Í mínu tilfelli ólst ég upp við ósætti og sífellda spennu á heimilinu sem olli því að það færðist drungi yfir mig og sjálfsmatið hefur ekki verið upp á marga fiska. Ég leitaðist við að gera öllum til geðs en samtímis braut ég mig niður með dómhörku og stjórnsemi gagnvart sjálfri mér.
Ég hef leitað ýmissa leiða til að losna undan þessu fargi en þrátt fyrir það hjakkaði ég stöðugt áfram í sama farinu. Það var ekki fyrr en ég kynntist 12 spora kerfinu að ég komst loks á rétta braut.
Þegar ég mætti fyrst á kynningarfund renndi ég alveg blint í sjóinn. Ég vissi varla út á hvað sporin ganga. Hingað til hef ég forðast hópsamkomur og að þurfa að tjá mig um sjálfa mig. Ég var þess vegna á varðbergi. Það gilti einnig um áhersluna sem 12 sporin leggja á traust á æðri máttarvöldum. En andrúmsloftið sem mætti mér var hlýlegt og öruggt. Þegar ég áttaði mig á að það er enginn að þrýsta á mig að gera eitthvað sem ég var ekki tilbúin til þá ákvað ég að gefa þessu tækifæri. Þegar á leið gat ég svo ekki hugsað mér að missa úr fund. Það var svo einstakt að hitta annað fólk í þeim tilgangi að byggja sig upp með því að deila reynslu og alls kyns tilfinningum, án þess að hafa á tilfinningunni að ég væri að íþyngja hlustendum. Gamlir hnútar tóku að losna í sálartetrinu og í kjölfarið gat ég sagt skilið við ýmsa óþarfa bagga út fortíðinni.
Ýmsir þættir 12 sporanna tóku á en voru samt sem áður aldrei óyfirstíganlegir, þökk sé því að hver getur ráðið ferðinni fyrir sig. En á móti kom líka yndisleg tilfinning um að hafa sigrast á erfiðleikunum. Og ég áttaði mig á því að án trúarinnar á æðri mátt gæti ég alveg eins gleymt þessu. Það gerði útslagið að mega leggja áhyggjurnar í hendur drottins og treysta honum. Á þann hátt komst ég úr þeim vítahring að kvelja mig stöðugt með sjálfsgagnrýni og áhyggjum.
Nú í dag er svo komið að mér líður vel með sjálfri mér. Ég er farin að sætta mig við að ég verð aldrei jafn fullkomin og ég geri kröfu um. Þessi innri rödd sem skammaðist stanslaust í mér er að mestu þögnuð. Þegar ég mæti hindrunum í lífinu tekst mér oftast að snúa mér til guðs og biðja um hjálp. Ég reyni að temja mér að horfast í augu við erfiðleika og líta á þá sem áskoranir sem ég eflist við að takast á við. Þó að eitthvað mistakist þá er það enginn heimsendir. Nú vona ég að mér takist að halda áfram á sömu braut.
Ég á enn margt ólært, þó veit ég í dag að: “eina leiðin út er í gegn!!”
Kona í bata
Nýlegar athugasemdir