Haustið 1996 veiktist ég af flogaveiki og átti í henni í 7 ár. Ég var á beinu brautinni, eins og sagt er, var að hefja mitt annað ár í háskólanámi, í sambúð og átti bjarta framtíð fyrir mér. Ég upplifði þetta eins og fótunum hefði verið kippt undan mér.
Stundum finnst mér eins og þetta hafi allt saman verið ein löng martröð. Ég var á mjög miklum lyfjum og þessi tími er svolítið í þoku og sumt man ég alls ekki. Stundum vissu læknarnir ekki hvaða einkenni voru frá sjúkdómnum og hvað var vegna lyfjanna, en þau ollu miklum aukaverkunum. Ég var td. á einu lyfi sem átti það til að rjúka upp í blóðgildi þannig að ég var eins og á 7. glasi, sá tvöfalt og gekk á veggi.
Þremur árum eftir að ég veiktist slitu ég og unnusti minn samvistum, hann var þá búinn að standa við hlið mér eins og klettur. Þá flutti ég til foreldra minna og þau sáu mig þá fá flogakast í fyrsta skipti. Það var þeim þungbært, þau höfðu oft annast mig eftir köst, en ekki gert sér grein fyrir hversu stór þau væru og óhugnanleg. Viðbrögð þeirra fóru illa í mig, þau vildu aldrei skilja mig eftir eina, en ég sé nú að þetta var gert af umhyggjunni einni saman.
Árið 2000 var ég send út til USA til þess að fara í skurðaðgerð. Ég gerði mér mjög miklar vonir um bata. Ég fór í ýtarlegar rannsóknir og kom þá í ljós að þeir treystu sér ekki til að gera aðgerð. Skipt var um lyf í kjölfarið og sjúkdómurinn breyttist. Köstin urðu fleiri en minni. Vonbrigðin voru mikil, mér fannst ólíklegt að reynt yrði aftur, en ég gafst ekki upp. Mér bauðst að fara til taugalæknis sem var ný kominn úr námi. Rannsóknarniðurstöðurnar voru sendar aftur til USA. Allt gekk mjög hratt fyrir sig, læknirinn fylgdi hlutunum vel eftir og stuttu seinna var ég aftur komin til Bandaríkjanna. Þar fór ég í heilaskurðaðgerð – þetta var fyrir sex árum og ég hef ekki fengið flogakast síðan.
Mér var sagt frá 12 sporunum í fyrra sumar. Hringt var í mig um haustið, rétt fyrir fyrsta kynningarfundinn, til þess að minna mig á hann. Þá voru báðir foreldrar mínir veikir og mér fannst ég verða að sjá um þau þar sem þau hafa gert svo ótrúlega mikið fyrir mig. Mér fannst útilokað að ég hefði tíma fyrir sporin. Ég var hinsvegar orðin algjörlega uppgefin og álagið var að sliga mig. Ég dreif mig á fundinn og eftir hann var ekki aftur snúið.
Veikindi mín reyndu mjög mikið á samskiptin í fjölskyldunni og ég náði að vinna mikið með það í sporunum. Ég skil sjónarmið foreldra minna og systkina mun betur. Mér finnst ég bregðast við áreiti af meiri yfirvegun, skilningi og kærleika. Ég tel mig hafa breyst, en ég breyti ekki öðrum.
Ég hef viljað halda því fram að sjúkdómar eins og flogaveiki séu tilvaldir til þess að brjóta fólk niður. Ég var alltaf að fela eitthvað, hrædd um að fá köst, skammaðist mín fyrir þau og áður en ég fór í sporavinnuna var ég hrædd um að vera hafnað eða litin öðrum augum vegna veikinda minna. Sporavinnan efldi mig mjög mikið, mér er sagt að ég hafi blómstrað, ég trúi því núna að ég geti gert nánast hvað sem er! Þar lærði ég einnig að bera virðingu fyrir sjálfri mér og setja mig í fyrsta sætið. Eins og við öll vitum er þetta lífsstíll, ég er rétt að byrja.
Sporavinnan víkkar sjóndeildarhringinn, það er gott að kynnast sjálfum sér almennilega og fyrirgefa bæði sér og öðrum. Sporin styrktu trú mína á Guð og ég er fullviss um að til er æðri máttur sem er með okkur og hjálpar okkur og styður í gegnum súrt og sætt.
Ég er uppfull af þakklæti og með góða tilfinningu í hjartanu. Guð gaf mér nýtt líf! Ég þarf að nota það vel. Ég er mjög heppin, ég er svo heppin að hafa verið orðin þetta gömul þegar ég veiktist, getað klárað námið mitt, vera með vinnu, eiga góða fjölskyldu og hafa náð bata því að ekkert af þessu er sjálfgefið!
Guð er svo sannarlega með mér í för.
Vinkona í bata