Skip to main content
All Posts By

starfshopur

Ég var með meistaragráðu í meðvirkni

Með Reynslusögur

Mig langar að deila með ykkur hluta af mínu ferðalagi og kynnum af vinum í bata.

Ég heiti Sigrún og er vinur í bata.
Ég grínast stundum eð það að ég sé með meistaragráðu í meðvirkni , jafnvel margar.
Ég er fullorðið barn alkóhólista og fékk meðvirkni mína í vöggugjöf.
Meðvirkni hefur svo ótal margar birtingamyndir og hún á ekki bara rót sína tengda við alkóhólisma.
Við eigum öll okkar sögu , allskonar sögur úr æsku og lífinu sem færir okkur í eitthvað hegðunarmynstur.

Algengt hegðunarmynstur

Það var árið 2013 sem ég fór á minn fyrsta kynningafund hjá Vinum i bata.
Á þessum kynningafundi var lesið upp algengt hegðunarmynstur, ég átti erfitt með að halda aftur tárunum á þessum fundi því ég tengdi við allt!
Það var einhver sem var að lýsa mér! Ég gat speglað mig í hverju einasta hegðunarmynstri og áttaði mig á því þarna að það væru kannski fleiri að glíma við sömu tilfinningaflækju og ég.
Í kjölfarið fór ég minn fyrsta sporahring með vinum í bata.  Ekki síðasta .. alls ekki , ég er hér enn  🙂

  • Ég var með brotið og lágt sjálfsmat og átti erfitt með að hafa rangt fyrir mér, ef ég hafði rangt fyrir mér þá braut ég sjálfa mig niður í marga daga … vikur.. mánuði .. ár..
  • Ég einangraði mig , dró mig í hlé ef fólk var komið of nærri mínu umhverfi og tilfinningum. Hélt vinum frá umhverfi mínu og þannig fjarlægðist vinina og ég passaði vel að flestir sæju bara þennan fína front sem ég átti… Þetta gerði ég alveg frá því ég var krakki.
  • Ég sóttist stanslaust eftir viðurkenningu og gekk oft langt yfir mín mörk til þess að þóknast og öðlast einhverskonar viðurkenningu á að ég væri einhver og eitthvað. Ef það tókst ekki brotnaði ég og koðnaði niður í sjálfsásökunum. Höfnunartilfinningin var yfirþyrfmandi
  • Ég var ofurviðkvæm og átti svakalega erfitt með að taka gagnrýni og var stanslaust í vörn.
  • Ég var ofurábyrg og reyndi að taka ábyrgð á öllu og öllum í umhverfi mínu. Ég vildi vera til staðar fyrir allt og alla og allt fyrir alla gera.
    Ég átti svo erfitt með að taka ábyrgð á sjálfri mér og þeirri yfirgnæfandi tilfinningu að ég gat ekki staðist kröfur – mínar kröfur  og tók svo enga ábyrgð á minni hegðun heldur var bara fórnarlamb og skyldi ekki hvers vegna fólk var ekki til staðar fyrir mig.
  • Ég átti erfitt með að standa með sjálfri mér og ég of og endurhugsaði allt það sem ég sagði og gerði , fór vel yfir allt þegar ég lagðist á koddann á kvöldin .
    Ég átti erfitt með að tjá skoðanir mínar og langanir af ótta við höfnun og það reyndist mér jafnvel erfitt að panta pizzu, ég var skíthrædd um að gera mistök.
    Þannig öðlaðist ég líka þann frábæra kamelljón hæfileika , ég gat komið mér vel inn í allar aðstæður og passað inn.  – en við getum líka nýtt brestina okkar til góðs og í dag þetta einn af mínum góðu hæfileikum 🙂
  • Ég bældi tilfinningar mínar niður og reyndi að gera lítið úr þeim, ofurviðkvæmni mín og tilfinningar voru óþægilegar og það er best að taka allt sem er óþægilegt og sópa því undir teppið . Ég gerði mér enganvegin grein fyrir því hvaða afleiðingar það hafði á mig og fólkið í kringum mig.
    Það er nefnilega þannig að með því að takast ekki á við raunveruleikann og koma mér út úr mynstrinu ( sem ég áttaði mig bara ekki á að væri mynstur þar sem þetta var bara minn raunveruleiki) Þá þróaði ég bara meðvirkni mína með umhverfinu og aðstæðum og leyfði fólkinu mínu að njóta með mér.

Ég gæti endalaust talið upp af listanum mínum þau brengluðu hegðunarmystur og bresti sem ég átti en það er jafnvel efni í heila bók.

Tólf sporin breyta lífinu

Með hjálp Vina í bata, 12 sporanna og Jesú Krists hefur mér tekist að fara í áttina að miklu miklu betra lífi, ég segi í áttina þar sem að lífið er stanslaus vinna, allskonar kemur uppá sem dregur okkur aftur í meðvirknina, en með þetta dásamlega verkfæri sem 12 sporin eru er svo gott og auðvelt að fara aftur í batann.

Ég byrjaði 12 spora gönguna mína árið 2010, þá LOKSINS var ég tilbúin að viðurkenna að ég þarfaðist hjálpar, það var eitthvað að, ég var buguð, þreytt á sál og líkama, ég fór í fjölskyldumeðferð hjá SÁÁ og var það mitt fyrsta skref í átt að bata.

Árið 2013 fór ég á fyrsta kynningafundinn hjá vinum í bata og það var bara eitthvað sem small, ég bara vissi að þarna átti ég að vera,  Og VÁ VÁ VÁ ,
Þvílík umbreyting, og yndislegu vinirnir sem ég eignaðist og stuðningsnetið sem hefur heldur betur haldið utan um mig.

Á þessum tíma var ég í svo roslegri uppgjöf og var komin í algert þrot, andleg þreyta frá barnæsku þar sem ég hafði verið að berja sjálfa mig niður með stanslausri gagnrýni og alltaf að rembast við að vera fullkomin, ég breytti um persónuleika eftir aðstæðum og gat alls ekki tekið við höfnun.

En með hjálp vina í bata var ég komin í ótrúlega gott jafnvægi, eftir mikla sjálfsvinnu og á svo góðri leið í lífinu.

EN lífið gerist og allskonar áskoranir sem við þurfum að takast á við.
Ég t.d. Missti pabba minn úr sjálfsvígi, missti vinnuna, þurfti að takast á við erfiðleika í hjónabandi, erfiðleika hjá börnunum mínum, einelti á vinnustað, drauga úr fortíðinn og alls konar áskoranir eins og gengur og gerist á vegferð okkar allra.
Ég hef verið farþegi í eimreið með einu leiðina beint í þrot …

EN í þessum aðstæðum vissi ég af verkfæri, 12 spora kerfi Vina í bata og ég átti trúna mína. Trúna á Jesú Krist.

Vá hvað ég er HEPPIN!
Og þvílík himnasending sem Vinir í bata eru.

Lærdómur

Á minni vegferð er svo ótrúlega margt sem ég hef lært um sjálfa mig, ótrúlega margt óþægilegt og erfitt sem hefur valdið sársauka, en líka svo ótrúlega margt gott.
Ég er alls ekki laus við hegðunamynstrin og áskoranir lífsins halda áfram en ég hef svo miklu miklu meiri þekkingu á sjálfri mér, viðbrögðum minum, tilfinningum mínum, hvenær ég er að detta í gömul mynstur.
Ég hef öðlast sjálfsöryggi og sjálfsást.
Mér líður vel í kringum annað fólk.
Ég er að æfa mig í að taka gagnrýni  🙂

Ég tek ábyrgð á sjálfri mér!

Ég get tjáð hugsanir mínar og langanir og staðið með sjálfri mér .

Ég hef eignast vini til frambúðar í gegnum þessa vinnu mína og það er mér algjörlega ómetanlegt að eiga vini sem ég get rætt opinskátt við um meðvirka hegðun og tilfinningar, vini sem hafa farið í gegnum sporavinnuna, það er bara allt allt önnur tenging, traust, virðing og kærleikur.

Ég hef eignast fullvissu í trú og traust á Jesú Krist. Að læra að elska sjálfa sig og aðra í gegnum kærleika Hans er gjöf sem okkur öllum er gefið.

Hvernig líf mitt breyttist til hins betra

Með Reynslusögur

Hæ öll! Ég heiti Siggi og ég er vinur í bata.  Ég er þakklátur fyrir tækifærið að fá að segja ykkur frá minni sögu og upplifun af 12 spora starfi vina í bata. Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig það breytti lífi mínu, varð hluti af lífi mínu og bjargaði lífi mínu. Mín æska var lituð af miklum kvíða og minnimáttarkennd. Ég upplifði mikla pressu til að standa mig í öllum þáttum lífsins, skóla, vinnu, íþróttum og tómstundum. Foreldrar mínir ólust bæði upp við alkólisma á sínum heimilum og þó svo að drykkja hafi aldrei verið vandamál á mínu æskuheimili, þá mátti finna ýmsa fylgifiska frá þeirra æskuheimilum, mikla meðvirkni og mikla þörf til þess að tala ekki um vandamálin. Ekki láta nappa okkur við að gera vandræðaleg mistök, heldur reyna að breiða yfir þau með öllum tiltækum ráðum. Halda uppi glansmynd upp á 10,5 í einkunn. Svona gekk lífið mitt áfram og varð sífellt meiri barátta þar til ég var orðinn tæplega þrítugur. Eftir að hafa staðið mig ótrúlega vel í vinnu, og búinn að vinna mig upp í sífellt ábyrgðarmeiri stöður með sífellt minni umbun, varð ég óvinnufær, síþreyttur, ófær um að klára heilan vinnudag. Við tók tímabil þar sem ég skipti um vinnur, fór að læra söng og flutti meira að segja til útlanda til þess að læra söng. Fullkomnunaráráttan var ekki langt undan og áður kom að lokaprófum að vori var ég búinn að keyra mig út.

Vinir í bata

Strax um vorið fór ég á vefsíðu vina í bata, ég þekkti aðeins til því mamma hafði verið í starfinu áður. Ég ákvað þá og þegar að ég skyldi fara á kynningarfund að hausti. Sumarið fór í að fara vel með mig, vinna í sjálfum mér og ég var í mjög léttu starfi. Bróðir minn greindist með krabbamein um sumarið, svo við fjölskyldan vorum í áfalli. Það var haustið 2019 þegar ég mætti á kynningarfund og fljótlega eftir að við höfðum safnast saman inni í kirkju lásum við saman algengt hegðunarmynstur úr vinnubókinni „12 sporin – andlegt ferðalag“ Ég fékk sjokk!! Var í alvörunni til svona margt fólk sem hafði svipaða reynslu og ég? Voru svona margir sem voru jafnuppgefnir í sálinni sinni eins og ég? Voru svona margir sem upplifðu sig jafn misheppnaða og ófullkomna – eins og ég? Næstu vikur tók við undirbúningsvinna sem tilheyrir opnu  fundunum sem fer fram á fyrstu 3-4 vikunum í starfinu. Og ég fann strax að það var eitthvað að gerjast innra með mér, eitthvað var byrjað að breytast. Á fjórðu viku voru fjölskylduhóparnir myndaðir og fundunum lokað. Við vorum beðin um að taka ákvörðun um það hvort við ætluðum að vera með af fullri alvöru, lesa og vinna spurningar heima og koma undirbúin og í bæn til fundanna. Þetta var ekki erfið ákvörðun fyrir mig og ég skrifaði hiklaust undir samning þess efnis.

Lífið breytist

Þegar við unnum okkur áfram í gegnum sporin þá léttist svo mikið á andlegri líðan og lífið varð smám saman bærilegra. Ég fór að taka eftir kraftaverkum í mínu lífi. Bróðir minn sigraðist á krabbameininu, og samskipti innan fjölskyldunnar voru orðin virkilega góð og falleg. Ég opnaði hjarta mitt upp á gátt fyrir nýjum tækifærum, kom hreint og beint fram í samskiptum. Vinnan mín varð skemmtileg – sama vinna og ég hafði hrökklast úr í mikilli vanlíðan nokkrum árum áður. Ég hóf rómantískt samband á þessum tíma, en ég hafði verið
gjörsamlega óhæfur til þess árin áður. Ég kynntist grískri konu í Belgíu og við byrjuðum að fella hugi saman eftir að ég flutti aftur til Íslands. Við áttum í fjarsambandi sem kom aldeilis ekki án vandræða eða erfiðleika. En ég ákvað að vera gjörsamlega opinn fyrir hverju því sem myndi gerast, og ekki gerast. Ég lagði sambandið svo oft í hendurnar á Guði og geri enn, því að við erum gift í dag og eigum tveggja ára son. Á fundunum byrjum við saman hér í kirkjunni, en svo skiptum við okkur í smærri hópa, svokallaða fjölskylduhópa og þar fer hin eiginlega vinna fram. Það var á fjölskyldufundi annan veturinn minn, (2020) sem ég deildi því spenntur að gríska gyðjan í mínu lífi hefði flutt til Íslands og við værum flutt inn saman. Við ætluðum að láta reyna á sambandið. Og vorið 2022 tilkynnti ég þáverandi fjölskylduhópi um að við konan ættum von á barni. Konan mín var sennilega gengin 7 til 8 vikur þegar ég deildi fréttunum en ég iðaði í skinninu að geta sagt einhverjum frá þessum gleðifréttum. Þarna skipti trúnaðartraustið innan hópsins miklu máli. Óhjákvæmilega komum við með daglegt líf okkar, gleði og raunir inn á fjölskyldufundina því öll atvik í okkar lífi fléttast inn í sporavinnuna og hvernig við vinnum úr þeim í okkar bataferli. Þann vetur sem sonur minn kom í heiminn og veturinn eftir það tók ég mér hlé frá sporavinnunni. En fyrr í haust (2024) ákvað ég að veita mér þá gjöf að styrkja sjálfan mig enn frekar.
Við erum nokkrir karlar saman í fjölskylduhópi og það var fyrir 2 og ½ viku sem ég deildi erfiðri lífsreynslu með mínum fjölskylduhópi. Við konan misstum fóstur og fylgdi því mikil sorg og krefjandi tilfinningar. Við erum langt í frá þau einu sem hafa lent í því, þetta er mjög algengt og ég finn til með öllum þeim sem lenda í þessu og vona að fólk noti tækifærið sem oftast að kveikja ljós fyrir litlu börnin í okkar lífi sem fengu aldrei að vera með okkur.

Verkfæri tólf sporanna

12 sporin og Vinir í bata koma ekki í veg fyrir það að við lendum í áföllum, missi, sorg, erfiðleikum eða vanlíðan. En við fáum verkfæri til þess að vinna okkur í gegnum erfiðleikana á heilbrigðan hátt. Ekki með því að deyfa sársaukann, heldur með því að draga hann fram í ljósið, tala um hann og finna honum sinn sess í hjartanu svo við getum lifað með honum. Ég trúi því að Guð birtist okkur í samskiptum við annað fólk. Við upplifum stuðning, náungakærleik þegar við eigum í samskiptum við gott fólk og ef við veitum því athygli þá er kærleikurinn gjörsamlega úti um allt. Sporafundirnir á vegum vina í bata eru góður vettvangur til að rækta þennan kærleik. Ég held að kærleikurinn sé alltaf nær en við höldum!

Uppskeruhátíð 2020

Með Fréttir

 

Kæru vinir í bata nær og fjær,
Nú ætlum við að snúa vörn í sókn og hittast hress á uppskeruhátið Vina í bata. Við ætlum að fagna batanum og öllu því góða sem við höfum samt sem áður fengið út úr sporavinnunni. Við ætlum líka að brydda upp á nýjungum. Það verður komið leyfi fyrir 200 manns á þessum tíma svo við erum í góðum málum. Verum dugleg að hnippa í þá sem við höfum verið að vinna sporin með í vetur og gleðjumst saman  en það eru allir velkomnir.

Staður: Í ár verður uppskeruhátíðin utan húss – nóg pláss. Hún verður haldin á Álftanesi að Bjarnastöðum sem er stórt hús í eigu sveitarfélagsins (sjá leiðarlýsingu). Þar er nóg pláss úti og ágætt pláss inni. Við erum búin að panta gott veður – annars færum við okkur inn í húsið.

Stund: föstudagurinn 5. Júní 2020 kl. 18.00 – 19.30

Dagskrá: Helgistund – tónlist – vitnisburðir – leikir og aðrar uppákomur – í lokin verður boðið upp á létta máltíð. Samskot renna til reksturs heimasíðu samtakanna. Við hvetjum alla til að skrá sig á facebookviðburðinn eða senda okkur línu á vinir@viniribata.is –  svo hægt sé að áætla hve mikið af mat mun þurfa.

Leiðarlýsing: Keyrt er eftir Álftanesvegi þar til komið er að hringtorgi með Bessastaði á hægri hönd, farið út úr því á þriðju beygju til hægri. Keyrt sem leið liggur eftir Suðurnesvegi, þar til komið er að 4 götu á vinstri hönd þá er keyrt inn Bakkaveg og blasa þá Bjarnastaðir við sem hvítt tvílyft hús með rauðu þaki og er þar stór grasflöt sem er römmuð inn af stórum öspum. Hægt er að leggja bílum á bílaplaninu við húsið.

 

 

11. spors fundir hefjast í kirkju Óháða safnaðarins haustið 2019

Með Fréttir

Það er gleðilegt að segja frá því að Óháði söfnuðurinn ætlar í vetur að bjóða upp á opna 11. spors fundi fyrir þá sem hafa farið í gegnum 12 sporin í hópi Vina í bata.

Fundirnir verða alla fimmtudaga kl. 18-19 í kirkju Óháða safnaðarins.

Athugið að fyrsti fundur verður fimmtudaginn 7. nóvember 2019.

Við hvetjum ykkur til að taka þátt í þessum fundum.  Hægt er að kynna sér fundina betur hér á heimasíðunni okkar, viniribata.is/11-spors-fundir

 

Leiðbeinenda fundur 14. september 2019

Með Fréttir

Vinsamlegast athugið breyttar tímasetningar fundarins sem og skráningarfrest frá því sem upphaflega kom fram í fréttinni.

Nú styttist sannarlega í það að vetrarstarfið byrji hjá Vinum í bata. Við erum að fá upplýsingar frá kirkjunum um þessar mundir og munum auglýsa fundarstaði og tíma nánar í byrjun september.

Eins og leiðbeinendur og aðrir sporafarar þekkja hefur það verið gert í mörg ár að hittast að hausti í Skálholti til að byggja okkur upp og til að undirbúa okkur undir vetrarstarfið.
Að þessu sinni verður haustfundurinn með örlítið breyttu sniði. Við munum hittast í safnaðarheimili Bessastaðasóknar, Brekkuskógum 1 á Álftanesi.

Fundurinn verður haldinn laugardaginn 14. september nk. Hann hefst kl. 10 og honum lýkur kl. 15. Þátttökugjald er kr. 4.000 og er kaffi og hádegisverður innifalinn.

Dagskráin er svohljóðandi:

Kl. 10:00 – 11:45: Fundur settur. Flutt erindi um hvað felst í því að vera leiðbeinandi, fyrirspurnir og umræður í kjölfarið.
Kl. 11:45 – 12:45: Við tökum stuttan göngutúr og snæðum hádegisverð að Hliði á Álftanesi.
Kl. 12:45 – 14:30: Flutt erindi um gjafir andlega ferðalagsins í 12 sporunum, fyrirspurnir og umræður í kjölfarið.
Kl. 14:30 – 15:00: Kaffisamvera, stutt helgistund og fundarslit.

Skráning er nauðsynleg og berist sem fyrst en eigi síðar en föstudaginn 13. september fyrir kl. 16, á netfangið vinir@viniribata.is eða í gegnum skilaboð á Facebook síðunni okkar.

Við leggjum áherslu á að leiðbeinendur skrái sig til þátttöku. Við hvetjum jafnframt aðra áhugasama Vini í bata til að taka þátt því að allir reyndir sporafarar geta orðið leiðbeinendur!

Aðalfundur og vorhátíð 10. maí 2019

Með Fréttir

Vorhátíð

Vorhátíð Vina í bata fer fram í Grindavíkurkirkju föstudaginn 10. maí kl. 18. Við hvetjum alla sporafara vetrarins til að koma og njóta samveru. Að sjálfsögðu eru eldri sporafarar og gestir velkomnir að venju! Við munum m.a. njóta tónlistar og hlýða á vitnisburði. Léttar veitingar verða á borðum.

Aðalfundur

Aðalfundur Vina í bata fer fram í Grindavíkurkirkju í kjölfar vorhátíðar, föstudaginn 10. maí. Hefst fundur kl. 19:30 og á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf.

Við hvetjum alla til að koma og taka virkan þátt í starfinu.

Kveðja,
starfshópurinn