta. Mér kveið fyrir öllu minnstu hlutum. Ég var viss um að lífið væri auðveldara fyrir alla án mín.

Ég fann að mig vantaði eitthvað meira en það sem ég fékk hjá sálfræðingnum, en ég vissi ekki hvað það væri. En fljótlega eftir að ég byrjaði í vinum í bata þá áttaði ég mig á því. Mig vantaði einhverskonar tengslanet. Mig vantaði að fá að að tjá mig við venjulegt fólk sem hafði alls konar reynslu. Fólk sem ég vissi að dæmdi mig ekki. Mig vantaði ekki bara að fá að tala, heldur vantaði mig líka á að fá að hlusta. Og það er einmitt það sem hjálpaði mér hvað mest, að fá að heyra að ég væri ekki sú eina sem væri að ströggla með daglegt líf. Að ég væri bara mannleg.

Ég átti mikla vinnu fyrir höndum. Erfiða vinnu. En ég vissi innst inni að sú vinna myndi á endanum bera árangur. Ástæðan fyrir því að ég vissi það er af því að ég hef áður unnið mikla sjálfsvinnu tengda meðvirkni. En ég er yngst níu systkina og er ein þeirra sem hef þurft horfa upp á ástvini sína berjast við fíknina. En pabbi minn er óvirkur alkahólisti og bræður mínir fjórir einnig ásamt því að vera líka óvirkir fíklar. Bróðir minn, sem ég er mjög náin, hefur þurft að glíma við geðhvarfasýki í nokkur ár, sem hann þróaði með sér þegar hann var sem lengst leiddur inn í heim eiturlyfja. Ég er því gríðarlega þakklát að hafa vitað í upphafi að fyrst ég væri byrjuð að vinna í sjálfri mér að þá myndi allt verða allt í lagi. Að það væri til lausn.

Hér í kirkjunni deildi ég hugsunum mínum og ég var ákveðin í því að skafa ekkert af hlutunum. Sama hve asnalegir þeir væru. Því bata skyldi ég ná að uppskera á endanum og þá leggur maður hjartað beint á borðið. Ég sagði frá öllum göllunum mínum og mistökum, vondum hugsunum og tilfinningum. En hægt og rólega fór ég að segja frá kostunum mínum og eiginleikum mínum sem ég mér hefur alla tíð þótt vænt um. Ég fann að þessi ég sem ég áður þekkti var að brjótast fram og ég byrjaði að finna fyrir létti. Hún var þarna ennþá, manneskjan sem ég elska hvað mest í lífinu. Það var svo gott að finna sjálfa sig á ný.

Að vinna sporin var alls ekki létt, enda af nógu að taka. En ég get svo sannarlega sagt að með þeim endurheimti ég líf mitt á ný. Í dag er ég ótrúlega hamingjusöm. Ég er þakklát. Ég elska stelpuna mína endalaust og samband okkar er mjög gott. Eitt það dýrmætasta sem ég lærði í sporunum og í vinnu minni hér í vetur er að ég hef alla tíð lagt of miklar kröfur á sjálfa mig. Í dag leyfi ég mér að vera mannleg, ég leyfi mér að gera mistök og að slaka á. Með vinum í bata fann ég þetta ljós sem mig vantaði í hjartað mitt og sálu.

Ferðalangur.

Sporastarfið í fullum gangi í kirkjunum – Ný byrjun í janúar

Með | Fréttir

Það verður ný byrjun í Árbæjarkirkju í janúar 2019. Boðið verður upp á tólf spora starf mánuðina janúar til maí 2019 á miðvikudögum kl. 19.00-21.00. Fyrsti opni fundurinn verður miðvikudaginn 9. janúar, næsti opni fundurinn er 16. janúar og á fundinum 23. janúar verður hópnum lokað. Allir eru velkomnir og ekki þarf að skrá sig.

Margir segja að það besta sem þeir hafi nokkurn tíman gert fyrir sjálfa sig er að taka þátt í tólf spora starfinu af heilum hug.
Á uppskeruhátíðinni í vor var flutt ljóð sem fjallar um 12 sporin og er svo skemmtilegt að við deilum því hér með ykkur:
mitt_andlega_ferdalag_-_ljod.pdf

Það gleður ykkur örugglega að heyra að nú hefur bókin Bænir fyrir Tólf sporin verið endurprentuð og fæst hjá Kirkjuhúsinu. Margir hafa saknað hennar og geta nú keypt sér eintak og svo er hún líka upplögð í jólapakkann.

Ný og endurbætt vinnubók Tólf sporin – Andlegt ferðalag er tilbúin til afgreiðslu hjá  Skálholtsútgáfunni/Kirkjuhúsinu.
Þangað er hægt að senda inn pantanir.  Það eru talsverðar breytingar frá fyrri útgáfum, m.a. breyting á ritningargreinum, á textanum og tilfærsla á texta innan sporakaflanna. Það er ekki eins auðvelt að nota ólíkar útgáfur samhliða og verið hefur og ágætt að endurnýja. Bókin kostar kr. 3.500.

Hljóðbók:  Nýja bókin er nú komin á hljóðbók á heimasíðunni www.hlusta.is.

Hægt er að skrá sig á póstlistann hér á síðunni til að fylgjast með þeim viðburðum sem eru og verða í gangi.

Hvað er vinir í bata?

Með | Fréttir

Vinir í bata er hópur fólks (karla og kvenna), sem tileinka sér Tólf sporin sem lífstíl.

Við höfum verið á okkar Andlega ferðalagi með öðru fólki og hvert með öðru og falið Guði að vera leiðsögumaðurinn. Við höfum fundið að vinna okkar í Tólf sporunum hefur leitt lækningu og bata inn í líf okkar og verið okkur andleg vakning. Þess vegna langar okkur til þess að þú fáir líka að reyna bata og eitthvað nýtt og gott inn í þitt líf og þínar aðstæður.

Upplifirðu stjórnleysi í lífi þínu og að þú ráðir ekki alltaf við aðstæður?
Hefurðu einhvern tíman velt því fyrir þér að þig langaði til og/eða þú þyrftir á því að halda að skoða lífið þitt – hvert þú stefnir – hverjar tilfinningar þínar eru og hvernig þú getur bætt samskipti þín við annað fólk?
Veistu að Tólf sporin eru kjörið verkfæri til þess arna. Við erum mörg sem getum vitnað um það af eigin reynslu. Okkur hafa borist nýjar reynslusögur.

Batamessan í janúar 2019

Með | Fréttir

Batamessan í janúar verður í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ kl. 17.00 þann 13. janúar.  Allir eru velkomnir í batamessu. Það er gott að byrja nýja árið með því að hitta aðra vini í bata í Batamessu.

Batamessurnar eru upprunnar hér á Íslandi.
Í batamessu sameina prestur og Vinir í bata krafta sína í viðkomandi kirkju og bjóða öðrum Vinum í bata til sín í messu, sem  við köllum batamessu. Batamessurnar eru leið til að styðja við batann, vettvangur fyrir Vini í bata til að koma saman, hvort sem þeir eru búnir að fara sporin eða eru að vinna sporin, ekki síður en að átta sig á þvi að það er fólk víðar heldur en í þeirra kirkju/stað að kljást við sama verkefni.

Batamessur eru þarfur og mikilvægur liður í starfi Vina í bata og markmið þeirra er að styðja/ styrkja 12 spora iðkandann í því að viðhalda batanum. Allir geta komið og átt notalega og uppbyggilega stund í batamessu. Eftir messuna er boðið upp á létta hressingu, þar sem Vinir í bata geta sest niður og spjallað saman.

Samtals eru um átta batamessur haldnar yfir veturinn í mismunandi kirkjum á höfuðborgarsvæðinu.

Batamessurnar eru haldnar fyrsta sunnudag í mánuði klukkan 17.00.
Sjá má nánari stað og stund í viðburðadagatali Vina í bata hér til hliðar á síðunni.
Sjá ennfremur frétt um batamessurnar þar sem staðir og dagsetningar koma fram.

Ný og endurbætt heimasíða

Með | Fréttir

Það var kominn tími á nýja og flotta heimasíðu, svo við fengum snillingana frá Allra Átta til að setja upp glæsilega og snjallvæna vefsíðu. Allra Átta hefur smíðað marga flotta vefi og sérhæfa sig í vefsíðugerð, leitarvélabestun, wordpress vefhýsingu og allri almennri markaðssetningu á netinu.

Vefurinn keyrir á WordPress og sér Allra Átta um að hann sé í öruggri hýsingu.

Við þökkum fyrir nýja vefinn og vonum að hann þjóni núverandi og verðandi skátum með glæsibrag.

Vefur Allra Átta er hér: www.8.is

Aðalfundur 2018

Með | Fréttir

Aðalfundur 2018 fer fram miðvikudaginn 21. febrúar 2018 kl. 20:00. Samkvæmt lögum félagsins um kosningarétt hafa félagsmenn, 25 ára og eldri, auk eins forráðamanns kosningarétt, en aðrir geta setið fundinn sem áheyrnarfulltrúar. Sjá nánar í grein 3.3. úr lögum félagsins:

Enginn einn forráðamaður getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi. Fulltrúi úr stjórn á seturétt sem áheyrnarfulltrúi á aðalfundi. Félagsstjórn er heimilt að bjóða öðrum að sitja aðalfund sem áheyrnarfulltrúar. Áheyrnarfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Dagskrá samkvæmt lögum félagsins:

a) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b) Skýrsla stjórnar.
c) Skýrslur og gögn skoðuð
d) Umræður um framlagðar skýrslur.
e) Lagðir fram yfirfarnir ársreikningar félagsins
f) Lagabreytingar.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.