All Posts By

starfshopur

Röskun á starfinu

Með Fréttir

Ljóst er að röskun verður á starfinu hjá Vinum í bata alla vegana næstu 2 vikurnar útaf Covid-19. Misjafnar aðstæður eru á þeim stöðum sem halda úti starfinu og biðlum við til ykkar að kynna ykkur vel hvað á við á þeim sem þið sækið.

Farið varlega og reynum að leggjast á eitt með að hjálpast að við að koma böndum á ástandið.

Kærleikskveðjur

Starfshópurinnn

 

Batamessa október mánaðar verður í Vídalínskirkju

Með Fréttir, Viðburðir

Fyrsta batamessa haustsins 2020 fer fram í Vídalínskirkju í Garðabæ sunnudaginn 4. október, kl. 17.

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir þjónar fyrir altari.
Vinur í bata flytur vitnisburð um reynslu sína af 12 sporunum.
Jóhann Baldvinsson organisti leiðir almennan safnaðarsöng.
KK flytur einsöng

Strax að lokinni messu er boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu. Sóttvarna verður gætt og við höldum góðri fjarlægð.

Allir sem hafa áhuga á að kynna sér 12 sporin ættu að koma til þessarar messu en það eru ALLIR velkomnir!

Haust 2020

Með Fréttir
Haustið hefur ávallt markað upphafið að öflugu vetrarstarfi Vina í bata í kirkjum víða um land. Árið 2020 hefur sannarlega fært okkur flestum miklar áskoranir og okkar starf er því ekki síst mikilvægt nú. Því miður munu ekki allar þær kirkjur, sem hafa verið virkar á síðustu árum, geta hafið sporastarf þetta haustið en við tökum því með æðruleysi. Það er hins vegar ánægjulegt að nú þegar hafa þrjár kirkjur staðfest að þar muni hefjast starf haustið 2020. Þar verða í heiðri hafðar gildandi sóttvarnarreglur hverju sinni og hver og einn þátttakandi er beðinn um að sýna tillit og virða þær reglur þegar komið er saman á vegum Vina í bata.
Grensáskirkja býður upp á fyrsta opna fund haustsins fimmtudaginn 3. september kl. 19:15.
Kirkja Óháða safnaðarins býður upp á fyrsta opna fund hautsins fimmtudaginn 3. september kl. 19:30.
Grindavíkurkirkja býður upp á fyrsta opna fund hautsins mánudaginn 5. október n.k. kl. 20:00.
Landakirkja í Vestmannaeyjum mun bjóða upp á sporastarf í vetur, við sendum frá okkur upplýsingar um fundi þegar þær liggja fyrir.
Vert er að minna á að ekki er skylda að tilheyra ákveðinni kirkju eða söfnuði til að sækja námskeið á vegum Vina í bata. Allir eru velkomnir!
Við hvetjum áhugasama til að fylgjast með upplýsingum um hauststarfið okkar hér http://viniribata.is/kirkjur-fundartimar/ en upplýsingarnar eru uppfærðar eftir því sem þær berast okkur frá þeim kirkjum sem taka þátt.
Fyrsta batamessa haustsins fer fram í Vídalínskirkju í Garðabæ þann 4. Október. Við munum senda nánari upplýsingar þegar nær dregur.

Uppskeruhátíð 2020

Með Fréttir

 

Kæru vinir í bata nær og fjær,
Nú ætlum við að snúa vörn í sókn og hittast hress á uppskeruhátið Vina í bata. Við ætlum að fagna batanum og öllu því góða sem við höfum samt sem áður fengið út úr sporavinnunni. Við ætlum líka að brydda upp á nýjungum. Það verður komið leyfi fyrir 200 manns á þessum tíma svo við erum í góðum málum. Verum dugleg að hnippa í þá sem við höfum verið að vinna sporin með í vetur og gleðjumst saman  en það eru allir velkomnir.

Staður: Í ár verður uppskeruhátíðin utan húss – nóg pláss. Hún verður haldin á Álftanesi að Bjarnastöðum sem er stórt hús í eigu sveitarfélagsins (sjá leiðarlýsingu). Þar er nóg pláss úti og ágætt pláss inni. Við erum búin að panta gott veður – annars færum við okkur inn í húsið.

Stund: föstudagurinn 5. Júní 2020 kl. 18.00 – 19.30

Dagskrá: Helgistund – tónlist – vitnisburðir – leikir og aðrar uppákomur – í lokin verður boðið upp á létta máltíð. Samskot renna til reksturs heimasíðu samtakanna. Við hvetjum alla til að skrá sig á facebookviðburðinn eða senda okkur línu á vinir@viniribata.is –  svo hægt sé að áætla hve mikið af mat mun þurfa.

Leiðarlýsing: Keyrt er eftir Álftanesvegi þar til komið er að hringtorgi með Bessastaði á hægri hönd, farið út úr því á þriðju beygju til hægri. Keyrt sem leið liggur eftir Suðurnesvegi, þar til komið er að 4 götu á vinstri hönd þá er keyrt inn Bakkaveg og blasa þá Bjarnastaðir við sem hvítt tvílyft hús með rauðu þaki og er þar stór grasflöt sem er römmuð inn af stórum öspum. Hægt er að leggja bílum á bílaplaninu við húsið.

 

 

Batamessa í apríl fellur niður

Með Fréttir

Vegna Coronaveirunnar og samkomubanns þá verður engin batamessa í apríl. Uppskeruhátíð Vina í bata hefur venjulega verið í maímánuði ár hvert og þurfum við að sjá hver framvindan verður áður en hægt er að taka ákvörðun um tímasetninguna í vor.

Endilega verið í sambandi og sendið inn í gegnum heimasíðuna ef þið hafið spurningar og ef það er eitthvað sem þið viljið miðla til annarra Vina í bata. Við minnum líka á facebook síðuna, þar sem þeir sem það vilja, geta sett eitthvað uppbyggilegt inn til stuðnings hvert fyrir annað.

Sporin standa alltaf fyrir sínu og batinn skilar sér til okkar með því að við höldum okkur við efnið.

Kær batakveðja

Starfshópur Vina í bata

Aðalfundur og batamessa 1. mars 2020

Með Fréttir

Aðalfundur vina í bata 1. mars kl. 15.30

Vinir í bata í Árbæjarkirkju hafa tekið að sér að hafa aðalfund samtakanna Vinir í bata sunnudaginn 1. mars 2020 – kl. 15.30.

Á dagskrá aðalfundar eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Skýrsla starfshóps
Reikningar lagðir fram og kynntir
Kosnir fulltrúar í starfshóp
Önnur mál

Við hvetjum alla Vini í bata til að koma og taka þátt í aðalfundarstörfum og leggja sitt af mörkum til þess að Tólf sporin – Andlegt ferðalag haldi áfram að vera það góða uppbyggingarstarf sem það hefur verið.

Það vantar a.m.k. tvo fulltrúa í starfshópinn og við höfum þörf fyrir fólk sem er áhugasamt og þekkir til sporastarfsins. Við hvetjum sérstaklega þau sem eru virk í Tólf spora starfi í kirkjunum, bæði út um landið og á höfuðborgarsvæðinu, til að koma og vera með og gefa kost á sér til starfa fyrir heildina.

Við hlökkum til að sjá ykkur á aðalfundi!

 

Batamessa marsmánaðar verður í Árbæjarkirkju 1. mars kl. 17.00

Í Árbæjarkirkju hefur verið öflugt og gott Tólf spora starf og nú eru það vinir í bata, sem hafa verið í starfinu þar, sem bjóða okkur til batamessu.

Það eru allir velkomnir til batamessu þó að hún sé tileinkuð sporafólki.
Í batamessu gefst okkur tækifæri til að koma saman og njóta andlegrar næringar í samfélagi. Batamessur eru með föstu sniði, þar fáum við m.a. að heyra vitnisburð einstaklings eða einstaklinga sem hafa farið í gegnum 12 sporin. Presturinn hefur eitthvað gott að segja okkur til að taka með út í daginn.

Við hvetjum sporafara til að taka með sér maka eða vini og auðvitað eru fermingarbörnin boðin velkomin.
Eftir messuna býður heimafólk okkur upp á hressingu þar sem við getum átt notalega stund saman og spjallað. Það er gott að hitta fólk sem er á sama ferðalagi og við.
Sjáumst í batamessu!

 

Batamessa febrúar mánaðar í Bessastaðakirkju

Með Fréttir

Batamessa febrúarmánaðar fer fram í Bessastaðakirkju á Álftanesi sunnudaginn 2. febrúar kl. 17.

Við hvetjum ykkur sem eruð í sporavinnunni í vetur að mæta til messunnar, það er um að gera að bjóða vinum eða fjölskyldu með sér.

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson þjónar fyrir altari.
Vinur í bata flytur vitnisburð um reynslu sína af 12 sporunum og söngkonan Ellen Kristjánsdóttir syngur.

Strax að lokinni messu er boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu að Brekkuskógum 1 á Álftanesi.

Allir eru hjartanlega velkomnir til þessarar messu!

Batamessa janúar mánaðar í Lágafellskirkju

Með Fréttir

Gleðilegt ár!

Batamessan í janúar verður í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ, sunnudaginn 12. Janúar 2020, kl. 17.00 síðdegis. Eftir messuna bjóða Vinir í bata í Lágafellskirkju okkur í kaffi og spjall í Safnaðarheimilinu að Þverholti 3, Mosfellsbæ.

Það er gott að byrja nýja árið með því að hittast í batamessu. Það eru allir velkomnir í batamessu og um að gera að bjóða þeim sem okkur þykir vænt um með í messuna.
Batamessur eru sérstaklega sniðnar fyrir sporafólk. Við heyrum vitnisburð og presturinn hefur eitthvað gott að segja okkur til að taka með okkur. Svo fáum við ráðrúm til að eiga okkar eigin stund í kirkjunni.

Tökum þennan tíma frá fyrir okkur og sjáumst í batamessu.

Allir sem hafa áhuga á að kynna sér 12 sporin ættu að koma til þessarar messu og það eru ALLIR velkomnir!

Batamessa nóvember mánaðar í Bústaðakirkju

Með Fréttir

Önnur batamessa haustsins fer fram í Bústaðakirkju sunnudaginn 3. nóvember, kl. 17.

Sr. María Ágústsdóttir þjónar ásamt Gospelkór Bústaðakirkju og vinur í bata flytur vitnisburð um reynslu sína af 12 sporunum.

Strax að lokinni messu er boðið upp á hressingu í safnaðarheimilinu.

Allir sem hafa áhuga á að kynna sér 12 sporin ættu að koma til þessarar messu en það eru ALLIR velkomnir!

11. spors fundir hefjast í kirkju Óháða safnaðarins haustið 2019

Með Fréttir

Það er gleðilegt að segja frá því að Óháði söfnuðurinn ætlar í vetur að bjóða upp á opna 11. spors fundi fyrir þá sem hafa farið í gegnum 12 sporin í hópi Vina í bata.

Fundirnir verða alla fimmtudaga kl. 18-19 í kirkju Óháða safnaðarins.

Athugið að fyrsti fundur verður fimmtudaginn 7. nóvember 2019.

Við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessum fundum.  Hægt er að kynna sér fundina betur hér á heimasíðunni okkar, viniribata.is/11-spors-fundir