Hvernig fer vinna í Tólf sporunum fram?
Til að svara þessari spurningu fengum við góðfúslegt leyfi A.M. til að nota samantekt úr BS-ritgerð sem unnin var vorið 2004 og fjallaði um meðferðargildi Tólf sporanna. Notuð eru Tólf spor AA-samtakanna.
1. sporið
Við viðurkenndum vanmátt okkar gegn áfengi og að okkur var orðið um megn að stjórna eigin lífi.
Fyrsta sporið fjallar um að einstaklingur viðurkennir sinn eyðileggjandi veikleika og allar afleiðingar hans, hann viðurkennir fullkominn ósigur (Tólf reynsluspor og Tólf erfðavenjur). Einstaklingurinn viðurkennir vanmátt sinn í lífinu og horfist í augu við raunveruleikann, og viðurkennir að líf sitt sé stjórnlaust vegna ákveðins vandamáls, það er að þetta ákveðna vandamál stjórni lífi hans. Einstaklingurinn viðurkennir ósigur og gerir sér grein fyrir því að hann þarfnast hjálpar. Fyrsta sporið leggur grundvöllinn að því að vinna í hinum sporunum. Þrátt fyrir að hegðun einstaklingsins hafi ekkert gert annað en að valda streitu og sársauka er erfitt að sleppa tökunum og treysta því að allt fari vel ( Tólf sporin – Andlegt ferðalag,1999).
2. sporið
Við fórum að trúa að máttur, okkur æðri, gæti gert okkur heilbrigð að nýju.
Annað sporið fjallar um trú, traust og sannfæringu. Trúin er ekki skilgreind vitsmunalega, hún bara er, trú verður ekki val, hún er nauðsynleg til þess að bati geti átt sér stað. Oft er talað um annað sporið sem spor vonarinnar. Það er mögulegt að fá hjálp. Allt sem einstaklingurinn þarf að gera er að vera fús til þess að trúa á æðri mátt, rétta út höndina og þiggja hjálpina (Tólf sporin – Andlegt ferðalag,1999). Með trúarneista í hjarta verður einstaklingurinn fær um að hafa skipti á því sem að hann telur vera heilbrigða hegðun og því sem að æðri máttur telur vera heilbrigða hegðun. Margir hafa trúað því lengi að heilbrigt sé að treysta engum nema sjálfum sér, en eins og kemur fram í sporunum felst heilbrigði í því að treysta æðra mætti (Hugleiðingar um tólf sporin-Andlegt ferðalag). En hvað gera þeir sem eiga enga trú? Allt sem þarf er opinn hugur, sönn auðmýkt og opinn hugur getur leitt til trúar, sérhver tólf spora fundur fullvissar einstaklinginn um að æðri máttur muni gera hann heilbrigðan að nýju, þegar hann sér fyrirmyndirnar sem að aðrir gefa sem hafa tileinkað sér lífsstíl tólf sporanna (Tólf reynslupor og tólf erfðavenjur,1981).
3. sporið
Við tókum þá ákvörðun að leita Guðs og láta vilja okkar og líf lúta handleiðslu hans, samkvæmt skilningi okkar á honum.
Í þriðja sporinu tekur einstaklingurinn ákvörðun um að treysta æðra mætti. Vilji einstaklingsins er settur til hliðar og traust á æðri mátt verður virkt. Í rauninni verður einstaklingurinn háður því að treysta æðra mætti í staðinn fyrir að treysta alltaf á sjálfan sig (Steigerwald og Stone, 1999). Sú ákvörðun að treysta æðra mætti er ákvörðun sem að þarf að taka á hverjum degi og jafnvel oft á dag. Kanski er ekki alltaf fúsleiki til staðar til þess að treysta æðri mætti, flestir þurfa tíma og æðri máttur þröngvar engu upp á neinn (Hugleiðingar um Tólf sporin). Meðlimir tólf spora samfélaga hafa notað æðruleysisbænina sér til stuðnings þegar þeim finnst bata þeirra ógnað á einhvern hátt. Æðruleysisbænin tengist þriðja sporinu sterklega og hljóðar hún svona : “Guð, gef mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til þess að breyta því sem ég get breytt og vit til þess að greina þar á milli …”
4. sporið
Við gerðum rækilega og óttalaust siðferðileg reikningsskil í lífi okkar.
Í fjórða sporinu skoðar einstaklingurinn líf sitt og kemst hugsanlega að því að þar er ýmislegt sem þarfnast athugunar. Hann skráir hjá sér jákvæðar og neikvæðar hliðar lífsins, hann gerir reikningsskil í lífi sínu. Í þessu spori er mikilvægt að viðurkenna að afneitun hefur verið ríkjandi í lífinu. Þá þarf viðkomandi að treysta á Guð, samkvæmt skilningi einstaklingsins á honum, til þess að hjálpa sér við að horfast í augu við sjálfan sig á heiðarlegan hátt. Þegar unnið er í fjórða sporinu er gott að hafa í huga að æðri máttur þekkir einstaklinginn, hann þekkir syndir hans og takmarkanir, hann þekkir veikleikana, og styrkleikana. Æðri máttur veit að einstkalingurinn getur ekki séð um sig sjálfur án hans hjálpar, hann tekur á sig byrðar einstaklingsins svo að hann brotni ekki undan þunga þeirra og erfiði. Æðri máttur vill að einstaklingurinn læri að þekkja styrkleika sína og nota þá (Hugleiðingar um Tólf sporin).
5. sporið
Við játuðum afdráttarlaust fyrir Guði, sjálfum okkur og trúnaðarmanni yfirsjónir okkar.
Einstaklingurinn hefur horft á syndir sínar, bresti og galla í fjórða sporinu. Í fimmta sporinu er kominn tími til að vera heiðarlegur varðandi það sem fannst og viðurkenna það fyrir sjálfum sér, æðri mætti og öðrum einstaklingi (Hugleiðingar um Tólf sporin- Andlegt ferðalag). Í fimmta sporinu er mikilvægt að eiga trúnaðarmann, einhvern sem þekkir sporin af eigin reynslu og sem getur leiðbeint og veitt stuðing. Einstaklingurinn kemur með bresti sína upp á yfirborðið sem oft hafa verið lengi í felum og eitrað út frá sér. Það getur reynst erfitt að vinna þetta spor þar sem einstaklingurinn þarf að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna bresti sína fyrir sjálfum sér og öðrum. Margir eru búnir að byggja varnir til þess að halda öðrum frá. Verkefni fimmta sporsins er játning, það er ekki auðvelt verk en alger nauðsyn (Tólf sporin andlegt ferðalag).
6. sporið
Við vorum þess albúin að láta Guð lækna allar okkar skapgerðarveilur.
Í þessu spori er komið að því að sleppa tökunum á gömlum venjum. Fortíðinni hefur verið stjórnað af eigin vilja og einstaklingurinn þarf að finna fúsleika til þess að gefa upp bresti sína og leyfa æðri mætti að vinna sína vinnu. Tilgangurinn með sjötta sporinu er að einstaklingurinn geri ekkert, núna er kominn tími fyrir innri breytingar á hug og hjarta, lykilorðið albúin undirstrikar viljann til þess að stefna að því besta sem einstaklingurinn veit um eða getur lært. Sjötta sporið er erfitt, en engan veginn óframkvæmanlegt. Áríðandi er að halda áfram að reyna. Ekki er ætlast til þess að einstaklingurinn verði fullkominn heldur sýni framför, segja frekar “þessu get ég ekki ennþá hætt frekar en þessu get ég aldrei hætt” (Tólf reynsluspor og Tólf erfðavenjur,1981).
7. sporið
Við báðum Guð í auðmýkt að losa okkur við brestina.
Þetta spor fjallar um auðmýkt, auðmýkt er í rauninni það að leggja heiðarleika, umburðarlyndi og kærleika til Guðs og manna til grundvallar í daglegu lífi. Einstaklingurinn viðurkennir að líf hans hefur að mestu snúist um að uppfylla eigingjarnar óskir hans, hann gerir sér grein fyrir að hann þarf að losa sig við þessa hrokafullu og skaðlegu hegðun, sættast við ágalla sína og gera sér grein fyrir því að eingöngu með því að leita vilja æðri máttar mun hann verða frjáls. Sjöunda sporið krefst þess að einstaklingurinn afhendi æðri mætti vilja sinn til þess að hann geti fundið það æðruleysi sem nauðsynlegt er til þess að öðlast lífshamingju. Í þessu spori hefur einstaklingurinn látið af þeirri blekkingu að hann geti bjargað sér sjálfur og viðurkennir að hann þurfi að fá hjálpina frá æðri mætti. Sjöunda sporið krefst bænar, auðmjúkar bænar um að gallar verði fjarlægðir – einn og einn í einu (Tólf sporin – Andlegt ferðalag). Auðmýkt er að viðurkenna fúslega þörfina fyrir hjálp og treysta æðri mætti fyrir svarinu.
8.sporið
Við skráðum misgjörðir okkar gegn náunganum og vorum fús til að bæta fyrir þær.
Allt lífið hefur einstaklingurinn látið aðra finnast að þeir væru ábyrgir fyrir sorg hans og þjáningum, hann hefur látið aðra þjást með sér. Hann gerir sér grein fyrir að hann getur ekki breytt öðrum en hann getur horfst í augu við sjálfan sig og axlað þá ábyrgð sem því fylgir (Hugleiðingar um Tólf sporin). Í áttunda sporinu tekur einstaklingurinn ábyrgð á gerðum sínum án þess að hugsa um það sem aðrir hafa gert á hans hlut. Hann veltir því fyrir sér hvaða fólk hefur orðið fyrir skaða af hans völdum og finnur fúsleikann til þess að bæta fyrir þau brot sem hann hefur gert á annarra hlut ( Tólf sporin – Andlegt ferðalag). Og svo sem að þér viljið að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra (Lúk. 6:31).
9.sporið
Við bættum fyrir brot okkar milliliðalaust, svo framarlega sem það særði engan.
Níunda sporið felur í sér að hafa beint eða óbeint samband við þá sem einstaklingurinn hefur skaðað og bæta fyrir brot sín ( Tólf sporin – Andlegt ferðalag). Við það að bæta fyrir brot sín getur einstaklingurinn lagfært það sem úrskeiðis fór í fortíðinni og opnað leið fyrir endurlausn og endurreisn. Níunda sporið fjallar um einstaklinginn, ekki þá sem hann biður fyrirgefningar. Þeir munu hafa gott af viðleitni hans en það er einstaklingurinn sem mun breytast og læknast. Níunda sporið er spor fyrirgefningarinnar, það er kominn tími til að fyrirgefa. Með því að fyrirgefa afsalar einstaklingurinn sér réttinum til þess að hata eða finna til beiskju. Um leið og einstaklingurinn leitast eftir fyrirgefningu þarf hann líka að vera fús til þess að fyrirgefa (Hugleiðingar um tólf sporin).
10.sporið
Við iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn og þegar út af bar, viðurkenndum við yfirsjónir okkar undanbragðalaust.
Tíunda sporið felur í sér viðhaldsvinnu. Einstaklingurinn gerir daglega persónulega úttekt á lífi sínu og viðurkennir það sem út af ber og reynir að bæta það, hann iðkar stöðuga sjálfsskoðun. Í rauninni má líkja tíunda sporinu við það að rækta garðinn sinn, einstaklingurinn er stöðugt að hugsa um að hreinsa illgresið í burtu. Að vera í góðum bata er takmarkið, einstaklingurinn hættir aldrei að vaxa og þroskast. Þegar sá dagur kemur að einstaklingurinn heldur að hann hafi náð fullkomnun er það sá dagur sem afneitunin nær aftur völdum (Hugleiðingar um tólf sporin).
11.sporið
Við leituðumst við með bæn og hugleiðslu, að styrkja vitundarsamband okkar við Guð, samkvæmt skilningi okkar á honum, og báðum um skilning á því sem okkur var fyrir bestu og mátt til að framkvæma það.
Vinnan í ellefta sporinu felst í því að gefa sér reglubundinn tíma til þess að iðka bæn og hugleiðslu og styrkja þannig tengslin við æðri mátt. Í bæninni á einstaklingurinn samtal við Guð og biður til hans en í hugleiðslunni hlustar einstaklingurinn á Guð í von um að heyra það sem Guð vill segja. Með því að styrkja tengslin við æðri mátt nálgast einstaklingurinn enn betur orkulind sína og uppsprettu æðruleysis, leiðsagnar og lækningar. Til að varðveita það sem lært er verður einstaklingurinn stöðugt að leita vilja Guðs með hann (Tólf sporin – Andlegt ferðalag).
12.sporið
Við fundum, að sá árangur, sem náðist með hjálp reynslusporanna, var andleg vakning og þess vegna reyndum við að flytja öðrum alkóhólistum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi okkar og starfi.
Tólfta spors vinna felst í vextinum, einstaklingurinn gerir sér grein fyrir þeirri andlegu vakningu sem hann hefur orðið fyrir og finnur þörfina fyrir að deila reynslu sinni með öðrum og að iðka grundvallar reglur sporanna á öllum sviðum lífsins. Það að breiða út boðskapinn og að vera trúnaðarmaður fyrir einstakling sem er að leita bata er mikilvægur liður í að viðhalda batanum. Tólfta sporið gerir þá kröfu að einstaklingur sem hefur tileinkað sér sporin, sé verkfæri til að hjálpa öðrum að taka við boðskap Guðs um von og lækningu með því að vinna í sporunum (Tólf sporin-Andlegt ferðalag). “Lífið fær nýtt gildi. Að sjá fólk ná sér, að sjá það hjálpa öðrum, að horfa á einmanaleikann hverfa, að sjá vinahópinn vaxa í kringum sig – allt þetta er reynsla, sem þú mátt ekki verða af. Þú villt ekki verða af henni. Það bregður birtu yfir líf okkar að vera í tíðu sambandi við nýliða og hvert annað” ( AA bókin, bls 106).