Skip to main content

Ferðarlagið mitt hér í kirkjunni

Með janúar 4, 2019Reynslusögur

Ferðarlagið mitt hér í kirkjunni, með vinum í bata, byrjaði á einum litlum blaðasnepil sem kom inn um lúguna heima hjá mér. Þegar ég las á miðann, þá vissi ég að núna væri guð að aðstoða mig. Hann var að rétta mér hjálparhönd þegar ég þarfnaðist þess hvað mest.

Á þeim tíma sem vinir í bata byrjaði var ég nýbyrjuð hjá sálfræðingi og á þunglyndislyfjum. Mig vantaði mikla hjálp. En þetta brot úr ljóðinu Norðurljós eftir Jóhannes úr Kötlum finnst mér lýsa tilfinningunni þegar ég las bréfsnepilinn:

Ég vildi sigra sortans mátt og sjá í gegnum hann.
Því einhver þrá til æðra lífs í æðum mínum brann.
Ég þráði meira, meira ljós í mína veika sál.
Ég þráði glóð frá Guði sjálfum, glóð sem væri ei tál.

Á þessum tíma átti ég 10 mánaða stelpu og var mikið veik af fæðingarþunglyndi. Ég hafði fengið áfallastreituröskun í kjölfar fæðingar og var komin með ýmsar þráhyggjur og mikinn kvíða sem gerðu lífið mitt mjög erfitt.
Ég elskaði ekki barnið mitt. Ég var hrædd við hana. Ég sá eftir öllu saman. Ég var þakin samviskubiti yfir öllu sem ég gerði og fannst ég aldrei vera nógu góð. Ég hætti að elska sjálfa mig. Mér fannst ég sjálf vera horfin og ég þekkti mig ekki lengur. Ég átti erfitt með að eiga samskipti við annað fólk og fannst allir í kringum mig vera orðnir fífl. Það var erfitt að fara framúr rúminu og það var erfitt að hætta að gráta. Mér kveið fyrir öllu minnstu hlutum. Ég var viss um að lífið væri auðveldara fyrir alla án mín.

Ég fann að mig vantaði eitthvað meira en það sem ég fékk hjá sálfræðingnum, en ég vissi ekki hvað það væri. En fljótlega eftir að ég byrjaði í vinum í bata þá áttaði ég mig á því. Mig vantaði einhverskonar tengslanet. Mig vantaði að fá að að tjá mig við venjulegt fólk sem hafði alls konar reynslu. Fólk sem ég vissi að dæmdi mig ekki. Mig vantaði ekki bara að fá að tala, heldur vantaði mig líka á að fá að hlusta. Og það er einmitt það sem hjálpaði mér hvað mest, að fá að heyra að ég væri ekki sú eina sem væri að ströggla með daglegt líf. Að ég væri bara mannleg.

Ég átti mikla vinnu fyrir höndum. Erfiða vinnu. En ég vissi innst inni að sú vinna myndi á endanum bera árangur. Ástæðan fyrir því að ég vissi það er af því að ég hef áður unnið mikla sjálfsvinnu tengda meðvirkni. En ég er yngst níu systkina og er ein þeirra sem hef þurft horfa upp á ástvini sína berjast við fíknina. En pabbi minn er óvirkur alkahólisti og bræður mínir fjórir einnig ásamt því að vera líka óvirkir fíklar. Bróðir minn, sem ég er mjög náin, hefur þurft að glíma við geðhvarfasýki í nokkur ár, sem hann þróaði með sér þegar hann var sem lengst leiddur inn í heim eiturlyfja. Ég er því gríðarlega þakklát að hafa vitað í upphafi að fyrst ég væri byrjuð að vinna í sjálfri mér að þá myndi allt verða allt í lagi. Að það væri til lausn.

Hér í kirkjunni deildi ég hugsunum mínum og ég var ákveðin í því að skafa ekkert af hlutunum. Sama hve asnalegir þeir væru. Því bata skyldi ég ná að uppskera á endanum og þá leggur maður hjartað beint á borðið. Ég sagði frá öllum göllunum mínum og mistökum, vondum hugsunum og tilfinningum. En hægt og rólega fór ég að segja frá kostunum mínum og eiginleikum mínum sem ég mér hefur alla tíð þótt vænt um. Ég fann að þessi ég sem ég áður þekkti var að brjótast fram og ég byrjaði að finna fyrir létti. Hún var þarna ennþá, manneskjan sem ég elska hvað mest í lífinu. Það var svo gott að finna sjálfa sig á ný.

Að vinna sporin var alls ekki létt, enda af nógu að taka. En ég get svo sannarlega sagt að með þeim endurheimti ég líf mitt á ný. Í dag er ég ótrúlega hamingjusöm. Ég er þakklát. Ég elska stelpuna mína endalaust og samband okkar er mjög gott. Eitt það dýrmætasta sem ég lærði í sporunum og í vinnu minni hér í vetur er að ég hef alla tíð lagt of miklar kröfur á sjálfa mig. Í dag leyfi ég mér að vera mannleg, ég leyfi mér að gera mistök og að slaka á. Með vinum í bata fann ég þetta ljós sem mig vantaði í hjartað mitt og sálu.

Ferðalangur.