Hæ öll! Ég heiti Siggi og ég er vinur í bata. Ég er þakklátur fyrir tækifærið að fá að segja ykkur frá minni sögu og upplifun af 12 spora starfi vina í bata. Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig það breytti lífi mínu, varð hluti af lífi mínu og bjargaði lífi mínu. Mín æska var lituð af miklum kvíða og minnimáttarkennd. Ég upplifði mikla pressu til að standa mig í öllum þáttum lífsins, skóla, vinnu, íþróttum og tómstundum. Foreldrar mínir ólust bæði upp við alkólisma á sínum heimilum og þó svo að drykkja hafi aldrei verið vandamál á mínu æskuheimili, þá mátti finna ýmsa fylgifiska frá þeirra æskuheimilum, mikla meðvirkni og mikla þörf til þess að tala ekki um vandamálin. Ekki láta nappa okkur við að gera vandræðaleg mistök, heldur reyna að breiða yfir þau með öllum tiltækum ráðum. Halda uppi glansmynd upp á 10,5 í einkunn. Svona gekk lífið mitt áfram og varð sífellt meiri barátta þar til ég var orðinn tæplega þrítugur. Eftir að hafa staðið mig ótrúlega vel í vinnu, og búinn að vinna mig upp í sífellt ábyrgðarmeiri stöður með sífellt minni umbun, varð ég óvinnufær, síþreyttur, ófær um að klára heilan vinnudag. Við tók tímabil þar sem ég skipti um vinnur, fór að læra söng og flutti meira að segja til útlanda til þess að læra söng. Fullkomnunaráráttan var ekki langt undan og áður kom að lokaprófum að vori var ég búinn að keyra mig út.
Vinir í bata
Strax um vorið fór ég á vefsíðu vina í bata, ég þekkti aðeins til því mamma hafði verið í starfinu áður. Ég ákvað þá og þegar að ég skyldi fara á kynningarfund að hausti. Sumarið fór í að fara vel með mig, vinna í sjálfum mér og ég var í mjög léttu starfi. Bróðir minn greindist með krabbamein um sumarið, svo við fjölskyldan vorum í áfalli. Það var haustið 2019 þegar ég mætti á kynningarfund og fljótlega eftir að við höfðum safnast saman inni í kirkju lásum við saman algengt hegðunarmynstur úr vinnubókinni „12 sporin – andlegt ferðalag“ Ég fékk sjokk!! Var í alvörunni til svona margt fólk sem hafði svipaða reynslu og ég? Voru svona margir sem voru jafnuppgefnir í sálinni sinni eins og ég? Voru svona margir sem upplifðu sig jafn misheppnaða og ófullkomna – eins og ég? Næstu vikur tók við undirbúningsvinna sem tilheyrir opnu fundunum sem fer fram á fyrstu 3-4 vikunum í starfinu. Og ég fann strax að það var eitthvað að gerjast innra með mér, eitthvað var byrjað að breytast. Á fjórðu viku voru fjölskylduhóparnir myndaðir og fundunum lokað. Við vorum beðin um að taka ákvörðun um það hvort við ætluðum að vera með af fullri alvöru, lesa og vinna spurningar heima og koma undirbúin og í bæn til fundanna. Þetta var ekki erfið ákvörðun fyrir mig og ég skrifaði hiklaust undir samning þess efnis.
Lífið breytist
Þegar við unnum okkur áfram í gegnum sporin þá léttist svo mikið á andlegri líðan og lífið varð smám saman bærilegra. Ég fór að taka eftir kraftaverkum í mínu lífi. Bróðir minn sigraðist á krabbameininu, og samskipti innan fjölskyldunnar voru orðin virkilega góð og falleg. Ég opnaði hjarta mitt upp á gátt fyrir nýjum tækifærum, kom hreint og beint fram í samskiptum. Vinnan mín varð skemmtileg – sama vinna og ég hafði hrökklast úr í mikilli vanlíðan nokkrum árum áður. Ég hóf rómantískt samband á þessum tíma, en ég hafði verið
gjörsamlega óhæfur til þess árin áður. Ég kynntist grískri konu í Belgíu og við byrjuðum að fella hugi saman eftir að ég flutti aftur til Íslands. Við áttum í fjarsambandi sem kom aldeilis ekki án vandræða eða erfiðleika. En ég ákvað að vera gjörsamlega opinn fyrir hverju því sem myndi gerast, og ekki gerast. Ég lagði sambandið svo oft í hendurnar á Guði og geri enn, því að við erum gift í dag og eigum tveggja ára son. Á fundunum byrjum við saman hér í kirkjunni, en svo skiptum við okkur í smærri hópa, svokallaða fjölskylduhópa og þar fer hin eiginlega vinna fram. Það var á fjölskyldufundi annan veturinn minn, (2020) sem ég deildi því spenntur að gríska gyðjan í mínu lífi hefði flutt til Íslands og við værum flutt inn saman. Við ætluðum að láta reyna á sambandið. Og vorið 2022 tilkynnti ég þáverandi fjölskylduhópi um að við konan ættum von á barni. Konan mín var sennilega gengin 7 til 8 vikur þegar ég deildi fréttunum en ég iðaði í skinninu að geta sagt einhverjum frá þessum gleðifréttum. Þarna skipti trúnaðartraustið innan hópsins miklu máli. Óhjákvæmilega komum við með daglegt líf okkar, gleði og raunir inn á fjölskyldufundina því öll atvik í okkar lífi fléttast inn í sporavinnuna og hvernig við vinnum úr þeim í okkar bataferli. Þann vetur sem sonur minn kom í heiminn og veturinn eftir það tók ég mér hlé frá sporavinnunni. En fyrr í haust (2024) ákvað ég að veita mér þá gjöf að styrkja sjálfan mig enn frekar.
Við erum nokkrir karlar saman í fjölskylduhópi og það var fyrir 2 og ½ viku sem ég deildi erfiðri lífsreynslu með mínum fjölskylduhópi. Við konan misstum fóstur og fylgdi því mikil sorg og krefjandi tilfinningar. Við erum langt í frá þau einu sem hafa lent í því, þetta er mjög algengt og ég finn til með öllum þeim sem lenda í þessu og vona að fólk noti tækifærið sem oftast að kveikja ljós fyrir litlu börnin í okkar lífi sem fengu aldrei að vera með okkur.
Verkfæri tólf sporanna
12 sporin og Vinir í bata koma ekki í veg fyrir það að við lendum í áföllum, missi, sorg, erfiðleikum eða vanlíðan. En við fáum verkfæri til þess að vinna okkur í gegnum erfiðleikana á heilbrigðan hátt. Ekki með því að deyfa sársaukann, heldur með því að draga hann fram í ljósið, tala um hann og finna honum sinn sess í hjartanu svo við getum lifað með honum. Ég trúi því að Guð birtist okkur í samskiptum við annað fólk. Við upplifum stuðning, náungakærleik þegar við eigum í samskiptum við gott fólk og ef við veitum því athygli þá er kærleikurinn gjörsamlega úti um allt. Sporafundirnir á vegum vina í bata eru góður vettvangur til að rækta þennan kærleik. Ég held að kærleikurinn sé alltaf nær en við höldum!