Saga A.
Mig langar til þess að skrifa mína reynslusögu því hún mun kannski hjálpa einhverjum.
Ef ég hugsa til baka og rifja upp hvernig barn ég var þá rifjast upp minningar sem sýna mér að ég fæddist alkóhólisti og hef verið með þennan sjúkdóm alla mína tíð.
Ef ég rifja upp þau ár sem ég var í barnaskóla þá kemur fyrst upp í huga minn að ég varð að vera inn í hópnum, stjórna og ráðskast með aðra. Ég var alltaf mikill foringi og passaði mig á því að vera það allstaðar svo ég myndi ekki lenda undir. Það var bara ein stelpa sem mér líkaði aldrei við og sú stelpa var líka foringi, hún gerði mér aldrei neitt en hún var svona eins og ég vildi vera mest áberandi hún ögraði mér og ég þoldi það ekki því ég vildi vera vinsælust, öllum átti að líka við mig og finnast ég æðisleg.
Ég var alltaf mjög mikið á móti áfengi og reykingum, stelpurnar í skólanum reyktu en ég kom ekki nálægt því, mér fannst það bara glatað og setti þvílíkt útá þá sem reyktu samt stóð ég alltaf með þeim þegar þau fóru út í sígó í frímínútunum. Þegar ég var í 8 bekk breyttist hins vegar allt. Ég kynntist stelpu sem var villingur ég byrjaði að hanga mikið með henni og ég gleymi ekki þeim degi þegar ég byrjaði að reykja sígarettur, vinkona mín reykti og einn daginn sagði ég: „Gefðu mér sígó ég ætla að byrja að reykja” og svo bara byrjaði ég að reykja og ekki í hófi heldur mökk reykja.
Ég man líka þegar ég byrjaði að drekka þessi sama vinkona mín pantaði sér vín og ég datt í það vínið sem ég smakkaði var Landi, ég fann á mér, horfði í spegil og hugsaði shitt….hvað er ég að gera? Ég vissi svo innilega að ég ætti ekki að vera að þessu en mér fannst þetta samt sem áður æðislegt.
Frá og með fyrsta skiptinu sem ég drakk breyttist allt. Ég breyttist í aðra manneskju varð villingur strauk að heiman, byrjaði að stela úr búðum, ljúga og særa aðra. Fyrsta alvöru fylleríið mitt endaði illa ég drakk mjög mikið, nokkrir strákar sturtuðu alveg í mig vodka og það endaði með því að ég drapst. Daginn eftir vaknaði ég og fékk að vita það að ég hefði misst meydóminn brennívínsdauð og vá.. mér leið ömurlega. Ég ældi og ældi – á einu kvöldi var ég búin að drekka mig dauða, strjúka að heiman, húkka mér far, missa meydóminn þannig að ég mundi ekki neitt eftir því og vaknaði á gólfinu á dýnu með engu laki og oj, þetta var ekki það sem ég hafði ætlað mér.
En það stöðvaði mig ekki, ég hélt bara áfram ég byrjaði að hanga mikið niður í bæ með fólki sem var eins og ég nennti að djamma, vildi stela og vera óheiðalegt. Ég byrjaði í neyslu, á sama deginum prufaði ég hass, og spítt eftir það leiddi eitt af öðru. Ég varð hrokafull, dómhörð og stöðugt í vörn. Ef einhver rakst óvart í mig þá trylltist ég. Ég varð stjórnlaus, leigði mér íbúð 15 ára með vinkonum mínum og þá fékk mamma nóg. Hún lét sækja mig og loka mig inni á unglingarheimili. Ég var brjáluð út í mömmu fyrir það og mér fanst hún bara geðveik, að hún hafði dirfst til að loka mig inni á einhverju unglingarheimili, en þetta var ekki í fyrsta og eina skiptið því þangað fór ég oft og á endanum í 2 mánuði, ég reif kjaft, strauk og var brjáluð út í mömmu mína.
Ég skreið yfir samræmdu prófin og náði tveim þeirra. Það var alltaf verið að reka mig úr skólanum og í 10. bekkjar ferðinni var ég svo full að ég fór í blackout og man ekki neitt nema brot og brot, ég gerði mig að geðveiku fífli. Ég grenjaði í skólastjóranum útaf einhverri kápu sem ég hélt ég hefði týnt og vá eftir þetta þá var ég eins og fífl í skólanum.
Í 10 bekk byrjaði ég með strák ég kom illa fram við hann, niðurlægði hann og var hreint út sagt vond við hann. Ég drakk mikið og illa, var í neyslu og hagaði mér samkvæmt því. Svona var lífið mitt til 17 ára aldurs þá fann ég botninn. Ég bjó á Hótelum og var með strák sem var rosalegur fíkill og ég elti hann, ég gerði bara það sem hann gerði og fylgdi honum í ræsið. Hann var langtum meiri fíkill en ég og á þessu tímabili þá var ég orðin meiri fíkill en hann. Við áttum mikla samleið á þessum tíma því við vorum bæði mjög andlega veik. Á endanum dó hann af völdum alkóhólisma. Ég var mjög langt niðri, og varð edrú. Á þessum tíma langaði mig mest til að deyja ég sat uppi ein, með klesstan bíl, fullt af skuldum, búin að svíkja og særa fólk í kringum mig og í þvílíkri sorg því kærastinn minn hafði dáið. Ég sótti fundi en vann aldrei sporin.
Ég sat marga AA fundi en allt sem var sagt þaut í gegnum eyrun á mér og ég hreinlega heyrði ekki í þeim sem voru að tala. Á endanum datt ég í það og það skipti endaði þannig að ég lenti á spítala og síðar inn á 33 A, þá fékk ég ógeð, algert ógeð. Ég fór í meðferð árið 2000 og var edrú lengi eftir á án þess að vera virk í AA, ég kynntist strák og við eignuðumst barn saman ég helgaði líf mitt barninu mínu og hætti að tala við fólk í neyslu. Ég tók móðurhlutverkið mjög alvarlega og vildi vera syni mínum góð móðir, fyrirmynd og standa með honum. Ég stóð við það og var edrú lengi lengi án þess að vera í prógrammi. Eftir langan edrú tíma var ég byrjuð að trúa því að ég væri ekki alki og að ég gæti bara fengið mér einn, tvo bjóra. Ég gerði það og það gekk vel þangað til að sagan fór að endurtaka sig. Sem betur fer áttaði ég mig strax og náði að snúa við blaðinu áður en ég fór niður á við. Ég sinnti barninum mínu 100% og mér gekk mjög vel í lífinu ég menntaði mig og svo framveigis.. Ég varð aftur ólétt og eignaðist annað barn og helgaði börnunum mínum líf mitt ég vildi vera þeim eins góð mamma og ég gæti.
Ég fór í sporin og tók þau með alvöru og sem betur fer því sporin gerðu svo ótrúlega margt fyrir mig og gera enn þann dag í dag. Í sporunum gerði ég upp fortíðina mína, losnaði við svo þunga byrði sem hafði hvílt á mér og óttinn, gremjan, vanlíðanin og bara allt fór. Ég er svo ótrúlega þakklát guði fyrir það hvað ég á yndislega fallegt, gleðilegt og yndislegt líf í dag og það er allt honum að þakka . Hann leiddi mig á rétta braut, hann styður mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og hann lýsir mér veginn. Með hans hjálp er ég edrú og er að gera virkilega góða hluti í lífinu.
Reynsl mín sannar að það er ekki gott fyrir mann að vera edrú í engu prógrammi því að prógrammið er það sem fær mann til að vera frjáls og hamingjusamur edrú. Með því að vera í prógrammi treystir maður guði og það er alveg yndislegt.
Ég vona svo innilega að þið sem lesið þetta, eruð alkar og ekki í neinu prógrammi farið í sporin því þá fyrst öðlist þið besta líf sem þið gætuð hugsað ykkur.
Gangi ykkur vel – Kona í bata