Skip to main content
Flokkur

Reynslusögur

Ég fór í 12 sporastarf veturinn 2004

Með Reynslusögur

Ég fór í 12 sporastarf veturinn 2004-2005.

Líf mitt var á margan hátt stjórnlaust. Ég sveiflaðist eins og lauf í vindi og ég var mjög ómeðvituð um eigin tilfinningar og þarfir. Ég setti fólki ekki skýr mörk og leyfði öðrum að ráðskast með mig.
Vinnan í sporunum skilaði mér mun betri líðan og bætti lífsgæði mín.

Samt er það þannig að “lengi lærir sem lifir” og ákvað ég því að skella mér aftur í sporin s.l. vetur. Ég uppgötvaði – mér til ánægju að margt gott hafði áunnist síðan ég fór í 12 sporin um árið, en samt uppgötvaði ég fullt að nýjum hlutum og ég naut þess að vinna þessa sjálfsskoðunarvinnu.

Af nógu var að taka. Ég fann fullt af brestum sem ég þurfti að horfast í augu við. Það þarf kjark til að þora í sjálfsskoðun af þessu tagi, en ég bað góðan Guð margsinnis að hjálpa mér við þetta verkefni. Ég lærði líka að koma auga á kosti mína og láta mér þykja vænt um þá og vera þakklát fyrir þá.

Margt sem ég uppgötvaði um sjálfa mig olli sársauka, en þá þurfti ég að gæta þess að takast á við tilfinningarnar mínar á þeim hraða sem viðráðanlegur var hverju sinni. Með því að deila með félögunum í fjölskylduhópnum uppgötvunum mínum kom ég auga á lausnir og hvernig ég gat unnið úr því sem ég fann. Þetta varð sannkölluð sjálfsstyrking.
Mér fannst stórkostlegt að finna að ég var ekki ein um að finna fyrir vanmætti, ótta við fólk sem hefur völd eða er ráðríkt, vangetu til að setja fólki skýr mörk, svo eitthvað sé nefnt. Ég kannaðist við mjög margt sem lýst er í algenga hegðunarmynstrinu, en gegnum sporavinnuna fækkaði þeim atriðum verulega sem áttu við mig. Í lok vetrar átti ég nýjan spegil, þann sem kallaður er Áfangar í bata. Hann var þó ekki sprungulaus og ákvað ég því í vor að fara aftur í gegn um sporin í vetur.

Með því að vinna í sporunum hefur innsæi mitt aukist, sjálfsmeðvitund mín batnað til muna og ég hef lært að ég hef ekki stjórn á öllu. Ég hef gert mér grein fyrir því að ég ræð ekki við alla hluti ein og ég þarf að hleypa Guði að, leyfa honum að koma með lækningu inn í líf mitt.

Vinnan í 12 sporunum hefur aukið mjög á lífsgæði mín, eins og áður sagði. Ég á betri samskipti við aðra, sem fela m.a. í sér að ég er meðvitaðri um eigin þarfir, er meira vakandi fyrir að fylgja eigin sannfæringu, í stað þess að reyna stöðugt að þóknast öðrum.
Mér líkar ekki vel við alla – öllum þarf ekki að líka við mig. Það er í himnalagi og ofureðlilegt. Mikill léttir fylgdi þessari uppgötvun.

Ég er viss um að vinna í 12 sporum getur bætt líðan margra ólíkra einstaklinga með ólíkan bakgrunn. Þessa tvo vetur sem ég hef unnið í fjölskylduhópi hef ég eignast góð kynni og djúpa vináttu við margt fólk. Ég hef séð ótrúlegan bata hjá mörgum, það er dásamlegt að fylgjast með þeirri þróun.

Allir sem fara í sporin vinna í þeim á sínum forsendum. Menn fara eins grunnt eða djúpt eins og hverjum hentar, hverju sinni. Ég hef séð að efni 12 sporanna er prógramm sem virkar.

Guð blessi þá sem sem lagt hafa fram krafta sína til að vinna að bókinni 12 sporin – andlegt ferðalag og hjálparbókunum sem gerðar hafa verið. Og ég bið Guð að gefa fólki sem langar, en hikar við að fara í sporavinnuna hugrekki til að slá til.

Vinarkveðja.
Vinur í bata.

Vitnisburður minn

Með Reynslusögur

Vitnisburður minn

Þegar ég var lítil átti ég gott heimili, góða og umhyggjusama foreldra en það var eitthvað sem gerði það að verkum að ég var ósátt við sjálfa mig.

Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að ég myndi ekki lifa lengi og var ég mjög sannfærð um að ég myndi ekki lifa nema til fertugs.

Á fertugsárinu stokkaði ég upp líf mitt og byrjaði í sporunum í kirkjunni minni og núna eru tæp 3 ár liðin og lífið mitt hefur tekið miklum breytingum sem ég ætla að reyna að lýsa hér.

Ég var með mjög lélegt sjálfstraust og vissi ekki hvert ég stefndi með líf mitt enda var ég mjög meðvirk og vildi gera öllum öðrum til geðs. Ég var löngu búin að týna sjálfri mér.

Ég var alltaf pirruð og óánægð enda mikið að spá í hvernig aðrir vildu að ég hefði hlutina. Ég hélt að það væri miklu betra að fá annara manna álit á öllum hlutum heldur en að fylgja eigin sannfæringu enda var ég löngu búin að týna henni, ef ég hef þá haft einhverja.

Allt sem gerðist og sem ég þurfti að ganga í gegnum var áfall í mínum augum og það tók enga smá orku að spá í og segja öllum hversu mikið mál þetta var og ég þurfti stöðugt að fá aðra til að samþykkja að þetta væri mikið áfall.

Ég gerði margt til þess að vera viðurkennd, gerði jafnvel hvað sem er til að fólki líkaði við mig.

Svo tók ég fólk að mér sem ég vorkenndi og fannst þurfa á mínum stuðningi að halda. Ég tók það þannig að mér, að það átti jafnvel ekki líf nema að spyrja mig hvernig það ætti að hafa hlutina, þetta var góð tilfinning að getað “hjálpað” fólki með því að segja hvernig það átti að hafa hlutina enda miklu auðveldara heldur en að þurfa að taka ábyrgð á mínu eigin lífi.

Með þessu fékk ég viðurkenningu fyrir að vera góð, því ef ég var góð þá horfði fólk upp til mín og ég fékk að vera mikilvæg í þeirra augum en viðkomandi áttaði sig ekki á því að ég var sjálf mjög meðvirk og þetta var ekki gert af umhyggju heldur stjórnsemi og mikilli þörf fyrir að vera viðurkennd.

Sumir gengu á lagið með mig og misnotuðu góðmennsku mína, og ég áttaði mig ekki á því að vinskapur er meira en að gefa, hann er einnig að þiggja. Því ég átti mjög erfitt með að þiggja eitthvað frá öðrum og ef ég gerði það þá þurfti ég að greiða fyrir það og það ríkulega með miklum fórnum.

Ég var haldin miklum verkkvíða sem lýsti sér í því, að þegar ég var að gera eitthvað fyrir fólk sem mér fannst öruggt með sig var ég allan tímann meðan á verkinu stóð, að brjóta mig niður fyrir að þetta væri nú ekki nógu vel gert og ég fengi nú skammir fyrir þetta.

Ég talaði illa um aðra til að upphefja sjálfa mig þannig að fólki finndist ég miklu merkilegri en aðrir sem gerði það að verkum að ég var hrædd um að fólk talaði illa um mig þegar að það snéri sér frá mér, þannig að ég varð enn óöruggari með mig og var enn órólegri innan um fólk, það var einhvern vegin auðveldara að vera ósýnileg innan um aðra.

Líf mitt einkenndist af því að vera alltaf að leita að einhverju sem ég fann ekki.

Í dag er líf mitt í fastari skorðum og ég geri mér grein fyrir því að það sem ég vil fá út úr lífinu er að vera ég sjálf og ef ég kem fram af heilindum þá er ég elskuð af fólki.

Í dag á ég fullt af góðum vinum sem taka mig eins og ég er.

Ég er byrjuð í skóla og tel mig eiga bjarta og skemmtilega framtíð framundan.

Ég viðheld jafnvægi mínu með að vinna reglulega í sporunum og minni mig á að gamla lífið og viðhorfin eru ekki það sem ég vil lengur.

Ég er ekki eins stjórnsöm og ég var áður, tek fólki eins og það er en forðast að vera með fólki sem dregur mig niður og ætlar að tala illa um aðra ég er hætt að leita upp viðurkenningu frá öðrum.

Ég er með gott sjálfstraust sem sýnir sér í umhyggju og elsku til þess sem ég fæ í gegnum lífið og reynslu sem ég get lært af.

Ég reyni að byggja mig upp með jákvæðum hugsunum.

Ég er ekki lengur óörugg og ósýnileg innan um fólk heldur reyni ég að ganga alltaf skrefinu lengra en ég tel mig geta.

Vinur í bata

Vitnisburður konu í bata

Með Reynslusögur

Í mínu tilfelli ólst ég upp við ósætti og sífellda spennu á heimilinu sem olli því að það færðist drungi yfir mig og sjálfsmatið hefur ekki verið upp á marga fiska. Ég leitaðist við að gera öllum til geðs en samtímis braut ég mig niður með dómhörku og stjórnsemi gagnvart sjálfri mér.

Ég hef leitað ýmissa leiða til að losna undan þessu fargi en þrátt fyrir það hjakkaði ég stöðugt áfram í sama farinu. Það var ekki fyrr en ég kynntist 12 spora kerfinu að ég komst loks á rétta braut.

Þegar ég mætti fyrst á kynningarfund renndi ég alveg blint í sjóinn. Ég vissi varla út á hvað sporin ganga. Hingað til hef ég forðast hópsamkomur og að þurfa að tjá mig um sjálfa mig. Ég var þess vegna á varðbergi. Það gilti einnig um áhersluna sem 12 sporin leggja á traust á æðri máttarvöldum. En andrúmsloftið sem mætti mér var hlýlegt og öruggt. Þegar ég áttaði mig á að það er enginn að þrýsta á mig að gera eitthvað sem ég var ekki tilbúin til þá ákvað ég að gefa þessu tækifæri. Þegar á leið gat ég svo ekki hugsað mér að missa úr fund. Það var svo einstakt að hitta annað fólk í þeim tilgangi að byggja sig upp með því að deila reynslu og alls kyns tilfinningum, án þess að hafa á tilfinningunni að ég væri að íþyngja hlustendum. Gamlir hnútar tóku að losna í sálartetrinu og í kjölfarið gat ég sagt skilið við ýmsa óþarfa bagga út fortíðinni.

Ýmsir þættir 12 sporanna tóku á en voru samt sem áður aldrei óyfirstíganlegir, þökk sé því að hver getur ráðið ferðinni fyrir sig. En á móti kom líka yndisleg tilfinning um að hafa sigrast á erfiðleikunum. Og ég áttaði mig á því að án trúarinnar á æðri mátt gæti ég alveg eins gleymt þessu. Það gerði útslagið að mega leggja áhyggjurnar í hendur drottins og treysta honum. Á þann hátt komst ég úr þeim vítahring að kvelja mig stöðugt með sjálfsgagnrýni og áhyggjum.

Nú í dag er svo komið að mér líður vel með sjálfri mér. Ég er farin að sætta mig við að ég verð aldrei jafn fullkomin og ég geri kröfu um. Þessi innri rödd sem skammaðist stanslaust í mér er að mestu þögnuð. Þegar ég mæti hindrunum í lífinu tekst mér oftast að snúa mér til guðs og biðja um hjálp. Ég reyni að temja mér að horfast í augu við erfiðleika og líta á þá sem áskoranir sem ég eflist við að takast á við. Þó að eitthvað mistakist þá er það enginn heimsendir. Nú vona ég að mér takist að halda áfram á sömu braut.

Ég á enn margt ólært, þó veit ég í dag að: “eina leiðin út er í gegn!!”

Kona í bata