Mig langar að deila með ykkur hluta af mínu ferðalagi og kynnum af vinum í bata.
Ég heiti Sigrún og er vinur í bata.
Ég grínast stundum eð það að ég sé með meistaragráðu í meðvirkni , jafnvel margar.
Ég er fullorðið barn alkóhólista og fékk meðvirkni mína í vöggugjöf.
Meðvirkni hefur svo ótal margar birtingamyndir og hún á ekki bara rót sína tengda við alkóhólisma.
Við eigum öll okkar sögu , allskonar sögur úr æsku og lífinu sem færir okkur í eitthvað hegðunarmynstur.
Algengt hegðunarmynstur
Það var árið 2013 sem ég fór á minn fyrsta kynningafund hjá Vinum i bata.
Á þessum kynningafundi var lesið upp algengt hegðunarmynstur, ég átti erfitt með að halda aftur tárunum á þessum fundi því ég tengdi við allt!
Það var einhver sem var að lýsa mér! Ég gat speglað mig í hverju einasta hegðunarmynstri og áttaði mig á því þarna að það væru kannski fleiri að glíma við sömu tilfinningaflækju og ég.
Í kjölfarið fór ég minn fyrsta sporahring með vinum í bata. Ekki síðasta .. alls ekki , ég er hér enn 🙂
- Ég var með brotið og lágt sjálfsmat og átti erfitt með að hafa rangt fyrir mér, ef ég hafði rangt fyrir mér þá braut ég sjálfa mig niður í marga daga … vikur.. mánuði .. ár..
- Ég einangraði mig , dró mig í hlé ef fólk var komið of nærri mínu umhverfi og tilfinningum. Hélt vinum frá umhverfi mínu og þannig fjarlægðist vinina og ég passaði vel að flestir sæju bara þennan fína front sem ég átti… Þetta gerði ég alveg frá því ég var krakki.
- Ég sóttist stanslaust eftir viðurkenningu og gekk oft langt yfir mín mörk til þess að þóknast og öðlast einhverskonar viðurkenningu á að ég væri einhver og eitthvað. Ef það tókst ekki brotnaði ég og koðnaði niður í sjálfsásökunum. Höfnunartilfinningin var yfirþyrfmandi
- Ég var ofurviðkvæm og átti svakalega erfitt með að taka gagnrýni og var stanslaust í vörn.
- Ég var ofurábyrg og reyndi að taka ábyrgð á öllu og öllum í umhverfi mínu. Ég vildi vera til staðar fyrir allt og alla og allt fyrir alla gera.
Ég átti svo erfitt með að taka ábyrgð á sjálfri mér og þeirri yfirgnæfandi tilfinningu að ég gat ekki staðist kröfur – mínar kröfur og tók svo enga ábyrgð á minni hegðun heldur var bara fórnarlamb og skyldi ekki hvers vegna fólk var ekki til staðar fyrir mig. - Ég átti erfitt með að standa með sjálfri mér og ég of og endurhugsaði allt það sem ég sagði og gerði , fór vel yfir allt þegar ég lagðist á koddann á kvöldin .
Ég átti erfitt með að tjá skoðanir mínar og langanir af ótta við höfnun og það reyndist mér jafnvel erfitt að panta pizzu, ég var skíthrædd um að gera mistök.
Þannig öðlaðist ég líka þann frábæra kamelljón hæfileika , ég gat komið mér vel inn í allar aðstæður og passað inn. – en við getum líka nýtt brestina okkar til góðs og í dag þetta einn af mínum góðu hæfileikum 🙂 - Ég bældi tilfinningar mínar niður og reyndi að gera lítið úr þeim, ofurviðkvæmni mín og tilfinningar voru óþægilegar og það er best að taka allt sem er óþægilegt og sópa því undir teppið . Ég gerði mér enganvegin grein fyrir því hvaða afleiðingar það hafði á mig og fólkið í kringum mig.
Það er nefnilega þannig að með því að takast ekki á við raunveruleikann og koma mér út úr mynstrinu ( sem ég áttaði mig bara ekki á að væri mynstur þar sem þetta var bara minn raunveruleiki) Þá þróaði ég bara meðvirkni mína með umhverfinu og aðstæðum og leyfði fólkinu mínu að njóta með mér.
Ég gæti endalaust talið upp af listanum mínum þau brengluðu hegðunarmystur og bresti sem ég átti en það er jafnvel efni í heila bók.
Tólf sporin breyta lífinu
Með hjálp Vina í bata, 12 sporanna og Jesú Krists hefur mér tekist að fara í áttina að miklu miklu betra lífi, ég segi í áttina þar sem að lífið er stanslaus vinna, allskonar kemur uppá sem dregur okkur aftur í meðvirknina, en með þetta dásamlega verkfæri sem 12 sporin eru er svo gott og auðvelt að fara aftur í batann.
Ég byrjaði 12 spora gönguna mína árið 2010, þá LOKSINS var ég tilbúin að viðurkenna að ég þarfaðist hjálpar, það var eitthvað að, ég var buguð, þreytt á sál og líkama, ég fór í fjölskyldumeðferð hjá SÁÁ og var það mitt fyrsta skref í átt að bata.
Árið 2013 fór ég á fyrsta kynningafundinn hjá vinum í bata og það var bara eitthvað sem small, ég bara vissi að þarna átti ég að vera, Og VÁ VÁ VÁ ,
Þvílík umbreyting, og yndislegu vinirnir sem ég eignaðist og stuðningsnetið sem hefur heldur betur haldið utan um mig.
Á þessum tíma var ég í svo roslegri uppgjöf og var komin í algert þrot, andleg þreyta frá barnæsku þar sem ég hafði verið að berja sjálfa mig niður með stanslausri gagnrýni og alltaf að rembast við að vera fullkomin, ég breytti um persónuleika eftir aðstæðum og gat alls ekki tekið við höfnun.
En með hjálp vina í bata var ég komin í ótrúlega gott jafnvægi, eftir mikla sjálfsvinnu og á svo góðri leið í lífinu.
EN lífið gerist og allskonar áskoranir sem við þurfum að takast á við.
Ég t.d. Missti pabba minn úr sjálfsvígi, missti vinnuna, þurfti að takast á við erfiðleika í hjónabandi, erfiðleika hjá börnunum mínum, einelti á vinnustað, drauga úr fortíðinn og alls konar áskoranir eins og gengur og gerist á vegferð okkar allra.
Ég hef verið farþegi í eimreið með einu leiðina beint í þrot …
EN í þessum aðstæðum vissi ég af verkfæri, 12 spora kerfi Vina í bata og ég átti trúna mína. Trúna á Jesú Krist.
Vá hvað ég er HEPPIN!
Og þvílík himnasending sem Vinir í bata eru.
Lærdómur
Á minni vegferð er svo ótrúlega margt sem ég hef lært um sjálfa mig, ótrúlega margt óþægilegt og erfitt sem hefur valdið sársauka, en líka svo ótrúlega margt gott.
Ég er alls ekki laus við hegðunamynstrin og áskoranir lífsins halda áfram en ég hef svo miklu miklu meiri þekkingu á sjálfri mér, viðbrögðum minum, tilfinningum mínum, hvenær ég er að detta í gömul mynstur.
Ég hef öðlast sjálfsöryggi og sjálfsást.
Mér líður vel í kringum annað fólk.
Ég er að æfa mig í að taka gagnrýni 🙂
Ég tek ábyrgð á sjálfri mér!
Ég get tjáð hugsanir mínar og langanir og staðið með sjálfri mér .
Ég hef eignast vini til frambúðar í gegnum þessa vinnu mína og það er mér algjörlega ómetanlegt að eiga vini sem ég get rætt opinskátt við um meðvirka hegðun og tilfinningar, vini sem hafa farið í gegnum sporavinnuna, það er bara allt allt önnur tenging, traust, virðing og kærleikur.
Ég hef eignast fullvissu í trú og traust á Jesú Krist. Að læra að elska sjálfa sig og aðra í gegnum kærleika Hans er gjöf sem okkur öllum er gefið.
Nýlegar athugasemdir