Hvað geta Tólf sporin gert fyrir þig?
Í bataferlinu skoðar einstaklingurinn skapgerðagalla sína og bresti og leitast við að breyta þeim í andstæðu sína.
Tólf sporin hjálpa einstaklingnum að vinna í því að breyta
ótta í trú,
hatri í kærleika,
hroka í auðmýkt,
áhyggjum og kvíða í æðruleysi,
afneitun í viðurkenningu,
afbrýðisemi í traust,
ímyndun í raunveruleika,
eigingirni í þjónustu,
gremju í fyrirgefningu,
fordæmingu í umburðalyndi,
örvæntingu í von,
sjálfshatri í sjálfsvirðingu og
einmannaleika í samfélag.
Allt þetta miðar að því að gera einstaklinginn að betri manneskju og raunverulega markmiðið er að einstaklingurinn öðlist bata eða framfarir en ekki fullkomnun (Practise these principles and what is the Oxford Group, 1997). Hver vill ekki eiga slík markmið að stefna að? Ef einstaklingur hvort sem hann á við ávanamyndandi hegðun að stríða eða ekki, getur eða hefur löngun til þess að tileinka sér boðskap tólf sporanna er mjög líklegt að hann hagnist af því á einhvern hátt.
Það sem sporin gera í lífi einstaklingsins er að dýpka skynjun hans á honum sjálfum og kenna honum að þekkja sínar eigin tilfinningar og ráða við þær. Einstaklingurinn lærir að þykja vænt um og annast um sjálfan sig og lærir smátt og smátt að tjá tilfinningar sínar og líðan. Sporin styrkja sjálfsmynd einstaklingsins og hjálpa honum að skynja hvað gerir honum gott og hvað hefur slæm áhrif á líf hans.